Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins

Sveitarstjórnarþingið, „Congress of Local and Regional Authorities“, er ein af stofnunum Evrópuráðsins. Hlutverk þingsins er að styrkja staðbundið lýðræði í aðildaríkjum Evrópuráðsins sem eru 47. Þingið er ráðgefandi gagnvart ráðherranefnd Evrópuráðsins.

Þrír nýir fulltrúar tóku þátt í þinginu af hálfu Íslands. Þau Hildur Björnsdóttir formaður íslensku sendinefndarinnar, Walter Fannar Kristjánsson og Heiða Björg Hilmisdóttir. Sú sem þetta skrifar tók einnig þátt sem ritari íslensku sendinefndarinnar. Formennska Íslands í Evrópuráðinu setti svip sinn á þingið. Þingfulltrúum var boðið á stórkostlega kvöldtónleika með íslenskum aðalsöngvara í dómkirkjunni í Strassbourg og innviðaráðherra og borgarstjóri ávörpuðu þingið. Á þinginu voru að venju samþykktar skýrslur um kosningaeftirlit. Að þessu sinni um endurteknar svæðiskosningar í Berlín, sveitarstjórnarkosningar í Slóveníu og Bosníu Herzegovínu. Samþykkt var úttekt á stöðu sveitarstjórnarstigsins í Rúmeníu gagnvart Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga en rétt er að upplýsa að hliðstæð úttekt gagnvart sveitarstjórnarstiginu á Íslandi er ráðgerð í upphafi næsta árs. Þá voru umræður og ályktanir um lýðræðis- og mannréttindamál. Hér að neðan stutt samantekt um þær og önnur markverð mál þingsins.

Þingið var að þessu sinni haldið í sal Evrópuþings ESB vegna viðgerða á Evrópuráðshöllinni. Hér má sjá íslensku sendinefndina á rauða dreglinum fyrir framan þingsalinn.

Ávarp framkvæmdastjóra Evrópuráðsins
Framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Marija Pejcinovic-Buric, ávarpaði þingið. Hún hrósaði íslensku formennskunni fyrir breiða þátttöku stofnana Evrópuráðsins í undirbúningi leiðtogafundar Evrópuráðsins í Reykjavík í maí nk., þ. á m. þingsins. Hún svaraði spurningum um fjárhagsstöðu þingsins en það hefur mátt þola niðurskurð á fjárveitingum undanfarin ár eins og aðrar stofnanir Evrópuráðsins, sérstaklega í tengslum við brottreksturs Rússa úr ráðinu. Beindi hún því til þingfulltrúa að reyna að hafa áhrif á fulltrúa ríkisvaldsins í sínum löndum til hækkunar á framlagi landsins til reksturs Evrópuráðsins.

Eitt ár frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu
Samþykkt var ályktun um fordæmingu stríðs Rússa gagnvart Úkranínu þar sem lögð er áhersla á stuðningshlutverk sveitarfélaga gagnvart úkranískum flóttamönnum og sveitarfélögum í Úkranínu. Voru miklar og tilfinningaríkar umræður um áhrif stríðsins á íbúa og sveitarfélög og var sérstaklega átakanlegt að hlýða á mál þingfulltrúa frá Úkranínu.

Þátttaka ungmenna í lýðræði á sveitarstjórnarstigi
Umræða var um minnkandi áhuga ungs fólks á stjórnmálum og var samþykkt ályktun um það mál. Fram kom í máli frummælenda að úrræði séu til, svo sem að lækka kosningaaldur og að sveitarfélög standi fyrir verkefnum til að virkja ungt fólk. Malta, Eistland, Austurríki og Skotland (að hluta, þ.e. ekki til breska þingsins), hafa lækkað kosningaaldur í 16 ár og kom fram í máli fulltrúa þessara að landa að lækkun kosningaaldur hafi haft jákvæð áhrif, m.a. í þá átt að ungt fólk sé haft meira með í ráðum á milli kosninga. Ungmennafulltrúar þingsins tóku virkan þátt í umræðunni. Mikil ánægja var sem fyrr með þátttöku þeirra á þinginu. Enginn íslenskur ungmennafulltrúi tók hins vegar þátt í þinginu og virðist sem enginn hafi sótt um þátttöku en íslensku fulltrúarnir fengu vilyrði fyrir því að íslenskur ungmennafulltrúi geti komið inn á næsta þing ef hæfur
fulltrúi sendir inn umsókn.

Beinar kosningar á borgarstjórum
Skýrsla og umræður um þetta málefni sem þingið hefur fjallað um áður og m.a. samþykkt árið 2004 ályktun þar sem færð eru rök fyrir því að bein kosning borgarstjóra geti falið í sér betra valdajafnvægi á milli kjörinna fulltrúa og framkvæmdahlutverks borgarstjóra.

Fram kom að í höfuðatriðum séu þrenns konar fyrirkomulag í Evrópu á útnefningu borgarstjóra:
1. Kosnir með beinum hætti af íbúum.
2. Kosnir með óbeinum hætti af sveitarstjórn.
3. Hvorki kosnir með beinum né óbeinum hætti.
Verið að íhuga að innleiða beinar kosningar i nokkrum stórum evrópskum borgum, sérstaklega í París. Þetta fyrirkomulag er talið hafa ákveðna kosti, svo sem að sú aðferð að íbúar kjósi ákveðinn einstakling með beinum hætti feli í sér meiri trúverðugleika og sé nær rótum lýðræðisins. Í þessu fyrirkomulagi þurfa frambjóðendur ekki að vera fulltrúar flokks til að komast til valda og borgarstjórar eru ekki undir þrýstingi frá stjórnmálaflokki þar sem umboð þeirra kemur beint frá kjósendum. Þetta gefi þeim meira frjálsræði til að takast á við verkefni sín. Aðrir telja að beinar kosningar geti falið í sér hættu á að lama stjórnun sveitarfélags ef erfiðleikar eru í samstarfi borgarstjóra og sveitarstjórnar, auk þess sem hætta sé á að of mikil völd safnist fyrir á hendi eins einstaklings.

