Niðurstöður liggja nú fyrir um ársreikninga 61 af 64 sveitarfélögum landsins fyrir árið 2022. Í þessum sveitarfélögum búa yfir 99% landsmanna.
Samandregnar niðurstöður
- Afkoma A-hluta sveitarfélaga árið 2022 var töluvert lakari en árið 2021.
- Rekstrarafgangur var neikvæður um 21,1 ma.kr., samanborið við neikvæðan rekstrarafgang um 8,5 ma.kr. árið á undan. Í hlutfalli við tekjur var hallinn 4,6% af tekjum 2022, en 2,1% árið á undan.
- Aukin verðbólga og hækkun vaxta eru megin skýring á verri afkomu. Fjármagnsgjöld að frádregnum fjármagnstekjum hækkuðu milli ára um 11,7 ma.kr. En til samanburðar jókst hallinn um 12,6 ma.kr. Rekstrarafgangur án fjármagnsliða var jákvæður um 0,4% af tekjum 2022 en 0,6% árið áður.
- Rekstur A-hluta skilaði veltufé sem nam 3,7% af tekjum árið 2022, en árið áður var hlutfallið örlítið hærra eða 3,9%.
- Fjárfestingar A-hluta voru um 62 ma.kr. árið 2022 en voru 46 ma.kr. árið á undan. Til fjárfestinga var varið 13,6% af tekjum árið 2022 og 11,5% 2021.
Breyting á reglugerð um bókhald sveitarfélaga
Fyrir reikningsárið 2021 tók í gildi breyting á reglugerð um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga nr. 1212/2015. Lýtur breytingin að reikningshaldslegri meðferð á samstarfsverkefnum sveitarfélaga sem eru með ótakmarkaðri ábyrgð sveitarfélagsins.
Í 3. mgr. 20. gr. reglugerðarinnar segir:
„Byggðasamlög, sameignarfélög, sameignarfyrirtæki og önnur félagaform sem eru með ótakmarkaðri ábyrgð sveitarfélags, skulu færð inn í samantekin reikningsskil sveitarfélags miðað við hlutfallslega ábyrgð sveitarfélags, þ.e. sveitarfélag skal færa hlutdeild þess í einstökum liðum rekstrar og efnahags, óháð stærð eignarhluta.“
Þetta hefur í för með sér að rekstrar-, eigna- og skuldaliðir hækka í ársreikningum sveitarfélaga 2022 sem nemur hlutdeild sveitarfélagsins í þeim samstarfsverkefnum sem sveitarfélagið á aðild að. Bent skal á að alla jafnan hækka tekjur og gjöld af þessum sökum um svipaðar fjárhæðir þannig að niðurstöðutölur breytast lítið. Samanburður á einstökum liðum milli ára, eins og tekjum og launum og tengdum gjöld, geta hins vegar ofmetið hækkanir. Hafa ber þetta í huga þegar ársreikningar ársins 2022 eru bornir saman við fyrri ár. Reykjavíkurborg, eitt sveitarfélaga, ákvað að setja fram ársreikning 2021 eins og reglugerðin sagði til um, önnur völdu að fresta um eitt ár. Flest byggðasamlögin eru í B-hluta reikningskila sveitarfélaga og áhrifanna gætir því í mörgum tilvikum frekar í samstæðu A- og B-hluta en í A-hluta.
Hér er hægt að nálgast ársreikninga sveitarfélaga 2022