Í gegnum tíðina hafa íslendingar þurft að takast á við afleiðingar náttúruhamfara og samfélagslegra áfalla. Jarðskjálftar og eldgos hafa valdið miklu eignatjóni og ótta sem og farsóttir, mannskæð snjóflóð og skriðuföll hafa herjað á samfélög með alvarlegum afleiðingum og tekur endurreisn samfélagsins oft langan tíma. Þar gegna sveitarfélög lykilhlutverki enda sinna þau stórum hluta opinberrar þjónustu í samfélaginu. Því er mikilvægt að þau séu vel undirbúin fyrir slík verkefni.
Sveitarfélög geta beitt ýmsum aðferðum til að draga úr og milda afleiðingar náttúruhamfara og annarra áfalla á samfélagið. Sveitarstjórnir skipa almannavarnanefndir sem vinna að gerð hættumats og viðbragðsáætlana í umdæmum sínum, í samvinnu við ríkislögreglustjóra. Í lögum um almannavarnir nr. 82/2008 eru jafnframt lagðar auknar skyldur á sveitarfélög að útbúa viðbragðsáætlanir fyrir starfsemi sína og stofnanir.