Ávarp Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra
Sigurður fór yfir áherslur Íslands sem formennskulands í Evrópuráðinu, s.s. áherslu á stöðu barna, og nefndi starfsemi barnahús, sem dæmi um verkefni sem vel hefur tekist til um. Hann ræddi einnig áskoranir í byggðaþróun og vegna fjölda fámennra sveitarfélaga á Íslandi. Hann fór yfir þá stefnumótun sem verið er að vinna að í hans ráðuneyti um málefni sveitarstjórnarstigsins og samráðsferla, búsetufrelsi og jafna
þjónustu óháða búsetu, tækifæri í stafrænni umbreytingu, störf án staðsetningar og aðgerðir til að takast á við loftslagsvandann, s.s. orkuskipti og þá framsýni sem leiddi af sér uppbyggingu hitaveitna í landinu. Hann lauk málinu sínu með því að segja að stjórnvöld þurfi að hagnýta sér skapandi orku fólks til að takast á við áskoranirnar og hafa raunhæfa bjartsýni að leiðarljósi.

Framlag Sveitarstjórnarþingsins til Reykjavíkurfundar Evrópuráðsins í maí
Samþykkt var ályktun um áherslur Sveitarstjórnarþingsins gagnvart leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík maí nk. Fundinum er ætlað að ræða stöðu Evrópuráðsins í hinum nýja veruleika Evrópu þar sem stríð Rússa gegn Úkraínu ógnar friði í álfunni og lýðræði og mannréttindi eru undir þrýstingi. Sveitarstjórnarþingið leggur áhersla á mikilvægi þess að þingið fái fullnægjandi fjárveitingar til að sinna kjarnaverkefnum sínum gagnvart Sveitarstjórnarsáttmála Evrópu og vegna eftirlits með framkvæmd sveitar- og svæðiskosninga í aðildarlöndum. Til viðbótar bendir þingið á að með því að efla mannréttindastarf þingsins væri mögulegt að létta álagi af Mannréttindadómstólnum þar sem nýleg úttekt leiddi í ljós að mjög stór hluti af þeim málum sem koma fyrir dómstólinn tengjast sveitarfélögum. Forseti mannréttindadómstólsins, Siofra O‘leary, ávarpaði einnig þingið og tók íslenskt dæmi um slíkt mál en það varðaði aðgengi fatlaðra að menningarstofnunum sveitarfélags.

Heiða Björg Hilmisdóttir formaður sambandsins tók til máls undir þessum lið og sagði frá því að sambandið hafi lagt áherslu á að það gagnvart fulltrúum ríkisins, sem standa að undirbúningi fundarins, að þingið eigi fulltrúa á Reykjavíkurfundinum og það hafi gengið eftir þannig að forseti og framkvæmdastjóri Sveitarstjórnarþingsins munu taka þátt í fundinum. Til að auka enn meir sýnileika þingsins hefur einnig verið ákveðið að efna til hálfsdagsfundar daginn fyrir leiðtogafundinn. Fundurinn verður haldinn í borgarstjórnarsal ráðhússins með þátttöku fulltrúa ýmissa hagsmunasamtaka sveitarfélaga. Drög að dagskrá fylgja til frekari upplýsinga. Fundurinn verður opinn fyrir almenning.

Heimsmarkmiðin í sveitarfélögum „Localisation of the SDGs“
Samþykkt var ályktun um þetta málefni og var formaður norska sveitarfélagasambandsins annar flutningsmaður hennar. Í henni er lögð áhersla á að ríki og sveitarfélög þurfi að vinna saman að innleiðingu markmiðanna og ríki þurfi að styðja við innleiðingu markmiðanna í sveitarfélögum, enda geti ríki ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Sameinuðu þjóðunum nema með aðkomu sveitarfélaga þar sem 2/3 hluta af markmiða og undirmarkmiða eru á valdsviði þeirra. Í ályktuninni er einnig lögð áhersla á mikilvægi þess að sveitarfélög taki þátt í gerð landrýnisskýrslna til Sameinuðu þjóðanna og að sveitarfélög geri jafnframt sínar eigin skýrslur.

43. þing Sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins var haldið í Strasbourg 25.-27. október sl. Anna Guðrún Björnsdóttir, sviðsstjóri þróunar- og alþjóðasviðs sambandsins, tók þátt í þinginu sem ritari íslensku sendinefndarinnar, ásamt Guðmundi Ara Sigurjónssyni þingfulltrúa. Anna Guðrún ritaði þessa samantekt til stjórnar.

Norrænn-baltneskur undirbúningsfundur fyrir þingið

Daginn fyrir þingið var í fyrsta skipti eftir Covid haldinn norrænn-baltneskur undirbúningsfundur með hefðbundnum hætti í Strasbourg. Þar kynnti Ragnhildur Arnljótsdóttir sendiherra Íslands hjá Evrópuráðinu áherslur Íslands sem formennskulands í Evrópuráðinu frá nóvember 2022 til maí 2023. Áherslur Íslands byggjast á fjórum stoðum: Lýðræði, ungt fólk, umhverfismál og jafnréttismál.

