Ferðamál og heimagisting

Hinn 31. maí 2016 voru samþykktar breytingar á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sbr. lög nr. 67/2016. Lögin tóku gildi þann 1. janúar 2017, en þann 30. desember sl. var ný reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald send til birtingar í Stjórnartíðindum. Með nýrri löggjöf verður einstaklingum heimilt að leigja út heimili sitt og aðra fasteign sem hann/hún hefur til persónulegra nota í allt að 90 daga á ári. Jafnframt er gert það skilyrði að tekjur einstaklings af leigu fari ekki yfir 2 milljónir kr. á ári. Þá eru í lögunum skýrð betur mörkin milli gististarfsemi í atvinnuskyni og tímabundinnar leigu af hálfu einstaklinga. Áhrifa breytinganna gætir m.a. í betri yfirsýn um gistiframboð, bættri skráningu og skilum skatttekna af gististarfsemi og einfaldara regluverki fyrir rekstrarleyfi.