Grunnskólanám utan lögheimilissveitarfélags

Samþykktar af stjórn sambandsins 25. janúar 2013.

1. gr.

Reglur þessar eiga eingöngu við þegar einstakir nemendur sækja skóla í öðru sveitarfélagi en þeir eiga lögheimili í. Ef sveitarfélag tekur að sér með reglubundnum hætti að vista nemendur annars sveitarfélags eða ef nemendur annarra sveitarfélaga eru vistaðir með reglubundnum hætti í tilteknum grunnskóla skal sérstaklega samið um greiðslur vegna þess á milli sveitarfélaganna.

Nemendur á grunnskólaaldri stunda að jafnaði nám í því sveitarfélagi þar sem þeir eiga lögheimili.

Frá þessu er vikið í eftirfarandi tilvikum:

  1. Þegar barn flyst  í annað sveitarfélag á skólaárinu, sbr. 2. gr.
  2. Þegar forsjáraðili barns óskar eftir að það fái að stunda nám í grunnskóla utan síns lögheimilis­sveitarfélags, sbr. 3.- 5. gr.
  3. Þegar barni er ráðstafað í tíma­bundið fóstur til fósturforeldra sem eiga lögheimili í öðru sveitarfélagi, sbr. 6. gr.

Viðmiðunarreglur þessar gilda um samskipti sveitarfélaga í ofangreindum tilvikum og vegna þeirra nemenda sem hlut eiga að máli.

2. gr.

Flytjist lögheimili nemanda í annað sveitarfélag eftir að hann hefur byrjað skólagöngu í því sveitarfélagi, sem hann átti lögheimili í fyrir flutning, skal hann eiga rétt á að ljúka námi í þeim skóla sem hann stundaði nám í við flutninginn til loka skólaársins. Að öllu jöfnu getur nemandi ekki sótt skóla í tveimur sveitarfélögum samtímis. Aðstæður nemandans geta hins vegar kallað á að frá þessu sé vikið með sérstöku samkomulagi. Ákvörðun í þessu efni er þó alltaf háð yfirlýstu samþykki beggja sveitarfélaga og að teknu tilliti til hagsmuna nemandans.

3. gr.

Forsjáraðili nemanda sem óskað er eftir að fái að stunda nám í grunnskóla utan síns lögheimilissveitarfélags skal senda inn umsókn þess efnis til lögheimilissveitarfélags nemandans fyrir 15. apríl.

Í umsókn skal upplýsa um ástæður umsóknarinnar og hvort foreldrar fara sameiginlega með forsjá en eiga ekki sama lögheimili.

Sé umsókninni synjað af lögheimilissveitarfélagi skal henni svarað sem fyrst með rökstuðningi. Hljóti umsóknin jákvæða afgreiðslu hjá lögheimilissveitarfélagi, skal senda hana til þess sveitarfélags þar sem óskað er eftir að nemandinn stundi nám, hér eftir nefnt viðtökusveitarfélag. Verði því við komið skal senda umsókn um skólavist fyrir 10. maí til viðtökusveitarfélags og skal þá svar berast lögheimilissveitarfélagi fyrir 1. júní.

Framangreindar dagsetningar eru meginregla þegar vitað er með löngum fyrirvara um óskir um skólavist utan lögheimilissveitarfélags. Komi óskir fram það seint að ekki er unnt að virða framangreindar dagsetningar skulu aðilar hraða afgreiðslu sem kostur er.

4. gr.

Þegar heimild er veitt skv. 3. gr. til náms í grunnskóla utan lögheimilissveitarfélags, skal samhliða samið um greiðslur en Samband íslenskra sveitarfélaga ákveður sérstakt viðmiðunargjald (sjá skýringar með gjaldskránni hér að neðan). Viðmiðunargjaldið er uppfært árlega og skal gjaldskrá liggja fyrir í síðasta lagi  15. ágúst ár hvert. Sveitarfélög semja sín á milli um fyrirkomulag greiðslna og uppgjör.

Í viðmiðunargjaldi er innifalinn allur skólakostnaður annar en húsnæðiskostnaður og sá viðbótarkostnaður sem sannanlega fellur til vegna nemandans sérstaklega.

Þarfnist nemandi sérstakrar aðstoðar eða aukins stuðnings (t.d. vegna sérfræðiþjónustu, sérstakrar íslenskukennslu innflytjenda o.fl. sem sannarlega telst umfram almennan skólakostnað) skal samið sérstaklega um viðbótargreiðslur um leið og gengið er frá samkomulagi um skólagöngu nemanda milli lögheimilissveitarfélags og viðtökusveitarfélags. Með sama hætti skal semja um aðra liði sem eru sannarlega umfram viðmiðunargjaldið og framlag jöfnunarsjóðs vegna skólaaksturs, ef um það er að ræða. Að öllu jöfnu skal samkomulag um viðbótargjald tekið til endurskoðunar fari annað hvort sveitarfélagið fram á það. Verði ágreiningur um hvort endurskoðun gefi tilefni til breytinga á greiðslum er unnt að vísa ágreiningsefninu til umsagnar sérstakrar nefndar skv. 7. gr.

5. gr.

Í samskiptum sveitarfélaga skal það vera meginreglan að komi fram ósk frá lögheimilissveitarfélagi um skólavist í öðru sveitarfélagi skal orðið við slíkri ósk.

