Þjónustugjöld sveitarfélaga

Stór hluti innheimtra tekna sveitarfélaga telst til svokallaðra þjónustugjalda. Í hnotskurn má segja að einkenni þjónustugjalda séu að sveitarfélagi geti verið heimilt að innheimta gjald fyrir veitta þjónustu við ákveðnar aðstæður. Það gjald sem sveitarfélag ákveður í gjaldskrá verður ávallt að vera í samræmi við veitta þjónustu þannig að það gjald sem tekið er komi á móti kostnaði sem sveitarfélagið ber en sé ekki til sérstakrar tekjuöflunar umfram veitingu þjónustu. Við ákvörðun um innheimtu þjónustugjalds er gagnlegt fyrir sveitarfélag að fara í gegnum eftirfarandi gátlista þegar fyrir höndum stendur að ákveða álagningu þjónustugjalds:

 1. Lagaheimild
  • Hver er grundvöllur gjaldtöku?
 2. Greining á kostnaðarliðum
  • Hvaða gjaldaliði er heimilt að taka með þegar útreikningur þjónustugjalds er framkvæmdur?
 3. Kostnaðarútreikningur
  • Hvernig er kostnaðarútreikningur framkvæmdur? Er hægt að reikna út alla kostnaðarliði eða þarf að áætla kostnað vegna einhverra þeirra?
 4. Gildistaka
  • Á að gera ráð fyrir aðlögunartíma? Gildistaka verði t.d. ekki þegar við birtingu heldur eftir einhvern tíma?
 5. Staðfesting
  • Mæla lög fyrir um staðfestingu ráðherra áður en gjaldskrá vegna þjónustugjalds er birt?
 6. Birting - Kynning
  • Með hvaða hætti ber að standa að kynningu nýrra gjaldskráa (umfram það sem hugsanlega er mælt fyrir um í lögum)? Skal birta þær í Stjórnartíðindum.
 7. Viðbrögð við kvörtunum
  • Hvernig á að bregðast við kvörtunum? Þarf að ákveða ferli fyrir slíkt?
 8. Ferli við endurskoðun
  • Verklag ef upp kemur ábending um endurskoðun gjaldskrár.
 9. Endurgreiðsla ofgreiddra gjalda
  • Hvernig á að standa að endurgreiðslu ef íbúar hafa ofgreitt þjónustugjöld?

Tekið hefur verið saman minnisblað af lögfræði- og velferðarsviði þar sem nánar er farið yfir hvaða sjónarmið sveitarfélag þarf að hafa í huga við ákvörðun þjónustugjalda, þar sem fjallað er um helstu álitaefnin sem reynir á við töku þjónustugjalda. Auk þess hefur verið útbúinn listi yfir helstu og algengustu gerðir þjónustugjalda sem lagaheimild er fyrir sem finna má hér neðar á síðunni.