Frístundastarf

Í öllum grunnskólum skal nemendum gefinn kostur á að taka þátt í tómstunda- og félagsstarfi. Tómstunda- og félagsstarf getur bæði verið liður í daglegu starfi og utan venjulegs skólatíma.

Öllum börnum í yngri árgöngum grunnskóla skal gefinn kostur á þjónustu frístundaheimila. Frístundaheimili er frístundavettvangur barna með áherslu á val barna, frjálsan leik og fjölbreytileika í viðfangsefnum og umhverfi. Við skipulag þjónustu frístundaheimila skal tekið mið af þörfum, þroska og áhuga hvers og eins. Sveitarfélög fara með faglegt forræði frístundaheimila, ákveða skipulag starfsemi þeirra og rekstrarform með samþættingu skóla- og frístundastarfs og þarfir barna að leiðarljósi. Mennta- og menningarmálaráðuneytið gefur út viðmið um gæði frístundastarfs, þ.m.t. um hlutverk og markmið, skipulag og starfsaðstæður, starfshætti, margbreytileika, stjórnun og menntun starfsfólks.

Sveitarfélög veita einnig ýmsa aðra þjónustu og stuðning til tómstunda- og félagsstarfs. Félagsmiðstöðvar eru t.d. mikilvægur þáttur í lífi barna og ungmenna. Þar geta börn og ungmennni sinnt tómstunda og félagsmálum utan hefðbundins skólatíma. Markhópur flestra félagsmiðstöðva er unglingar í 8.-10. bekk en víða er í boði ýmis konar klúbbastarfsemi og opin hús fyrir miðstig grunnskóla þar sem flestir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Sveitarfélög veita ýmis konar tómstundastyrki til fjölskyldna til að auðvelda börnum til 18 ára aldurs aðgang að íþróttum og tómstundum óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum.