Jafnréttis- og mannréttindamál

Markmið laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 er að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Allt fólk skal eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni. Með kyni í lögum þessum er átt við konur, karla og fólk með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá nema annars sé sérstaklega getið.

Jafnréttisstofa heldur skrá yfir fyrirtæki og stofnanir þar sem 25 eða fleiri starfa að jafnaði á ársgrundvelli sem hafa ekki öðlast jafnlaunavottun skv. 7. gr. eða jafnlaunastaðfestingu skv. 8. gr. Skal þar koma fram hvort hlutaðeigandi fyrirtæki eða stofnun hafi leitað eftir úttekt vottunaraðila á jafnlaunakerfi viðkomandi og framkvæmd þess í því skyni að öðlast jafnlaunavottun skv. 7. gr. eða leitað eftir jafnlaunastaðfestingu hjá Jafnréttisstofu skv. 8. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020.

Á vefsíðu Jafnréttisstofu er einnig að finna ýmsar leiðbeiningar um þær skyldur sem Jafnréttislögin leggja á herðar sveitarfélaga sem gott er hafa yfirsýn um.

Í  lögum um stjórnsýslu jafnréttismála, nr. 151/2020, er sérstaklega fjallað um áætlanir sveitarfélaga um jafnréttismál. Samkvæmt 13. gr. laganna skulu sveitarstjórnir, að loknum sveitarstjórnarkosningum, sjá til þess að innan hvers sveitarfélags verði gerð áætlun fyrir nýtt kjörtímabil um markmið og aðgerðir til að koma í veg fyrir mismunun, sbr. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög um jafna meðferð á vinnumarkaði og lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, þar sem m.a. komi fram hvernig unnið skuli að kynja- og jafnréttissjónarmiðum á öllum sviðum. Áætlun skal taka til markmiða og aðgerða til að stuðla að jafnrétti og jafnri meðferð við ráðstöfun fjármagns, í þjónustu sveitarfélagsins og starfsmannamálum, m.a. hvernig starfsfólki skuli tryggð þau réttindi sem kveðið er á um í 6.–14. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Hún skal lögð fram til samþykktar í viðkomandi sveitarstjórn eigi síðar en ári eftir sveitarstjórnarkosningar, framvinda hennar rædd árlega í sveitarstjórn eftir það og hún endurskoðuð eftir þörfum.

Jafnréttisstofa hefur gefið út leiðbeiningar við gerð jafnréttisáætlana fyrir sveitarfélög.

Mannréttindamál

Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins er skipað kjörnum fulltrúum á sveitarstjórnarstigi frá öllum aðildarlöndum Evrópuráðsins og þ. á m. Íslandi. Meginhlutverk þingsins er að fylgjast með stöðu staðbundins lýðræðis í aðildarlöndunum og mannréttindamála. Þingið gaf í febrúar 2019 út mannréttindahandbók fyrir sveitarfélög þar sem er sérstök áhersla á stöðu viðkvæmra hópa, s.s.  innflytjenda, flóttamanna, Rómafólks og LGBTI hópa. Í bókinni eru einnig upplýsingar um mörg fyrirmyndarverkefni evrópskra sveitarfélaga á sviði mannréttinda.

Þingið vinnur nú (2020) að framhaldsútgáfu þar sem áherslan verður á félagsleg réttindi og verður hún aðgengileg hér þegar hún er frágengin.

Sveitarfélög sem hafa samþykkt Evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum

Úttekt á CEMR á þátttöku kvenna í sveitarstjórnum í Evrópu

Evrópusamtök sveitarfélagasamtaka, CEMR, sem sambandið á aðild að, birtu á síðasta ári niðurstöður yfirgripsmiklar rannsóknar á þátttöku kvenna í sveitarstjórnum í Evrópu. Ísland er þar með hæsta hlutfall kvenna bæði í sveitarstjórnum og meðal bæjarstjóra.