Formennska Íslands í Evrópuráðinu nóvember 2022-maí 2023

Fulltrúar sambandsins áttu fund með Ragnhildi og samstarfsfólki hennar til að ræða að hvaða leyti formennska Íslands muni endurspeglast í dagskrá vorþings Sveitarstjórnarþingsins, sem verður haldið 21.-23. mars nk., og hugsanlega aðkomu sveitarstjórnarstigsins að öðrum viðburðum sem verða haldnir í tengslum við formennsku Íslands. Þegar hefur verið ákveðið að Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra muni ávarpa vorþingið og rætt hefur verið um að fulltrúi Þróunarbanka Evrópuráðsins CEB (e. The social development bank for Europe)[1] muni kynna bankann á aðalfundi Lánasjóðs sveitarfélaga næsta vor. Að öðru leyti á eftir að útfæra þátttöku þingsins eða íslenskra sveitarfélaga í formennskuáherslum Íslands. Aðalvæntingar þingsins til formennsku Íslands virðast snúa að því  að fulltrúa þess verði boðið að taka þátt í 4. leiðtogafundi Evrópuráðsins sem haldinn verður í Reykjavík í maí 2023. Til samanburðar má geta þess að formennska Íra setti svip á haustþingið en Írar fóru með formennsku í Evrópuráðinu í sex mánuði á undan Íslandi. Írskur ráðherra sveitarstjórnarmála ávarpaði þingið sem og borgarstjóri Dyflinnar. Þá buðu Írar þingfulltrúum til kvöldmóttöku þar sem flutt voru atriði úr leikriti sem fjallar um kynferðisofbeldi gagnvart konum og boðið var upp á mat og drykk.

Helstu mál á dagskrá þingsins

Að venju voru á dagskrá þingsins ýmis áhugaverð lýðræðis- og mannréttindamál, þ. á m. um starfsaðstæður kjörinna fulltrúa og loftslags- og umhverfismál í tengslum við mannréttindi. Frakkinn Mathieu Mori[2] var kosinn nýr framkvæmdastjóri þingsins til næstu fimm ára með miklum yfirburðum. Hér að neðan stutt samantekt um mál sem vænta má að íslensk sveitarfélög hafi áhuga á.

Áhrif hatursumræðu og falsfrétta á starfsaðstæður kjörinna fulltrúa á sveitarstjórnarstigi.

Sífellt meiri krefjandi starfsaðstæður kjörinna fulltrúa hafa verið sérstakt áhersluatriði hjá þinginu undanfarin ár og það tók t.d. þátt í evrópsku rannsóknarverkefni sem fól m.a. í sér að um 200 þingfulltrúar deildu reynslu sinni og skoðunum á því hvernig sé hægt að verjast hatursumræðu og falsfréttum. Á þessu þingi voru þessi mál enn á dagskrá og var samþykkt ályktun og skýrsla um áhrif hatursumræðu og falsfrétta á starfsaðstæður kjörinna fulltrúa, sem byggir á evrópska rannsóknaverkefninu[3]. Í skýrslunni kemur fram að hatursumræða og falsfréttir á netinu hafi aukist á Covid tímanum þegar öll samskipti við íbúa og pólitísk barátta færðust yfir á netið. Virðist sem möguleikinn á nafnleynd á netinum kyndi undir slíka umræðu og algoriðmar og greiddar auglýsingar hafi jafnvel þau áhrif að slíkar fréttir fá meiri útbreiðslu en sannar fréttir. Stríðið i Úkraníu hefur líka magnað upp slíka umræðu og fréttaburð og það eru vaxandi áhyggjur af því að hatursumræða og falsfréttir á netinu geti þróast yfir í það að kjörnir fulltrúar verði fyrir líkamlegu ofbeldi. Kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi í Úkraínu hafa verið sérstakt skotmark fyrir falsfréttir og hatursumræðu af hálfu Rússa og í kjölfarið hafa þeir verið beittir  ofbeldi, frelsisskerðingu og verið myrtir. Í skýrslunni er tiltekið að nálægðin við fólk í sveitarfélögunum geri kjörna fulltrúa á sveitarstjórnarstigi sérstaklega ásetta gagnvart hatursumræðu og falsfréttum sem geti síðan þróast yfir í líkamlegt ofbeldi gagnvart þeim. Þetta fyrirbæri sé ógnun við staðbundið lýðræði og eitri  andrúmsloftið í í kringum stjórnmál.

Í ályktuninni er því beint til sveitarfélaga að til verði þekking, innan þeirra og á vettvangi samstarfs þeirra, til að hægt sé að stemma stigu við þessari þróun.  Kjörnir fulltrúar þurfi að fá fræðslu um birtingarform hatursumræðu og falsfrétta og rétt viðbrögð. Jafnframt þurfi að veita þeim stuðning til að tryggja líkamlega og andlega heilsu þeirra. Í ályktuninni er þess farið á leit við ráðherranefnd Evrópuráðsins að hvetja aðildarríki til að setja markvissa stefnu á landsvísu um hvernig bregðast eigi við hatursumræðu og falsfréttum sem beinast að kjörnum fulltrúum með lagalegum úrræðum og fyrirbyggjandi aðgerðum. Endurskoða þurfi refsilöggjöf til að ná betur yfir þessi brot og tryggja að þau séu rannsökuð á fullnægjandi hátt og fái refsiréttarlega meðferð.

Móttaka flóttakvenna og barna í evrópskum sveitarfélögum.

Þingið samþykkti ályktun og skýrslu um þetta efni[4]. Áherslan er á að konur og börn á flótta hafi sérstakar þarfir og séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Í ályktuninni er lögð áhersla á að móttökusveitarfélög þurfi stuðning, að auka þurfi samstarf á milli stjórnsýslustiga og þátttöku félagasamtaka. Sveitarfélög og ríkisstjórnir í aðildarríkjum Evrópuráðsins eru hvött til að byggja stefnumótun sína á kynjasamþættingu og barnvænni nálgun. Þá eru ríkisstjórnir hvattar til setja upp skýra og gagnsæja ferla fyrir fjármögnun sem geri sveitarfélögum kleift að taka vel á móti flóttafólki, og að safna og deila upplýsingum til sveitarfélaga um flóttamenn sem eru væntanlegir.

