Sveitarfélög sinna ýmsum verkefnum sem þeim eru falin að lögum, þ.e. lögmælt verkefni, en geta einnig, innan vissra marka, tekið að sér önnur verkefni sem ekki er kveðið á um í lögum, þ.e. ólögmælt eða valkvæð verkefni. Lögmæltum verkefnum má síðan skipta í annars vegar lögskyld verkefni og hins vegar lögheimil verkefni. Verkefni eru lögskyld ef sveitarfélögum er skylt að rækja þau. Dæmi um slíkt verkefni er skylda sveitarfélaga til að sinna félagsþjónustu innan sinna marka, sbr. 4. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Lögmælt verkefni geta einnig verið lögheimil en í því felst að sveitarfélag hefur svigrúm til þess að ákveða hvort verkefninu er sinnt, en ef sú ákvörðun er tekin gildir um verkefnið tiltekinn lagarammi. Rekstur náttúrustofa er dæmi um lögheimilt verkefni, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 60/1992 um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur.
Með vísan til 1. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, hefur ráðuneytið tekið saman eftirfarandi yfirlit yfir lögmælt verkefni sveitarfélaga, flokkuð eftir málaflokkum og því hvort um lögskyld eða lögheimil verkefni er að ræða. Það skal tekið fram að yfirlitið hefur ekki gildi sem sjálfstæð réttarheimild og ráðast því skyldur sveitarfélaga ekki af því heldur af viðkomandi lögum.
Er yfirlitinu frekar ætlað að auðvelda umræðu um skyldur og hlutverk sveitarfélaga.