Forvarnir

Í þingsályktunartillögu 37/150 um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreiti (forvarnaráætlun) er sett fram sú framtíðarsýn að kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni eigi sér hvergi stað í íslensku samfélagi. Þar er vísað til þess að ofbeldi og áreitni er samfélagslegur vandi og því þarf að uppræta þá þætti í samfélagsgerðinni sem leyfa slíku ofbeldi að viðgangast. Kynferðislegt og kynbundið ofbeldi er bæði orsök og afleiðing annars kynjamisréttis og verður aðeins upprætt með samhentu átaki sem byggir á djúpstæðum skilningi á eðli og afleiðingum slíks ofbeldis. Öflug forvarnastefna er lykilþáttur í þeirri vegferð. Með forvörnum er leitast við að fyrirbyggja kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni en einnig að draga úr þeim skaða sem slík háttsemi hefur á þolendur og aðstandendur þeirra. Markviss viðbrögð við kynferðislegu og kynbundu ofbeldi og áreitni – og hegðun sem ýtir undir slíkt – er liður í forvörnum til framtíðar. Þannig er ekki aðeins nægjanlegt að fjalla um ofbeldi og áreitni heldur þarf einnig að ýta undir samskipti virðingar og jafnréttis fólks í milli.

Í forvarnaráætluninni er lagt til að beina forvörnum einkum og sér í lagi að börnum og ungmennum með það að markmiði að fyrirbyggja kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni og byggja upp samfélag jafnréttis og virðingar til framtíðar. Í því skyni að ná til allra barna er megináhersla lögð á að beina forvörnum í gegnum grunnskóla, þar sem öll börn eru, en einnig í gegnum önnur skólastig, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar, íþrótta- og æskulýðsstarf og annað tómstundastarf. Vísast hér meðal annars til 23. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, sem fjallar um menntun og skólastarf. Mikilvægt er að mennta börn og ungmenni um heilbrigða kynhegðun, svo sem um mörk, stafrænt kynferðislegt ofbeldi, kynferðislega friðhelgi einstaklinga, samþykki og fleira. Forvarnir líkt og hér er líst eru fyrirbyggjandi og ætlað að auka umræðu og vitund ungmenna um skaðsemi kynferðislegs og kynbundins ofbeldis og þau úrræði sem eru í boði hverju sinni. Í þessari áætlun, sem gildir 2021-2025, er lögð rík áhersla á að forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni sé samþætt öllu skólastarfi á öllum skólastigum, í leik-, grunn- og framhaldsskólum ásamt starfi innan frístundaheimila og félagsmiðstöðva.

Í kafla A.1 er fjallað um að innan Sambands íslenskra sveitarfélaga starfi forvarnarfulltrúi sem hafi það hlutverk að fylgja eftir aðgerðaráætluninni. Fulltrúinn styðji við skólaskrifstofur sveitarfélaganna við miðlun fræðslu og forvarna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, bæði í leikskólum og grunnskólum, ásamt frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum. Fulltrúinn miðli einnig þekkingu og fræðslu til grunnskóla og leikskóla sem ekki heyra undir skólaskrifstofur sveitarfélaga, þar á meðal sjálfstæðra skóla. Fulltrúinn hafi jafnframt það hlutverk gagnvart framhaldsskólum að miðla þekkingu og styðja framhaldsskóla við að efla kennslu og forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Þá safni forvarnafulltrúinn gögnum um árangur einstakra aðgerða.

  • –  Mælikvarði: Forvarnafulltrúi hafi tekið til starfa á árinu 2021
  • –  Kostnaðaráætlun: 16 millj. kr. á ársgrundvelli, þar af eru 12–14 millj. kr. vegna launakostnaðar og annað vegna ferðakostnaðar.
  • –  Ábyrgðaraðili: Samband íslenskra sveitarfélaga.
  • –  Dæmi um samstarfsaðila: Forsætisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Jafnréttisstofa, embætti landlæknis, samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs, Barnaverndarstofa, Menntamálastofnun, skólaskrifstofur sveitarfélaga, umboðsmaður barna, fagfélög skólastjórnenda, kennarar og Grunnur – félag fræðslustjóra.

A.2. Skólaskrifstofur sveitarfélaga.
    Skólaskrifstofur sveitarfélaga, með stuðningi frá forvarnafulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, miðli þekkingu og veiti leikskólum og grunnskólum, ásamt frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum, stuðning til að tryggja að forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni verði samþættar skólastarfi, einkum í kennslu, og að starfsfólk hljóti fræðslu. Skólaskrifstofurnar tryggi að forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni verði markviss þáttur í skólastefnu sveitarfélaga og í forvarnastefnu hvers skóla um sig. Skólaskrifstofurnar haldi utan um tölfræðiupplýsingar um fræðslu í sínu umdæmi og miðli upplýsingum um árangur til forvarnafulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga.
–      Mælikvarði: Allar skólaskrifstofur hafi miðlað þekkingu til leik- og grunnskóla á sínu svæði í lok árs 2024.
–      Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
–      Ábyrgðaraðili: Skólaskrifstofur.
–      Dæmi um samstarfsaðila: Forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, leik- og grunnskólar, Barnaverndarstofa og félagsþjónusta sveitarfélaga.