Í skýrslunni eru grunnupplýsingar um þróun flóttamannamála í Evrópu síðustu ár, með sérstakri áherslu á konur og börn og ýmis fyrirmyndardæmi tilgreind frá evrópskum sveitarfélögum

Mannréttindahandbók fyrir sveitarfélög

Þingið samþykkti 3. mannréttindahandbók sína fyrir sveitarfélög. Fyrsta bindið fjallar um fyrstu kynslóð mannréttinda, þ.e. um vernd gegn mismunun. Annað bindið um aðra kynslóð mannréttinda, þ.e. um félagsleg réttindi og þetta þriðja bindið um rétt til heilbrigðs, hreins umhverfis og sjálfbærni. Þessi réttindi, sem er farið að kalla þriðju kynslóð mannréttinda, fela bæði í sér 1. og 2. kynslóð mannréttinda og það er gengið lengra að því leyti að tryggja ekki aðeins réttindi einstaklinga, heldur einng sameiginleg gildi fyrir samfélagið. Það sem liggur að baki er að hnignun umhverfisins, loftslagsbreytingar, mengun vatns og lofts og minni fjölbreytileiki náttúrunnar hafi áhrif á rétt manna til lífs. Þannig er talið að loftmengun valdi ótímabærum dauða um hálfra milljón manna árlega í ESB, auk þess sem hún orsakar ýmsa öndunafærasjúkdóma sem draga úr lifsgæðum fjölda fólks. Þá hefur verið sýnt fram á að loftmengun hefur valdið stórauknum asma og ofnæmi meðal barna. Tilgangur handbókarinnar er að kynna árangursríka viðleitni evrópskra sveitarfélaga til að beita mannréttindanálgun í verndun umhverfisins og til að stuðla að sjálfbærni.

Tengill á handbækurnar þrjár https://www.coe.int/web/congress/human-rights

Græn túlkun á Sveitarstjórnarsáttmála Evrópu.

Markmiðið með grænni túlkun sáttmálans er að valdefla sveitarfélög til að taka virkari þátt í baráttu gegn loftslagsbreytingum og veita þeim meiri stuðning til að bregðast við afleiðingum þeirra. Í ályktun til ráðherraráðs Evrópuráðsins, sem var samþykkt í tengslum við þetta mál, er lagt til að formgera þessa grænu nálgun með viðbótarprótókoli við Sveitarstjórnarsáttmálann. Markmiðið með honum væri að stuðla að því að sveitarfélög hafi fullnægjandi forræði, auðlindir og vald til að bregðast við loftslagsbreytingum. Í honum yrði einnig kveðið á um samráð við sveitarfélög og að þau séu þátttakendur í ákvörðunartöku sem varða umhverfið til að tryggja samhæfða og skilvirka stefnumótun þvert á stjórnsýslustig. Því er jafnframt beint til ríkisvaldsins í aðildarríkjum að grípa til aðgerða til að auka vitund sveitarfélaga um mikilvægt hlutverk þeirra til að vernda umhverfið og sveitarfélög eru hvött til stefnumótunar til að bregðast við loftslagsbreytingum og vinna að framgangi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Einnig er fjallað um hverng Sveitarstjórnarþingið sjálft getur beitt sér vegna loftslagsvandans, m.a. með því að koma inn á loftslagsmál í eftirlitsskýrslum vegna sáttmálans.

í greinargerð með ályktuninni er rakið hvernig hægt er að beita grænni túlkun gagnvart tilteknum ákvæðum sáttmálans.

Tenglill á ályktanir  og greinargerð https://search.coe.int/congress/pages/result_details.aspx?objectid=0900001680a78e2b

Mannréttindi í snjöllum sveitarfélögum.

Snjallvæðing býður upp á tækifæri til hagnýta opin gögn til að styrkja staðbundið lýðræði og bæta opinbera þjónustu en einnig til að styðja við sjálfbæra þróun, sérstaklega innleiðingu á grænni orku og grænum samgöngum. Í skýrslu og ályktun[5], sem samþykkt var um þetta málefni, er lögð áhersla á samfélagslega hlið snjallvæðingar sveitarfélaga, að tæknin þurfi að taka tillit til mannlegra þátta og sjálfbærni. Sveitarfélög eru hvött til að vinna að stafrænni umbreytingu út frá þörfum og kröfum samfélagsins og gæta sérstaklega að mannréttindum, lýðræðislegum þáttum, félagslegri aðlögun og sjálfbærri þróun. Við stafræna umbreytingu þurfi sérstaklega að gæta að persónuvernd, stafrænu jafnrétti, almennu aðgengi að internetinu, sérstaklega í dreifðum byggðum og aðgengi jaðarhópa, sem og að tryggja stöðuga og fullnægjandi yfirsýn hins opinbera.

