Í lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998 kemur fram að til þess að nýta land og landsréttindi innan þjóðlendu að öðru leyti en greinir í 2. mgr. 3. gr. (vatns- og jarðhitaréttindi, námur og önnur jarðefni) þarf leyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar. Sé nýting heimiluð til lengri tíma en eins árs þarf jafnframt samþykki ráðherra.
Sveitarstjórn er heimilt, að fengnu samþykki ráðherra, að semja um endurgjald vegna afnota sem hún heimilar. Skal tekjum af leyfum sem sveitarstjórn veitir varið til landbóta, umsjónar, eftirlits og sambærilegra verkefna innan þeirrar þjóðlendu sem leyfið tekur til. Sveitarstjórn skal árlega gera ráðherra grein fyrir ráðstöfun fjárins.
Lögfræði- og velferðarsvið hefur tekið saman leiðbeiningar til sveitarstjórna sem ætlað er að auðvelda gerð samninga um nýtingu lands innan þjóðlendna. Um er að ræða þrenns konar gátlista yfir þau atriði sem sérstaklega þarf að huga að við slíka samningsgerð. Leiðbeiningarnar má sjá hér til hægri á síðunni.
Samráð var haft við samstarfsnefnd um málefni þjóðlendna við gerð þessara leiðbeininga.