Aðlögun að breyttum heimi – hefjum samtalið - Sveitarfélög, áhrif loftslagsbreytinga og aðlögunaraðgerðir
Skipuleggjendur ráðstefnunnar eru: Veðurstofa Íslands, Byggðastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Innviðaráðuneytið og Umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytið.
Aðlögun byggða landsins og sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga. Leitast verður m.a. við að svara eftirfarandi spurningum:
- Hvað er aðlögun (e. adaptation) að loftslagsbreytingum og hvernig er hún öðruvísi en mótvægisaðgerðir (e. mitigation)?
- Hver eru möguleg áhrif loftslagsbreytinga á byggðir landsins og hverjar eru mögulegar afleiðingar fyrir samfélögin, atvinnuvegi, innviði, efnahag og umhverfi?
- Hvernig getur áhættumat og aðlögunaraðgerðir lágmarkað skaðleg áhrif loftslagsbreytinga og hjálpað okkur að grípa tækifærin?
- Hvað þurfa sveitarfélög og fulltrúar þeirra að gera til þess að lágmarka skaðleg áhrif loftslagsbreytinga?
Markmið viðburðarins snúa fyrst og fremst að því að hefja umræðu um aðlögun að loftslagsbreytingum fyrir alvöru með fulltrúum sveitarfélaga landsins, sem og öðrum er málið varðar. Mikilvægt er að stuðla að aukinni umræðu um eðli og mikilvægi aðlögunarvinnu á öllum stigum stjórnsýslunnar, ekki síst sveitarstjórnarstigi, vegna áhrifa loftslagsbreytinga. Tilgangur viðburðarins er því fyrst og fremst eftirfarandi:
- Fræða sveitarstjórnarfulltrúa og aðra áhugasama um aðlögun að loftslagsbreytingum, hvað það felur í sér og hvaða verkefni séu fram undan til þess að takast á við áhrif loftslagsbreytinga á byggðir landsins.
- Vekja athygli á nýrri stefnu stjórnvalda í aðlögun og hlutverki sveitarstjórna innan hennar, sem og nýrri aðgerð C.10 í Byggðaáætlun, um aðlögunarvinnu á sveitarstjórnarstigi.
- Vekja umræðu um mikilvægi þess að hefja skipulagningu aðlögunaraðgerða á sveitarstjórnarstigi, m.a. með því að veita fræðslu um mögulegar afleiðingar loftslagsbreytinga fyrir sveitarfélög, atvinnuvegi og byggðir landsins.
Fundurinn verður haldinn á Grand hótel frá kl. 09:00-12:00, aðeins 100 manns komast á staðfundinn en honum verður jafnframt streymt og mun streymi birtast hér á þessari síðu. Nauðsynlegt er að skrá sig á staðfundinn hér að neðan.