Til þess að auðvelda móttöku nemanda í viðtökusveitarfélagi skulu öll nauðsynleg gögn send milli hlutaðeigandi skóla. Persónuverndarsjónarmiða skal gætt í allri meðferð gagnanna.

Geti skóli/skólar viðkomandi sveitarfélags ekki veitt þeim nemanda, sem óskað er eftir skólavist fyrir, viðunandi þjónustu að mati sérfræðiþjónustu skóla skal slíkt koma fram sem rökstuðningur fyrir synjun á umsókn til lögheimilissveitarfélags.

6. gr.

Sveitarfélagi er skylt samkvæmt grunnskólalögum að sjá til þess að nemandi njóti skólavistar, sem hefur verið ráðstafað í tíma­bundið fóstur til fósturforeldra sem þar eiga lögheimili.

Um greiðslur lögheimilissveitarfélags vegna skólavistar barns í tímabundnu fóstri fer skv. ákvæðum barnaverndar­laga, grunnskólalaga, reglugerð nr. 547/2012 um skólagöngu fósturbarna og gjaldskrá Sambands íslenskra sveitarfélaga, eftir því sem við á.

7. gr.

Komi upp ágreiningur um greiðslur eða annað tengt skólavist og sveitarfélögin geta ekki leyst þann ágreining sín á milli, er hægt vísa honum til sérstakrar þriggja manna nefndar til umsagnar.  Skilyrði þess  að nefndin taki mál til umfjöllunar er að báðir deiluaðilar verði sammála um að vísa því til hennar og að ágreiningur heyri ekki undir annan úrskurðaraðila. Tryggja skal nemanda skólavist þó beðið sé eftir niðurstöðu nefndarinnar en hún skal leitast við að hraða vinnu sinni sem kostur er.

Í nefndinni eiga sæti einn fulltrúi tilnefndur af hvoru sveitarfélagi og einn fulltrúi tilnefndur af sambandinu. Skólamálafulltrúi sambandsins er starfsmaður nefndarinnar.

Þegar nefndin fær mál til umfjöllunar aflar starfsmaður nefndarinnar nauðsynlegra gagna og kannar afstöðu viðkomandi sveitarfélaga til ágreiningsefnisins þ.á.m. hvort grundvöllur sé til sátta milli þeirra. Lýsi bæði sveitarfélögin því yfir að sættir hafi náðst eða samkomulag sé í augsýn getur nefndin lokið meðferð máls á þeim grundvelli. Það kemur þó ekki í veg fyrir að sama ágreiningsefni verði lagt fyrir nefndina á ný ef úrlausn þess gengur ekki eftir.

Sé sáttagrundvöllur ekki fyrir hendi gerir nefndin tillögu til úrlausnar ágreiningsefnisins. Tillagan skal rökstudd og sett fram með skýrum hætti. Tillaga nefndarinnar er ekki bindandi fyrir hlutaðeigandi sveitarfélög.

Um hæfi nefndarmanna fer skv. 3. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Viðmiðunargjald þetta fæst með því að vinna út frá heildarrekstrarkostnaði við grunnskóla sveitarfélaga eins og hann birtist í Árbók sveitarfélaga á hverju ári. Gjaldskráin er í átta flokkum þar sem hver flokkur nær til skóla með tilgreindum fjölda nemenda. Beinn kostnaður við hvern grunnskóla er grundvöllur útreikningana og þeir sameiginlegu liðir sem falla innan grunnskólasviðs hvers sveitarfélags. Sameiginlegum liðum innan fræðslusviðs er skipt niður í hlutfalli við heildarútgjöld hvers skólastigs. Hlutdeild grunnskólans, í sameiginlegum liðum fræðslumála, er lögð við heildarkostnaðinn. Tölur um einkarekna grunnskóla eru ekki teknar inn í þessa útreikninga.

Heildarrekstrarkostnaði, þ.e. beinum kostnaði, sameiginlegum liðum grunnskóla og hlutfalli af sameiginlegum liðum fræðslusviðs, er svo deilt með fjölda nemenda í hverjum skóla. Upplýsingar um fjölda nemenda eru fengnar frá Hagstofu. Kostnaður vegna innri leigu og sérfræðiþjónustu er dregin frá þessari tölu. Upplýsingar um innri leigu eru fengnar frá þeim sveitarfélögum sem skila inn tvílykluðum ársreikningi og upplýsingar um kostnað vegna sérfræðiþjónustu byggja á gögnum frá Reykjavíkurborg.Við útreikninga skal ætíð miða við greiðslur í kennslumánuðum, þ.e. 4,25 mánuðir vegna haustannar og 5,25 vegna vorannar.

Gjaldskráin byggir á niðurstöðum úr ársreikningum sveitarfélaga frá fyrra ári. Niðurstaða ársreikninganna er framreiknuð miðað við launavísitölu að 2/3 og vísitölu neysluverðs að 1/3 eins og þær eru í lok júní ár hvert.

Gjaldskráin tekur gildi 15. ágúst ár hvert og gildir fram til sama tíma á næsta ári.

Stærð skóla Skólaárið 2023/24
Krónur á mánuði
10 – 20* 461.455
21 – 50 423.039
51 – 100 317.330
101 – 200 265.764
201 – 300 229.540
301 – 400 200.234
401 – 500 182.886
501 + 174.268

*Gögn ná ekki til grunnskóla með færri en tíu nemendur vegna útlagaáhrifa.