Umsögn um frumvarp til laga um lögheimili og aðsetur

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis umsögn um frumvarp til  laga um lögheimili og aðsetur. Frumvarpinu er ætlað að leysa af hólmi lög um lögheimili nr. 21/1990 og lög um tilkynningar aðsetursskipta nr. 73/1992. Markmið frumvarpsins er að stuðla að því að búsetu- og aðsetursskráning einstaklinga sé rétt og að réttaröryggi í meðferð ágreiningsmála er varða skráningu lögheimilis og aðseturs verði tryggt.

IMG_3368Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis umsögn um frumvarp til  laga um lögheimili og aðsetur. Frumvarpinu er ætlað að leysa af hólmi lög um lögheimili nr. 21/1990 og lög um tilkynningar aðsetursskipta nr. 73/1992. Markmið frumvarpsins er að stuðla að því að búsetu- og aðsetursskráning einstaklinga sé rétt og að réttaröryggi í meðferð ágreiningsmála er varða skráningu lögheimilis og aðseturs verði tryggt.

Lög um lögheimili hafa haldið gildi sínu í rúm 27 ár og lög um tilkynningar aðsetursskipta í 65 ár. Samfélagið hefur tekið allmiklum breytingum á gildistíma laganna og því er aðkallandi að gera breytingu á löggjöfinni. Frumvarpið leggur til að löggjöf um lögheimili sé einföld og skýr. Þá er lagt til að lög um tilkynningar aðsetursskipta verði felld úr gildi utan nokkurra ákvæða sem færð eru inn í frumvarpið.

Lögheimilaskrá

Frumvarpið leggur til að Þjóðskrá Íslands verði falið að halda sérstaka lögheimilaskrá sem inniheldur tilgreiningu á öllu húsnæði þar sem heimilt er að skrá lögheimili. Með því móti verður framvegis möguleiki að skrá einstaklinga á tilteknar íbúðir í húsi. Með skráningu í íbúðir er auðveldara að finna út staðsetningu viðkomandi einstaklings í húsnæði og með því fást upplýsingar um það hverjir halda saman heimili.

Í frumvarpsdrögum sem sett voru á vef ráðuneytisins til umsagnar í janúar sl., var ákvæði þess efnis að heimiluð væri skráning lögheimilis í frístundabyggð eða iðnaðar- og atvinnuhúsnæði ef fyrir lægi sérstakt samþykki viðkomandi sveitarstjórnar enda væru uppfyllt skilyrði laga og stjórnvaldsfyrirmæla um íbúðarhæft húsnæði og skipulag. Um var að ræða 4. mgr. 4. gr. frumvarpsins en ákvæðið var tekið út úr frumvarpinu í kjölfar athugasemda frá sveitarfélögum og sambandinu.

Sambandið gerir þó ákveðna fyrirvara við ákvæði 3. gr. frumvarpsins sem heimilar frávik frá meginreglu um lögheimilisskráningu. Gert er ráð fyrir að heimilt verði að skrá lögheimili á stofnunum og heimilum fyrir aldraða og í búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk sem og starfsmannabústöðum enda býr fólk að jafnaði þar til lengri tíma. Þá er sömuleiðis veitt heimild til tímabundinnar skráningar lögheimilis á áfangaheimilum og í starfsmannabúðum.

Tvöföld búseta

Töluverð umræða hefur átt sér stað undanfarið um tvöfalda búsetu. Frumvarpið leggur til að hjónum verði heimilað að skrá sig til lögheimilis á hvorum sínum staðnum og er um nýmæli að ræða. Sama gildir ekki um sambúðarfólk enda er um að ræða annars konar sambúðarform og skráðri sambúð verður ekki að öllu leyti jafnað við hjúskap. Að áliti sambandsins er tilefni til að ræða hvort þessi undantekning frá meginreglu um sameiginlegt lögheimili hjóna sé ekki of rúm. Mögulegt ætti að vera að skilyrða slíka skráningu, þannig hún gildi tímabundið, og að heimilt verði að sækja um hana af nánar tilgreindum ástæðum, svo sem vegna atvinnu.

Að áliti sambandsins er líklegt að alger opnun á að hjón þurfi ekki að eiga sama lögheimili muni með tímanum leiða til aukins ákalls um tvöfalda lögheimilisskráningu barna. Slík skráning gæti haft veruleg áhrif á þjónustu og útgjöld sveitarfélaga, ekki síst í skólamálum. Hefur sambandið áður veitt umsagnir um hugmyndir um tvöfalda búsetu og skólavist barna og í meginatriðum lagst gegn slíkum hugmyndum.