Náttúruvernd

Sveitarfélög gegna mikilvægu hlutverki í umhverfis- og náttúruvernd. Þau sinna lögbundnum þáttum eins og umhverfiseftirliti og -vöktun, þ.m.t. vöktun loftgæða og neysluvatns. Með skipulagsvinnu sinni hafa sveitarfélög áhrif á landslagsbreytingar, verndun svæða og viðkvæmrar náttúru. Þegar kemur að hnattrænum umhverfisvandamálum, svo sem loftlagsbreytingum og útrýmingu dýra og plantna mun sveitarfélög gegna æ mikilvægara hlutverki.

Fjölgun erlendra ferðamanna hér á landi hefur stóraukið áherslu á náttúruvernd með það að markmiði að stuðla að sjálfbærri ferðaþjónustu, sbr. setningu laga um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða nr. 75/2011 og laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegra minja nr. 20/2016. Jafnframt hefur friðlýstum svæðum fjölgað umtalsvert á undanförnum árum.

Sveitarstjórnir kjósa skal náttúruverndarnefndir, í samræmi við 14 gr. laga um náttúrvernd nr. 60/2013. Náttúruverndarnefndir skulu vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um náttúruverndarmál. Skulu þær stuðla að náttúruvernd hver á sínu svæði, m.a. með fræðslu og umfjöllun um framkvæmdir og starfsemi sem líklegt er að hafi áhrif á náttúruna, og gera tillögur um úrbætur til sveitarstjórna og Umhverfisstofnunar. Sveitarfélög hafa aðkomu að friðlýsingu landssvæða og geta stofnað fólkvanga, útvistarsvæði fyrir almenning. Umhverfisstofnun og náttúruverndarnefndir funda einu sinni á ári.

Ráðherra skipar ráðgjafarnefnd náttúruminjaskrár til fimm ára í senn. Skal nefndin skipuð sjö fulltrúum. Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir þrjá fulltrúa en Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og það ráðuneyti sem fer með atvinnumál og jarðrænar auðlindir skipa einn fulltrúa hver. Ráðherra skipar formann án tilnefningar.Hlutverk ráðgjafarnefndar er að vera ráðherra til ráðgjafar um gerð tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun (B-hluta) náttúruminjaskrár.

Í sveitarfélögum skal vera starfandi þriggja til sjö manna náttúruverndarnefnd samkvæmt lögum um náttúruvernd. Hlutverk náttúruverndarnefnda er að stuðla að náttúruvernd á sínu svæði. Þær skulu hafa forgöngu um það að vekja almennan skilning á gildi náttúruverndar og óspillts umhverfis. Náttúruverndarnefndir skulu fylgjast með því, að náttúru landsins sé ekki spillt með athöfnum sem brjóta í bág við ákvæði og fyrirmæli laga. Umhverfisstofnun og náttúruverndarnefndir funda einu sinni á ári.

Umhverfisstofnun gefur út upplýsingarit fyrir sveitarfélög um leyfisveitingar, sérstaka vernd, umsagnir, friðslýsingar, akstur utan vega, vegskrá og almennt hlutverk sveitarfélaga og náttúruverndarnefnda. Einnig gefur stofnunin út handbók um stjórnun friðlýstra svæða sem eru í umsjón Umhverfisstofnunar.

Sveitarfélög hafa fulltrúa í vatnaráði á grundvelli laga um stjórn vatnamála.