Bent er á þau tækifæri sem liggja í hagnýtingu stöðugt umfangsmeiri gagna en jafnframt varað við því að snjallvæðing, sérstaklega hagnýting gervigreindar, geti haft í för með áhættu og áskoranir fyrir mannréttindi, lýðræði, stjórnun og íbúaþátttöku. Nýta þurfi tæknina sem verkfæri í þágu mannréttinda, lýðræðis og sjálfbærrar þróunar, draga úr hugsanlegri áhættu fyrir þessa þætti og fá sem mest út úr ávinningnum af tækninni. Áður en nýjar lausnir eru settar í loftið þurfi að fara fram kerfisbundið mat á að þær hafi ekki neikvæð áhrif á mannréttindi, lýðræði og sjálfbæra þróun. Því er beint til ráðherranefndar Evrópuráðsins að hvetja ríkisvaldið í aðildarríkjum til að styðja sveitarfélög í þessari stafrænu vegferð og sjá til þess að fullnægjandi miðlæg þekking, stuðningur og regluverk sé fyrir hendi. Skýrslan sem fylgir ályktunum gefur greinagott yfirlit. Tilgreint er að tilgangur hennar sé að auka skilning og setja fram leiðbeiningar um hagnýtingu snjallrar tækni í sveitarfélögum og á svæðum með áherslu á mikilvægi þess að við þróun og innleiðingu snjallrar tækni sé gætt að lýðræðislegum gildum og grundvallarréttindum, sem og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Í skýrslunni eru hugtakaskilgreiningar og bæði jákvæðar og neikvæðar reynslusögur frá evrópskum sveitarfélögum og svæðum sem spanna helstu málefnasvið sveitarfélaga, frá stafrænu lýðræði til umhverfislausna. Fram kemur að snjallvæðingin sé nátengd þéttbýlisvæðingu Evrópu. 75% íbúa Evrópu búa í þéttbýli en reiknað er með að talan verði komin upp í 85% árið 2050. Það eru betri forsendur fyrir snjallvæðingu á þéttbýlissvæðum en í dreifbýli þannig að stafræn gjá hefur myndast víða í Evrópu á milli þéttbýlis og dreifbýlis og einnig á milli íbúa með góða menntun og háar tekjur og annarra hópa sem hafa ekki eins góðar forsendur til að tileinka sér þessa nýju tækni. Snjallvæðing er þannig eitt af því sem er að valda auknu samfélagslegu ójafnræði eftir þjóðfélagsstöðu og búsetu.

Í skýrslunni er gefið yfirlit um alþjóðlega lagalega staðla um snjöll sveitarfélög og svæði og öryggis- og persónuverndarógnanir og viðbrögð við  þeim. Einnig er farið yfir stafræna lýðræðismöguleika. Sagt er frá áhugaverðum stafrænum samstarfsverkefnum evrópskra sveitarfélaga t.d. samstarfi átta skoskra borga[6]og samstarfi 13 flæmskra borga (68)[7] um opin gögn til að stuðla að samstarfi um hagnýtingu þeirra á milli stjórnsýslustiga, fyrirtækja, fræðistofnana og félagasamtaka. Áherslan er á að gera gögn sem mest aðgengileg til að greiða fyrir að þau séu nýtt til að bæta þjónustu. Einnig er sagt frá hvernig ”Fix my Street Brussels Capitale (71)” nýtir opin hugbúnað til að taka við ábendingum íbúa 19 sveitarfélaga á Brusselsvæðinu og gefa þeim svar um úrvinnslu á rauntíma. Þá er sagt frá ”Digital twin (76)” lausnum sem felast í því að búin er til eftirlíking af borgum í sýndarveruleika þannig að hægt sé að sjá á skýran hátt hvernig t.d. skipulagsbreytingar eða nýjar byggingarframkvæmdir muni líta út í borgarumhverfinu. Sérstakur kafi (8,3) fjallar um hagnýtingu Eista og Finna á ”X-road” og að þessar þjóðir hafi sett á stofn sameiginlega stofnun, ”Nordic Institute for Interoperability Solution” til að þróa sameiginlegar stafrænar stjórnsýslulausnir sem veita tengingar í gegnum X-road á milli landa t.d. við Ísland. Í lokin er  er fjallað um lærdóminn af Covid-tímanum, uppbyggingu eftir hann og eftir stríðið í Ukranínu.

Úttektir á stöðu sveitarstjórnarstigsins í Danmörku[8] og Svíþjóð[9] gagnvart Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga.

Bæði löndin fengu góða umsögn og sérstaklega fékk Danmörk hrós fyrir samráðsfyrirkomulagið á milli sveitarfélaga og ríkisins. Ljóst er að Norðurlöndin eru mjög framarlega í Evrópu í að tryggja sjálfsstjórn sveitarfélaga og þau ásamt millistjórnsýslustiginu bera ábyrgð á stærri hlut hins opinbera en í öðrum löndum Evrópu.

Nokkrar athugasemdir voru þó settar fram sem við könnumst við hér á landi. Þannig var fundið að því að sænska ríkið sé að fela sveitarfélögum ný verkefni án fullnægjandi svigrúms til að laga framkvæmd að staðbundnum aðstæðum og að fjármögnun sé ekki verðtryggð. Einnig var fundið að því að það sé skortur á formlegu samráðskerfi á milli ríkis og sveitarfélaga í Svíþjóð.

Skýrslur um úttektirnar gefa góða yfirsýn yfir stöðu sveitarfélaga í þessum tveimur nágrannalöndum Íslands og er ýmislegt þar áhugavert fyrir okkur, t.d. hvernig sjálfsstjórn sænskra sveitarfélaga er betur tryggð í stjórnarskrá en hér á landi, sbr. kafla 2.1. Þá er einnig áhugavert yfirlit yfir tekjur sænskra sveitarfélaga í kafla 3.8 en það sem er sérstaklega áhugavert er að það er ekki þak á útsvarsálagningum sænskra sveitarfélaga.

Þátttaka ungmennafulltrúa og sýndarþing á Ströndum

Undanfarin ár hafa ungmennafulltrúar frá aðildarríkjum og þ. á m. Íslandi tekið þátt í Sveitarstjórnarþingum í Strasbourg. Ungmennafulltrúi Íslands undanfarin tvö ár hefur verið Bára Örk Melsted sem tók virkan þátt í haustþinginu og var með tvö góð innlegg. Ungmennafulltrúar standa fyrir verkefnum sem tengjast málefnum þingsins heima fyrir og skipulagði Bára Örk sl. haust það sem hún kallaði sýndarþing sem byggði á formi sveitarstjórnarþingsins með þátttöku nemenda Grunnskólans á Hólmavík og Grunnskóla Drangsness en þau byggðu á nýlegri skýrslu Sveitarstjórnarþingsins um stöðu ungmenna í dreifðum byggðum (e. „The future of youth in rural areas: responsibilites of local and regional authorities“).

