Siðamál

Sveitarstjórnum ber að setja sér siðareglur sem ná til allra kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn og nefndum og ráðum sem sveitarstjórnin skipar.

29. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011

Siðanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur gefið út leiðbeiningar til sveitarstjórna um gerð siðareglna og hlutverk siðanefndar sem finna má neðst á þessari síðu. Í leiðbeiningunum eru  nýjar sveitarstjórnir minntar á skyldu þeirra skv. 29. gr. sveitarstjórnarlaga til að meta hvort ástæða er til að endurskoða siðareglur sveitarfélagsins og setja siðareglur hafi það ekki þegar verið gert.  Jafnframt eru veittar leiðbeiningar um hvernig sé rétt að standa að skráningu siðareglna. Til að fylgja leiðbeiningunum eftir hélt formaður siðanefndarinnar Sigurður Kristinsson kynningu fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar sem var tekin upp þannig að hún gæti nýst fleiri sveitarfélögum. Kynningin er aðgengileg hér. Henni hefur verið skipt upp í tvo hluta. Í fyrri hlutanum fjallar Sigurður um siðferðileg álitamál í starfi kjörinna fulltrúa og í seinni hlutanum svarar hann spurningum bæjarfulltrúa um ýmis álitaefni sem komið hafa upp í þeirra störfum.

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga skipaði á fundi sínum þann 13. desember 2013 siðanefnd og kom nefndin saman til fyrsta fundar mánudaginn 7. apríl 2014.

Siðanefndina skipa:

  • Sigurður Kristinsson, heimspekingur og prófessor á hug- og félagsvísindasviði Háskólans á Akureyri, formaður
  • Erling Ásgeirsson, bæjarfulltrúi í Garðabæ, varaformaður og
  • Anna Guðrún Björnsdóttir, lögfræðingur og sviðsstjóri þróunar- og alþjóðasviðs sambandsins, sem jafnframt er starfsmaður nefndarinnar.

Helstu verkefni nefndarinnar eru samkvæmt skipunarbréfi:

  • Að veita ráð um efni og framsetningu siðareglna og endurskoðun þeirra
  • Að gefa út almennar leiðbeiningar til sveitarfélaga um túlkun siðareglna eftir því sem tilefni eru til.
  • Að fjalla almennt um skýringar á ákvæðum siðareglna með það fyrir augum að málum verði beint í réttan farveg. Nefndin hefur ekki úrskurðarvald um hvort siðaregla hafi verið brotin í ákveðnu tilviki heldur beinist umfjöllun hennar að því hvernig hægt sé að færa mál til betra horfs í framtíðinni.
  • Að veita sambandinu og stjórn þess aðstoð þegar þörf er á sérþekkingu sem nefndarmenn búa yfir, m.a. vegna námskeiða- og ráðstefnuhalds.

Í skipunarbréfi kemur einnig fram að í álitamálum varðandi túlkun á siðareglum tiltekins sveitarfélags skuli að jafnaði miða við að nefndin taki slík mál til meðferðar á fundi, ef tveir fulltrúar í sveitarstjórn standa að baki ósk um umfjöllun nefndarinnar. Umboð siðanefndar nær ekki til þess að afla gagna eða rannsaka málsatvik með sjálfstæðum hætti. Siðanefndin mun gera tillögu til stjórnar sambandsins um nánari málsmeðferðarreglur þar sem m.a. er fjallað um birtingu álita og annarra niðurstaðna og skilyrði þess að mál séu tekin til umfjöllunar.

Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins samþykkti fyrir nokkru hegðunarreglur fyrir alla sem koma að stjórnun sveitarfélaga og svæða sem fela í sér útvíkkun á hegðunarreglum fyrir kjörna fulltrúa sem þingið samþykkti árið 1999. Nýju reglurnar eru settar fram með hliðsjón af þeirri þróun sem átt hefur sér stað í stjórnun sveitarfélaga og svæða síðustu tvo áratugi þar sem útvistun almannaþjónustu hefur færst í vöxt, almenningur gerir meiri kröfur um gott siðferði og nýir samskiptamiðlar hafi orðið til. Í ályktun sem var samþykkt samhliða hvetur þingið sveitar- og svæðisstjórnir til að innleiða reglurnar eða til að setja sér hliðstæðar reglur. Það hvetur þær líka til að skipuleggja þekkingaruppbyggingu fyrir starfsfólk svo það sé betur undirbúið til að greina og bregðast við hugsanlegum siðferðislegum álitaefnum og hagsmunaárekstrum. Hlutverk reglnanna er skilgreint þannig:

  1. Að leiðbeina aðilum sem koma að stjórnun sveitarfélaga og svæða um þá hegðun sem þeir eiga að ástunda í daglegum störfum sínum.
  2. Að upplýsa almenning um þá hegðun sem hann á rétt á að aðilar, sem koma að stjórnun sveitarfélaga og svæða, sýni af sér.
  3. Að skapa traust á þeim sem koma að stjórnun svæða og sveitarfélaga.
  4. Að leiðbeina þeim sem hafa það verkefni að tryggja að það sé borin sé virðing fyrir reglunum.
  5. Að stuðla að því að siðferðislegir staðlar verði til.

Þessi ályktun er mjög áhugaverð fyrir íslensk sveitarfélög þar sem íslensku sveitarstjórnarlögin gera eingöngu ráð fyrir siðareglum fyrir kjörna fulltrúa. Tilefni er til að skoða útvíkkun með þeim rökum sem eru settar fram í skýrslu þingsins. Það er einnig áhugavert að í greinargerð með tillögunum er rakið að siðareglum og hegðunarreglum sé oft ruglað saman. Báðum sé ætlað að hvetja til sérstakrar hegðunar kjörinna fulltrúa og starfsmanna en þær nálgist viðfangsefnið á mismunandi hátt. Hegðunarreglur skilgreini nákvæmlega hvaða hegðun sé rétt og röng meðan siðareglur leitist við að veita leiðbeiningar um gildi og valkosti til að hafa áhrif á ákvörðun um tiltekna hegðun. Ljóst er að þetta greinimark er ekki skýrt í siðareglum íslenskra sveitarfélaga og einnig tilefni til að skoða það mál.