Áhersla á innkaup sveitarfélaga í úrgangsmálum

Sambandið hefur opnað fyrir skráningar á þátttöku á fundi um innkaup í úrgangsstjórnun sveitarfélaga. Verkefnið kallast ,, Kaup í anda hringrásarhagkerfis – innkaup í úrgangstjórnun sveitarfélaga“.

Verkefnið er hluti af átakinu Samtaka um hringrásarhagkerfi. Fundurinn er fjarfundur sem fer fram þann 31. maí nk. 9:00-12:00 og er skráningarfrestur til og með 27. maí nk. Undanfarnar vikur hefur verkefnið Samtaka um hringrásarhagkerfi gert víðreist um landið og hitt fyrir sveitarstjórnarfólk og lykilstarfsmenn í úrgangsmálum. Fundurinn er ætlaður bæði kjörnum fulltrúum og lykilstarfsfólki í fjár- og innkaupamálum og úrgangsstjórnun sveitarfélaga.

Þessi hluti átaksins snýr að innkaupum sveitarfélaga á þjónustu, vörum og framkvæmdum í úrgangsmálum. Lögð verður áhersla á útboð á þjónustu við söfnun og aðra meðhöndlun úrgangs sem á eftir kemur, hvort sem er við heimili íbúa eða á grenndarstöðvum, söfnunar- og/eða móttökustöðvum  og að tryggja að nýlegar lagabreytingar rati inn í innkaup sveitarfélaga. Annarsvegar verður unnið með lagaleg úrlausnarefni og leiðbeiningar um góða starfshætti við opinber innkaup og hins vegar innkaupagreiningu með hliðsjón af þeim lagalegu kröfum í úrgangsstjórnun sveitarfélaga sem koma til framkvæmda 1. janúar 2023.

Sveitarfélög gegna veigamiklu hlutverki þegar kemur að úrgangsstjórnun og innleiðingu hringrásarhagkerfis. Umfangsmiklar breytingar urðu að ýmsum lögum í júní 2021 sem koma flestar til framkvæmda 1. janúar 2023 og er þeim ætlað að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis svo stuðla megi að sjálfbærri auðlindanotkun og draga úr myndun úrgangs. Sambandið hefur tekið saman helstu breytingar og þýðingu fyrir sveitarfélög í grein í Sveitarstjórnarmálum.

Mikilvægt er að sveitarfélög horfi til nýrra krafna í úrgangsmálum í útfærslu á þjónustu við hirðu og aðra meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu. Flest sveitarfélög bjóða ýmsa þætti úrgangsstjórnunar út og mikilvægt er að innkaupasamningar endurspegli þarfir sveitarfélaganna þegar kemur að því að uppfylla kröfur laganna um leið og að kostnaði er haldið í lágmarki, gegnsæi aukið og góð þjónusta við íbúa er tryggð.

Skrá þarf þátttöku á fundinn fyrir lok föstudagsins 27. maí. Hlekkur á fundinn verður sendur til skráðra þátttakenda fyrir fundinn.  

Dagskrá: 

  1. Opnun, fundarstjóri Freyr Eyjólfsson.
  2. Samtaka um hringrásarhagkerfi og hlutverk sveitarfélaga.  Eygerður Margrétardóttir, sérfræðingur Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
  3. Kaup í anda hringrásarhagkerfis. Bryndís Skúladóttir, sérfræðingur hjá VSÓ ráðgjöf.
  4. Framkvæmd útboða fyrir úrgangsþjónustu. Birgir Örn Birgisson, lögfræðingur hjá Consensa.
  5. Dæmisögur frá sveitarfélögum.
  6. Vinnustofa um innkaup í úrgangsstjórnun.
  7. Samantekt, fundarstjóri.