[1] https://coebank.org/en/

[2] https://rm.coe.int/manifesto-mathieu-mori-en/1680a7cd59

[3] https://search.coe.int/congress/pages/result_details.aspx?objectid=0900001680a8340b

[4] Report CG(2022)43-14, Resolution 487 (2022), Recommendation 481(2022)

[5] https://search.coe.int/congress/pages/result_details.aspx?objectid=0900001680a861ec

[6] https://scottishcities.org.uk/smart-cities/#:~:text=The%208th%20City%20programme%20runs,data%20and%20digital%20technology%20projects

[7] https://smart.flanders.be/

[8] https://search.coe.int/congress/pages/result_details.aspx?ObjectId=0900001680a8636c

[9] Report CG(2022)43-12, Recommendation 485 (2022)

Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins hélt sitt 42. þing í Strasbourg 22.-24. mars sl. Boðið var upp á möguleika til að taka þátt í þinginu rafrænt og tóku Ásgerður Kristín Gylfadóttir þingfulltrúi og Anna Guðrún Björnsdóttir, sviðsstjóri þróunar- og alþjóðasviðs, sem tók saman þetta minnisblað, en hún var einnig ritari íslensku sendinefndarinnar á þinginu, þátt á þann hátt.

Málefni Úkraínu settu mikinn svip á þingið. Úkranískir þingfulltrúar voru mættir í Evrópuráðshöllina sveipaðir úkraníska fánanum og sumir höfðu tekið börnin sín með sér á þingið, enda á flótta með þau. Hins vegar voru rússneskir þingfulltrúar, sem venjulega láta mikið til sín taka á þinginu, horfnir vegna brottreksturs Rússa úr Evrópuráðinu. Á þinginu var sérstakur dagskrárliður um Úkranínu. Undir þeim lið talaði úkranískur bæjarstjóri, sem er þingfulltrúi, úr sprengjubyrgi þar sem hans borg var undir sprengjuárásum. Borgarstjóri Kænugarðs talaði úr sínu ráðhúsi og lagði áherslu á að Evrópa verði að veita Úkraníu stuðning þar sem stríðið snúist um að verja evrópsk gildi. Byggðamálaráðherra Úkranínu ávarpaði einnig þingið. Hann sýndi myndir af úkranískum borgum og bæjum, fyrir og eftir stríð sem sýndu vel þá eyðileggingu sem hefur átt sér stað, og sagði frá borgar- og bæjarstjórum sem hafa verið handteknir og myrtir[1]. Þingið samþykkti samhljóða, eftir umræðu sem mjög margir tóku þátt í, ályktun þar sem innrás Rússa er fordæmd. Til viðbótar er rétt að vekja athygli á því rafræn gátt, Cities4Cities, hefur verið opnuð á vegum þingsins til að koma á tengslum á milli sveitarfélaga, sem vilja veita úkranískum sveitarfélögum stuðning, og sveitarfélaga í Úkraníu.

Framkvæmdastjóri Evrópuráðsins Marija PEJČINOVIĆ-BURIĆ ávarpaði þingið

Framkvæmdastjóri Evrópuráðsins Marija PEJČINOVIĆ-BURIĆ ávarpaði þingið og fór yfir að þá erfiðu en nauðsynlegu ákvörðun að vísa Rússlandi úr ráðinu. Ákvörðunin er fordæmalaus. Hún er sjálf frá landi þar sem stríð ríkti fyrir nokkrum áratugum, þ.e. Króatíu.  Hún lagði áherslu á að íbúar Rússlands séu líka fórnarlömb þar sem þeir geti ekki lengur reitt sig á mannréttindasáttmála Evrópu til að verja grundvallarmannréttindi sín. Hún fékk spurningu um afleiðingar  af brotthvarfi Rússa á störf þingsins þar sem fjárveitingar til þess hafa verið skornar niður á undanförnum árum og aðildargjöld Rússlands hafa vegið þungt í fjármögnun Evrópuráðsins. Ljóst er að ekki verður hjá því komist að skera niður í starfsemi þingsins eða hækka aðildargjöld meðlimalanda.

Þátttaka barna í innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Kynntur var bæklingur, „Hvernig getur þú gert bæinn þinn betri“, til að styðja við þátttöku barna á aldrinum 6-11 ára í innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og samþykkt var ályktun um málið með leiðbeiningunum um hvernig sé hægt að nýta bæklinginn. Í ályktuninni hvetur þingið sveitarfélagasambönd til að þýða og dreifa leiðbeiningunum. Bæklingurinn sem var unninn í víðtæku samstarfi við börn gæti nýst íslenskum sveitarfélögum og er fullt tilefni til að dreifa honum og skoða að þýða hann á íslensku. Hér er tengil á vídeó þar sem börn, m.a. frá Úkraníu, sem unnu að gerð bæklingsins, segja frá því hvað þau lærðu.

Ályktun um þátttöku íbúa í stjórnun sveitarfélaga á milli kosninga.

Þingið samþykkti skýrslu og ályktun þar sem sveitarfélög og svæði eru hvött til að vinna að þátttöku íbúa og tryggja að íbúar séu valdir til þátttöku þannig að þeir endurspegli íbúasamsetningu (e. „civic lotteries“). Í skýrslunni eru leiðbeiningar um hvernig eigi að skipuleggja slíka íbúaþátttöku og upplýsingar um evrópsk fyrirmyndarverkefni.

Ályktun um stöðu óháðra frambjóðenda og minnihluta í sveitarstjórnum.

