Starfsmenn sambandsins hafa fengið fjölmargar fyrirspurnir að loknum sveitarstjórnarkosningum um úthlutun sæta í nefndir og ráð en samkvæmt 40. gr. sveitarstjórnarlaga gildir svokölluð d´Hondts regla um skiptingu þessara sæta þegar fram fer listakosning í nefndir.
Sú regla er fremur einföld og felur í sér að til þess að finna hve margir frambjóðendur hafa náð kosningu í nefnd skal deila í sætafjölda listanna með tölunum 1,2,3,4 o.s.frv. eftir því sem við á. Útkomutölur eru síðan skráðar fyrir hvern lista og fær sá listi fulltrúa sem hæsta útkomutölu hefur hverju sinni, þar til úthlutað hefur verið jafnmörgum fulltrúum og kosið er um. Ef tvær eða fleiri útkomutölur eru jafnháar skal hluta um röð frambjóðenda. Rétt er að taka fram að það er eingöngu fjöldi bæjarfulltrúa sem greiðir hvorum lista atkvæði sem ræður útkomunni. Fjöldi greiddra atkvæða lista í sveitarstjórnarkosningum hefur því engin áhrif á nefndakjör.
Ljóst er að miklu skiptir fyrir þá lista sem skipa minnihluta í sveitarstjórnum að gera sér grein fyrir því hvort þeir geti haft aukin áhrif í nefndakjöri með því að hafa samvinnu sín á milli um val á fulltrúum. Almennt má segja að framboðslistar sem aðeins eiga einn fulltrúa í sveitarstjórn geti haft mikinn hag af slíku samstarfi enda geta þeir ella staðið frammi fyrir því að fá jafnvel enga fulltrúa í nefndir og ráð sveitarfélagsins. Að neðan er dæmi frá sveitarfélagi þar sem er sjö manna sveitarstjórn. Við kjör í fræðslunefnd sveitarfélagsins eru boðnir fram þrír listar, þ.e. A-listi, sem á fjóra fulltrúa í sveitarstjórn, B-listi sem á tvo fulltrúa og C-listi sem á aðeins einn fulltrúa. Í þessu tilviki er A-listi öruggur um þrjá nefndarmenn og B-listi um einn. Hlutkesti ræður því síðan hver listanna þriggja fær fimmta nefndarmanninn. Ef B- og C-listi byðu hins vegar fram sameiginlegan lista væru þessir flokkar öruggir um tvo fulltrúa til samans.
*) Sætisnúmer í nefndinni
Kostir samvinnu verða enn augljósari þar sem sveitarstjórn er fjölmennari og samansett af fulltrúum nokkurra lista. Þannig má taka dæmi af níu manna sveitarstjórn þar sem einn flokkur hefur hreinan meirihluta. Við kjör í félagsmálanefnd getur Z-listinn tryggt sér fjóra fulltrúa ef minnihlutaflokkarnir vinna ekki saman eins og sjá má hér að neðan:
*) Sætisnúmer í nefndinni
Ef hins vegar Æ- og Ö-listinn standa sameiginlega að nefndarkjöri geta þeir tryggt sér einn fulltrúa í félagsmálanefnd. Einnig gætu Þ-, Æ- og Ö-listi boðið fram sameiginlegan lista og tryggt sér þannig tvo fulltrúa í nefndinni.
Rétt er að taka fram að lokum að víða í sveitarstjórnum reynir ekki á kjör í nefndir og ráð með þeim hætti sem að framan er lýst. Ástæðan er sú að fulltrúar flokkanna hafa þá náð samkomulagi um að leggja fram tilnefningarlista með nöfnum fulltrúa í nefndir sem síðan er samþykktur samhljóða í sveitarstjórn.
Hægt er að stilla upp einföldu dæmi sem skýrir áhrif þessarar reglu:
Í sveitarstjórn Fagrafjarðar eru fimm fulltrúar. A-listi á þrjá sveitarstjórnarfulltrúa en B- og D-listi eiga einn fulltrúa hvor. Listi meirihluta A-lista fær þrjá fulltrúa í hafnarstjórn Fagrafjarðar. Sameiginlegur listi minnihluta B- og D-lista fær tvo fulltrúa. Á báðum listum voru eingöngu karlar í efstu sætum en konur voru í 4. og 5. sæti á A-lista og 3. og 4. sæti á lista minnihlutans. Af ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 45. gr. leiðir að efsta konan á báðum listum færist upp í sæti aðalmanns í hafnarstjórn en karlar sem skipuðu 3. sæti á A-lista og 2. sæti á lista B- og D-lista verða fyrstu varamenn síns lista. Vert er að benda á að ekki myndi reyna á þessa reglu gagnvart B- og D-lista ef þeir flokkar hefðu ekki boðið fram sameiginlegan lista þar sem þá hefði hvor þeirra aðeins fengið einn fulltrúa kjörinn í hafnarstjórn.
Rétt er að benda á að þessi regla um jöfnun kynjahlutfalls gildir ekki við kosningu í byggðarráð, sbr. 44. gr. laganna. Í skýringum með frumvarpi sem varð að sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 er um þessa undantekningarreglu m.a. vísað til þess að í 35. gr. laganna eru gerðar strangar kröfur um kjörgengi í og byggðarráð og ekki sé hægt að ganga út frá því að kynjahlutföll séu slík í sveitarstjórn að hægt sé að fullnægja kröfum um kynjakvóta í slíka nefnd. Þá byggist frumvarpið einnig á ákveðinni málamiðlun milli sjónarmiða um mikilvægi þess að tryggja jafnan aðgang kynjanna að nefndum og sjónarmiða um lýðræðislegan vilja íbúanna. Kosning í svo mikilvæga nefnd sem byggðarráð er þurfi þannig að endurspegla pólitískan styrkleika eða röðun einstakra fulltrúa í sveitarstjórninni eins og hann birtist í niðurstöðum kosninga.
Í 53. gr. sveitarstjórnarlaga er ákvæði um kjör fulltrúa í nefndir ráð og stjórnir sem sveitarfélagið á aðild að, þ.e. hin ýmsu samstarfsverkefni. Í greininni er tekið fram að ákvæði V. kafla laganna eigi við um slíka fulltrúa eftir því sem við getur átt. Af því leiðir að ákvæði 44. og 45. gr. laganna geta átt við um kjör fulltrúa skv. 53. gr. þegar listi fær tvo eða fulltrúa í slíka nefnd.