Skólanefndir

Skólanefndir sveitarfélaga hafa afar þýðingarmiklu, lögbundnu hlutverki að gegna vegna reksturs leik- og grunnskóla í hverju sveitarfélagi. Hlutverkin lúta bæði að faglegum og rekstrarlegum hliðum skólahalds, eftirlitsskyldu en um leið ákveðinni frumkvæðisskyldu.  Skólanefnd starfar í umboði sveitarstjórnar og fer með málefni skóla eftir því sem lög og reglugerðir kveða á um og samþykktir  sveitarstjórnar kunna að fela henni.

Í lögum um leikskóla nr. 90/2008 segir um hlutverk skólanefndar í 2. málsgrein 4. greinar:

Nefnd, kjörin af sveitarstjórn, fer með málefni leikskóla í umboði sveitarstjórnar. Leikskólastjórar, starfsfólk leikskóla og foreldrar í sveitarfélagi kjósa hver úr sínum hópi aðal- og varamann til setu á fundum nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt. Þessu til viðbótar koma verkefni nefndarinnar til tals í greinum 11, 14, 28 og 30 í lögum um leikskóla.

Í 6. grein laga nr. 91/2008 um grunnskóla er meginhlutverk skólanefndar skilgreint með mun ítarlegri hætti:  

 Í hverju sveitarfélagi skal í umboði sveitarstjórnar vera skólanefnd sem fer með málefni grunnskóla eftir því sem lög og reglugerðir ákveða og sveitarstjórn eða sveitarstjórnir kunna að fela henni.

Meginhlutverk skólanefndar er sem hér segir:

  1. að sjá til þess að öll skólaskyld börn sem rétt eiga á skólavist í sveitarfélaginu njóti lögboðinnar fræðslu,
  2. að staðfesta starfsáætlun skóla ár hvert og skólanámskrá einstakra skóla,
  3. að fylgjast með framkvæmd náms og kennslu í sveitarfélaginu og gerð skólanámskrár og gera tillögur til skólastjóra og/eða sveitarstjórnar um umbætur í skólastarfi,
  4. að fylgjast með og stuðla að því að nemendum og skólum sé tryggður aðgangur að sérfræðiþjónustu,
  5. að sjá til þess að jafnan sé fyrir hendi viðeigandi húsnæði fyrir kennslu og annar aðbúnaður, þ.m.t. útivistar- og leiksvæði nemenda,
  6. að hafa eftirlit með að ákvæði laga og reglugerða séu uppfyllt og gera tillögur til sveitarstjórnar um úrbætur,
  7. að stuðla að tengslum og samstarfi leikskóla og grunnskóla annars vegar og grunnskóla og framhaldsskóla hins vegar.

Skólanefnd skal kosin af hlutaðeigandi sveitarstjórn í upphafi hvers kjörtímabils. Um kosningu í skólanefnd og starfshætti fer samkvæmt sveitarstjórnarlögum og samþykktum viðkomandi sveitarfélags. Varamenn í skólanefndum skulu vera jafnmargir aðalmönnum og kosnir á sama hátt.
Skólastjórar, grunnskólakennarar og foreldrar í sveitarfélagi kjósa hver úr sínum hópi aðal- og varamann til setu á skólanefndarfundum með málfrelsi og tillögurétt.
Þegar skólanefnd fær til meðferðar kærumál samkvæmt ákvæðum laga þessara gilda um meðferð kærumálsins reglur stjórnsýslulaga. Um sérstakt hæfi nefndarmanna og annarra fulltrúa sem rétt hafa til að sitja fundi nefndarinnar gilda ákvæði sveitarstjórnarlaga.

Til viðbótar þeim starfsskyldum skólanefndar sem taldar eru upp í 6. gr. kemur verksvið nefndarinnar við sögu í eftirfarandi greinum laganna: 8., 14., 20., 28., 29., 41., 45., 46. og 47. grein. 

Mörg stærri sveitarfélög hafa ráðist í útgáfu handbókar fyrir skólanefndir sínar sem innihalda ýmis gögn sem nauðsynlegt er talið að fulltrúar að hafa yfirsýn yfir. Þar má telja samþykktir sveitarfélags fyrir nefndina, upplýsingar um verkefni sveitarfélagsins á sviði fræðslu- og menntamála, stofnanir þess og starfsumhverfi, helstu lög, reglugerðir, reglur og gjaldskrár sem starfað er samkvæmt, upplýsingar um sérfræði- og stoðþjónustu og fleira mætti telja. Handbækur þessar eru sumar hverjar aðgengilegar á heimasíðum sveitarfélaganna.