Þingið ræddi skýrslu um stöðu óháðra frambjóðenda og minnihluta í sveitarstjórnum og samþykkti ályktun um málið. Samkvæmt henni hvetur þingið staðbundin stjórnvöld og stjórnvöld á landsvísu til að standa ekki í vegi fyrir því að einstaklingar geti boðið sig fram til kosninga á jafnræðisgrunni.

Ályktun um stöðu ungs fólks í dreifbýli.

Þingið samþykkti skýrslu og ályktun um betri framtíð fyrir ungt fólki í dreifbýli og úrræði til að berjast gegn því að það yfirgefi heimabyggðir vegna skorts á húsnæði, tækifærum til menntunar og atvinnu sem og lakari framboð á þjónustu en býðst í þéttbýli. Í ályktuninni hvetur þingið staðbundin stjórnvöld til stefnumótunar til að mæta þessum áskorunum og til að styðja samtök ungs fólks. Jafnframt eru staðbundin stjórnvöld hvött til að vinna að aukinni þátttöku ungs fólks. Ríkisstjórnir aðildarríkja eru hvattar til að styrkja stöðu ungs fólks í dreifbýli í gegnum stefnumótun í æskulýðs-; atvinnu- og húsnæðismálum og uppbyggingu á innviðum í dreifðum byggðum til að tryggja jafnan aðgang að þjónustu. Bára Örk Melsted er íslenskur æskulýðsfulltrúi á þinginu. Hún talaði undir þessum lið og miðlaði af eigin reynslu af því að hafa alist upp í dreifbýli á Íslandi og þurft að yfirgefa heimahagana 15 ára til að sækja sér menntun.

Á myndinni hér að ofan má sjá Báru Örk Melsted æskulýðsfulltrúa á Sveitarstjórnarþinginu.

Falsfréttir, hótanir og ofbeldi gegn kjörnum fulltrúum.

Umræður voru um þetta mál og kynnt var skýrsla sem ein af nefndum þingsins vinnur að á grundvelli háskólaskýrslu um hvernig sé hægt að berjast gegn falsfréttum og hatursumræður út frá vísindalegum niðurstöðumr. Fræðimaður, sem hefur haft umsjón með rannsókninni  fór yfir að lagaleg úrræði séu ófullnægjandi, sem og tæknileg úrræði til að loka á slíka umræðu á netinu. Besta úrræðið sé gagnsæi að allar upplýsingar séu uppi á borðum þannig að ekki verði til jarðvegur fyrir sögusagnir og rógburð.

Eftirlitsskýrslur

Eitt af meginhlutverkum Sveitarstjórnarþingsins er að hafa eftirit með framkvæmd sveitarstjórnarkosninga í aðildarríkjum og Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga. Á þessu þingi var fjallað um framkvæmd sveitarstjórnarsáttmálans í Þýskalandi, Luxembourg, Tyrkland og Bretlandi. Í eftirlitsskýrslu um Bretland er ríkisvaldið gagnrýnt fyrir að hindra sjálfsforræði breskra sveitarfélaga með smáatriðareglusetningu, eftirlitsskriffinnsku og litlu svigrúmi til fjármögnunar verkefna. Framkvæmd sveitarstjórnarsáttmálans í Þýskalandi fékk góða einkunn en þó var sett fram ábending um að tryggja þurfi sveitarstjórnum meira sjálfsforræði um fjármál sín.

Einnig voru samþykktar skýrslur um kosningaeftirlit í Marókkó, Geórgíu, Armeníu og Danmörku. Ekki hefur áður átt sér stað eftirlit með kosningum í Danmörku. Framkvæmd kosninga þar þótti í aðalatriðum hafa tekist vel en þó var fundið að því að því að reglur um fjármögnun kosningaherferða væru ófullnægjandi sem og aðgerðir til að berjast gegn hatursumræðu og falsfréttum, að faglegri þekkingu kjörstjórna væri ábótavant og bæta mætti regluverk um kosningaeftirlit á kjörstöðum.

[1] Sbr. nánar https://www.coe.int/en/web/congress/-/council-of-europe-congress-president-condemns-the-crimes-against-ukrainian-citizens-and-elected-local-leaders

 

Fyrsta þingið í tvö ár sem fer fram í Strassbourg

Þetta var fyrsta þingið í tvö ár sem fer fram í Strassbourg. Var almenn ánægja með að geta aftur hist í Evrópuráðshöllinni og góð mæting. Þing voru haldin á netinu í millitíðinni en það form reyndist þungt í vöfum fyrir þingið. Nú var boðið upp á rafræna þátttöku fyrir þá sem ekki áttu heimangengt vegna Covidástands og atkvæðagreiðslur bæði þeirra sem tóku þátt í salnum og í gegnum netið fóru fram í gegnum sama rafræna kosningakerfi. Stjórnarmennirnir Guðmundur Ari Sigursjónsson og Bjarni Jónsson tóku þátt í þinginu, auk þeirra sem þetta skrifar sem er ritari íslensku sendinefndarinnar á þinginu. Hér að neðan er yfirlit yfir helstu þingmál og neðst í skjalinu er kynning á undirbúningi fyrir formennsku Íslands í Evrópuráðinu.

Aftur fastanefnd fyrir Ísland í Strassbourg.

Ragnhildur Arnljótsdóttir fyrrverandi ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu hefur nýlega tekið við sem fastafulltrúi Íslands við Evrópuráðið með aðsetur í Strassbourg. Er það mjög jákvæð breyting fyrir íslensku sendinefndina á Sveitarstjórnarþinginu að geta notið stuðnings hennar í tengslum við þátttöku í störfum þingsins.

Skýrslur um stöðu sveitarstjórnarstigsins í aðildarlöndum gagnvart Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga

Eitt mikilvægasta hlutverk þingsins er að hafa eftirlit með framkvæmd Evrópusáttmála um sjálfstjórn sveitarfélag. Fimm slíkar eftirlitsskýrslur voru afgreiddar á þinginu um sveitarstjórnarstigið á Spáni, Hollandi, N-Makedóníu, Kýpur og Albaníu.

