Lýðheilsa er samheiti yfir heilsuvernd og forvarnir. Lýðheilsustarf miðar að því að viðhalda og bæta heilbrigði fólks og byggist á samstarfi ólíkra fræðigreina og tekur meðal annars til félags-, umhverfis- og efnahagsmála.
Með lýðheilsu er átt við aðgerðir hins opinbera og annarra sem miða að því að viðhalda og bæta heilbrigði, líðan og aðstæður einstaklinga, þjóðfélagshópa og þjóðarinnar í heild með heilsueflingu, forvörnum og heilbrigðisþjónustu. Markmiðið er að efla og bæta lýðheilsu.
Mikilvægt er að skapa fólki aðstæður í samfélaginu sem auðvelda því að stunda heilbrigða lífshætti og efla vitund fólks og vitneskju um mikilvægi þess. Heilsuefling krefst samræmdra, þverfaglegra aðgerða á samfélagslegum grunni og nær til þátta utan hefðbundinnar heilbrigðisþjónustu.
Embætti landlæknis hefur boðið sveitarfélögum að taka þátt í átaksverkefni sem nefnist Heilsueflandi samfélag og miðar verkefnið að því að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa.
Leiðarljós Heilsueflandi samfélags:
- Virk þátttaka samfélagsins í heild, þ.m.t. hagsmunaaðila úr öllum geirum.
- Starfið byggir á bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma.
- Valda ekki skaða (DO NO HARM)
- Jöfnuður til heilsu með almennum aðgerðum og aðgerðum sem taka mið af þörfum viðkvæmra hópa.
- Sjálfbærni, leggja áherslu á að skipuleggja starf og árangur til lengri tíma litið.