Tónlistarskóli

Um tónlistarfræðslu gilda lög nr. 75/1985 um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Tónlistarskólar sem falla undir lögin þurfa m.a. að fullnægja því skilyrði að hafa hlotið sérstakt samþykki menntamálaráðuneytisins og jafnframt þarf samþykki viðkomandi sveitarstjórnar ef skóli er rekinn af þriðja aðila. Ef ekki liggur fyrir samþykki sveitarfélagsins skv. 3. gr. laganna þá uppfyllir skóli ekki þau skilyrði að vera tónlistarskóli.

Á grundvelli samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga, dags. 3. desember 2018, greiðir ríkissjóður fasta fjárhæð á hverju ári í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem annast úthlutanir framlaga til sveitarfélaga. Um er að ræða styrktarframlag til að standa straum af kennslukostnaði á framhaldsstigi. Á móti skuldbinda sveitarfélögin sig til að taka tímabundið yfir ný verkefni frá ríki sem nema 230 milljónum króna á ársgrundvelli. Samkomulagið gildir til 31. desember 2021.

Innanríkisráðherra hefur gefið út reglur um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til eflingar tónlistarnámi og jöfnunar á aðstöðumun nemenda þar sem samkomulagið er nánar útfært. Hægt er að sjá upplýsingar um úthlutun framlaga til sveitarfélaga á vef jöfnunarsjóðs. Sérstök samráðsnefnd fylgist með framkvæmd samkomulagsins, sbr. 5. gr. þess.