Byggingarmál og brunavarnir

Byggingar- og mannvirkjamál eru víðtækur málaflokkur sem margir opinberir aðilar koma að. Innan stjórnsýslu sveitarfélaga eru það byggingarfulltrúar sem fara meginhluta þeirra verkefna sem lúta að mannvirkjum í víðum skilningi. Málaflokkurinn heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið og fer Húsnæðis- og mannvirkjastofnun með yfirumsjón hans í umboði ráðuneytisins. Stofnunin sinnir einnig markaðseftirliti með byggingarvörum og tekur þátt í gerð íslenskra og evrópskra staðla á sviði byggingarmála.

Sveitarfélög geta einnig, með sérstakri samþykkt á grundvelli 7. gr. laga nr. 160/2010, um mannvirki, sett á fót byggingarnefnd. Sé byggingarnefnd skipuð fjallar hún um byggingarleyfisumsóknir áður en byggingarfulltrúi gefur út byggingarleyfi. Nefndin hefur einnig eftirlit með stjórnsýslu byggingarfulltrúa fyrir hönd sveitarstjórnar. 

Sveitarfélög geta sameinast um embætti byggingarfulltúa og eru nokkur dæmi um samstarf af því tagi, m.a. í uppsveitum Árnessýslu þar sem byggðasamlag annast lögbundin verkefni bæði byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa á starfssvæði samlagsins. Almennt gildir síðan að samvinna er á milli byggingar- og skipulagsfulltrúa enda margvíslegir snertifletir á milli verksviða þeirra. Byggingarfulltrúi skal þannig leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að byggingarleyfisskyld framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. Sjá: 10. gr. laga nr. 160/2010, um mannvirki.

Á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er fjölbreytt efni um byggingar- og mannvirkjamál.

Brunavarnir

Slökkvilið sveitarfélaga hafa margvíslegu þjónustuhlutverki að gegna við almenning og fyrirtæki. Þjónustan er að mestu leyti skilgreind í lögum og reglugerðum en er þó víðtækari en svo. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fer með málefni sem áður tilheyrðu Brunamálastofnun.