Menntun fyrir alla

Samband íslenskra sveitarfélaga, mennta- og menningarmálaráðuneytið, velferðarráðuneytið, Kennarasamband Íslands, Skólameistarafélag Íslands og Heimili og skóli hafa skrifað undir samstarfsyfirlýsingu um eftirfylgni úttektar á framkvæmd stefnu um skóla fyrir alla, án aðgreiningar á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.

Til grundvallar samstarfinu liggja tillögur í skýrslu Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir (European Agency for Special Needs and Inclusive Education) sem unnin var í samræmi við verksamning mennta- og menningarmálaráðherra og miðstöðvarinnar. Með yfirlýsingunni vilja þessir aðilar leitast við að fylgja eftir því markmiði úttektarinnar að styðja við langtímaþróun menntastefnu á Íslandi.

Markmið úttektarinnar var að styðja við ákvarðanatöku um innleiðingu og framkvæmd stefnunnar um menntun án aðgreiningar með sannreyndri þekkingu og stuðla jafnframt að víðtæku sjálfsmati innan menntakerfisins auk þess að styðja við langtímaþróun menntastefnu á Íslandi.

Haustið 2013 var samþykkt að mennta- og menningarmálaráðuneytið tæki þátt í samstarfi um greiningu á framkvæmd skóla án aðgreiningar á grunnskólastigi. Skipaður var starfshópur með fulltrúum frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Félagi grunnskólakennara, Skólastjórafélags Íslands og velferðarráðuneyti. Niðurstaða starfshópsins var að þörf væri á enn frekari greiningu á stöðu og framkvæmd stefnu um skóla án aðgreiningar og áhrifum hennar á skólastarf, þ.m.t. á líðan og árangur nemenda.

Evrópumiðstöð um nám án aðgreiningar og sérþarfir

Markmið úttektarinnar var að styðja við ákvarðanatöku um innleiðingu og framkvæmd stefnunnar um menntun án aðgreiningar með sannreyndri þekkingu og stuðla jafnframt að víðtæku sjálfsmati innan menntakerfisins auk þess að styðja við langtímaþróun menntastefnu á Íslandi.

Áhersla var lögð á að kanna hve árangursrík innleiðing menntastefnu um skóla án aðgreiningar hefur verið í skólakerfinu á Íslandi, á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi, meðal annars í samanburði við önnur lönd.  Einnig var rýnt í fjármögnum vegna skóla án aðgreiningar á vegum ríkis og sveitarfélaga. Úttektin fór fram frá nóvember 2015 til ársbyrjunar 2017.

Í upphafi úttektar stóðu allir helstu aðilar menntamála hér á landi að gagnrýnu sjálfsmati á stöðu menntunar án aðgreiningar hér á landi og niðurstaða þess var að mótuð voru sjö áherslusvið. Á grundvelli þessara sjö sviða voru skilgreind viðmið og vísbendingar  sem aðilar telja rétt að stefna að í skólakerfinu.

Niðurstöður úttektarinnar eru teknar saman í sjö meginköflum á þann hátt að einn kafli er helgaður hverju þeirra sjö viðmiða og flokka vísbendinga sem um er fjallað. Einnig eru lagðar fram sjö megintillögur um æskilegar ráðstafanir, ein fyrir hvert þeirra sjö viðmiða sem lögð voru til grundvallar í úttektarvinnunni.

Á málþingi mennta- og menningarmálaráðuneytis þann 24. ágúst 2017 var fjallað um niðurstöður úttektar Evrópumiðstöðvar um framkvæmd opinberrar menntastefnu á Íslandi og aðgerðaáætlun á grundvelli hennar.

Umræður fóru fram í sex  málstofum á þinginu og hafa niðurstöður verið teknar saman og gerðar aðgengilegar.

Stýrihópur, sem skipaður er fulltrúum þriggja ráðuneyta, sambandsins, Heimilis og skóla, Kennarasambandsins og Félagi skólameistara mun fylgja eftir niðurstöðum úttektarinnar, útfæra aðgerðaáætlun og hafa niðurstöður málþingsins til hliðsjónar við í starfi sínu. Formaður er Ragnheiður Bóasdóttir (ragnheidur.boasdottir@mrn.is) og starfsmaður stýrihópsins er Ragnar S. Þorsteinsson (ragnar.s.thorsteinsson@mrn.is)