Sjálfsstjórn sveitarfélaga

Sveitarfélögum er tryggður sjálfsstjórnarréttur í 78. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að sveitarfélög skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Þá hefur Ísland fullgilt Evrópusáttmála um sjálfstjórn sveitarfélaga og öðlaðist sáttmálinn gildi 1. júlí 1991 hvað Ísland varðar. Í honum kemur m.a. fram að aðildarríki sáttmálans telja að sveitarstjórnir séu einn af helstu hornsteinum hvers lýðræðislegs stjórnarfars. Enn fremur að réttur þegnanna til þátttöku í stjórnun opinberra mála sé ein af þeim lýðræðislegu meginreglum sem séu sameiginlegar öllum aðildarríkjum Evrópuráðsins og að aðildarríkin séu þess fullviss að eðlilegast sé að njóta þessa réttar í sveitarfélögum. Því er einnig lýst yfir að tilvist ábyrgra sveitarstjórna geti haft í för með sér stjórnsýslu sem bæði er virk og í nánum tengslum við þegnana. Af framanrituðu má ljóst vera að sjálfstjórn sveitarfélaga er álitin afar mikilvæg í lýðræðisríkjum Evrópu.

Í sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 er í fyrsta sinn vísað beint til Evrópusáttmálans, í 3. gr. laganna. Greinin afmarkar stöðu sveitarfélaga gagnvart öðrum stjórnvöldum og inntak sjálfsstjórnarréttar þeirra með skýrari hætti en áður hefur verið gert í lögum hér á landi en hún hljóðar svo:

3. gr. Markmið laganna og forsendur.
Með lögum þessum er markaður almennur grundvöllur að starfsemi og stjórnskipulagi sveitarfélaga. Lögin byggjast á þeim forsendum að:

  1. sveitarfélög séu sjálfstæð stjórnvöld sem er stjórnað af lýðræðislega kjörnum sveitarstjórnum í umboði íbúa sveitarfélagsins,
  2. skipulag og starfsaðstæður sveitarfélaga séu þannig að þau geti sjálf borið ábyrgð á framkvæmd verkefna sem þeim er falið að sinna,
  3. sveitarfélög geti haft samvinnu sín á milli um starfrækslu þeirra verkefna sem þau geta ekki leyst af hendi á eigin vegum eða þau telja hagkvæmara að leysa með þeim hætti,
  4. afskipti annarra stjórnvalda af málefnum sveitarfélaga taki ávallt mið af sjálfstjórn sveitarfélaga samkvæmt stjórnarskráog sáttmála Evrópuráðsins um sjálfstjórn sveitarfélaga,
  5. sveitarfélög hafi sjálfstæða tekjustofna og sjálfsforræði á gjaldskrám sem þeim er heimilt að setja.

Önnur ákvæði sveitarstjórnarlaga undirstrika sjálfsstjórnarréttinn enn frekar og má þar m.a. nefna 2. mgr. 2. gr., sem leggur ráðherra sveitarstjórnarmála þá skyldu á herðar að „gæta að og virða sjálfstjórn sveitarfélaganna, verkefni þeirra og fjárhag.“ Í 3. mgr. 2. gr. segir að „Engu málefni sem varðar sérstaklega hagsmuni sveitarfélags skal ráðið til lykta án umfjöllunar sveitarstjórnarinnar.“