Hlutverk sveitarfélaga og svæða gagnvart flóttamönnum og innflytjendum

Sendifulltrúi framkvæmdastjóra Evrópuráðsins í málefnum flóttamanna og innflytjenda kynnti aðgerðir Evrópuráðsins og þ. á m. aðgerðaráætlun til að vernda viðkvæma hópa eins og konur og börn, sem kveður á um hlutverk sveitarfélaga. Eftir kynninguna lýstu nokkrir þingfulltrúar eigin áskorunum. Tyrkneskur bæjarstjóri lýsti flóttamannavandanum sem stærstu áskoruninni sem hann hefur staðið frammi fyrir á 30 ára bæjarstjóraferli sínum. 6 milljónir af 26 milljónum flóttamanna í heiminum eru í Tyrklandi og búist er við 3 milljónum afganskra flóttamanna á næstunni. Rússneskur þingfulltrúi lýsti hins vegar vinnuinnflytjendum sem auðlind og sagði frá aðlögun þeirra sem hann taldi ganga mjög vel. Armenskur þingfulltrúi sagði frá miklum áskorunum vegna móttöku fjölmargra flóttamanna af armenskum uppruna vegna deilna Armeníu og Azerbadjan. Önnur ríki berjast við áskoranir vegna þess þau eru að missa fjölda íbúa sem leita gæfunnar í öðrum löndum. Þetta kom fram í máli þingfulltrúa frá Moldovíu sem sagði eina af þremur milljónum íbúa landsins hafa flutt úr landi undanfarin ár sem hefði haft í för með sér mikla tekjuskerðingu fyrir sveitarfélög og takmarkað getu þeirra til sinna verkefnum sínum.

Kynning á verkefnum æskulýðsfulltrúa þingsins.

Undanfarin ár hafa æskulýðsfulltrúar frá flestum aðildarlöndum tekið virkan þátt í Sveitarstjórnarþingum. Svo var einnig nú og undir sérstökum dagskrárlið kynntu þau verkefni sem þau hafa unnið að 2020-2021 þrátt fyrir faraldurinn. Nánari upplýsingar hér https://www.coe.int/en/web/congress/41st-session-youth-delegates. Guðmundur Ari tók þátt í umræðum undir þessum dagskrárlið um mikilvægi þess að þátttaka ungs fólks sé skipulögð þannig að þau hafi raunveruleg áhrif.

Áhrif hatursumræðu og falsfrétta á störf kjörinna fulltrúa á sveitarstjórnarstigi.

Starfsaðstæður sveitarstjórnarfólks er sérstakt áherslumál þingsins  þessi misserin og umræða um ofangreint var þáttur í því. Prófessor við Háskólann í Ludwigsburg í Þýskalandi kynnti stöðu rannsóknaverkefnis háskóla í fimm Evrópuríkjum um falsfréttir og hatursumræðu. Skýrsla með niðurstöðum verður kynnt á vorþingi og er ætlunin að vinna handbók og ályktun á grundvelli niðurstaðna. Mismunandi tegundir af hatursorðræðu og falsfréttum verða greindar og áhrif þeirra. Sérstök áhersla verður á að greina uppruna slíkrar orðræðu. Fram kom hjá prófessornum að vísindin séu ekki ennþá skýr gagnvart þessu fyrirbæri og tæknilega sé mjög erfitt að ráða við falsfréttir og hatursumræðu á netinu og rekja hver hafi komið slíkri orðræðu af stað. Þannig sé næstum ómögulegt að loka á vefsíður. Hann sagði að gervigreind sé mjög oft nýtt til að koma falsfréttum á framfæri. Það sé pólitísk spurning hvort það eigi að setja strangari internetreglur sem tengist flóknu samspili við reglur um tjáningarfrelsi. Könnun verður sendur út til aðildarríkja. Miklar umræður voru eftir kynninguna sem sýnir að þetta brennur á kjörnum fulltrúum í flestum aðildarríkjum. Nánari upplýsingar hér https://www.coe.int/en/web/congress/-/how-to-preserve-local-democracy-in-the-face-of-fakes-news-and-hate-speech-.

Svæðisbundnar aðgerðir lykillinn að endurreisn eftir Cóvíd.

Aðstoðarframkvæmdastjóri OECD sagði efnahaginn á réttri leið og á betri leið en á horfðist í upphafi árs. Fyrirsjáanlegur sé mesti hagvöxtur á heimsvísu síðan á sjöunda áratuginum 4,7% en staðan sé mjög mismunandi eftir svæðum. Bólusetningarhlutfall er líka mjög mismunandi eftir svæðum. Á afskekktum stöðum þar sem er slæmt aðgengi að bólusetningum sé hlutfallið mun lægra sem og á svæðum þar sem almenningur ber lítið traust til yfirvalda. Það sé lykilatriði að hækka hlutfall bólusettra á heimsvísu til að ná tökum á faraldrinum. Ríkisstjórnir þurfa að beita aðgerðum sem taka mið af stöðu einstakra svæða og leitast við að  draga úr ójafnvægi sem hefur aukist mjög mikið á milli svæða. Leggja þurfi áherslu á framsýnar aðgerðir, loftslagsaðgerðir og stafræna umbreytingu. Sveitar- og svæðisstjórnir séu lykilaðilar í enduruppbyggingu og þau eigi að líta á stöðuna sem tækifæri fyrir þau að endurskilgreina sig og verkefni sín. Nánari upplýsingar hér https://www.coe.int/en/web/congress/-/post-covid-recovery-strategies-must-be-adapted-to-the-reality-of-cities-and-regions.

Deiliheimili-í gegnum rafræna miðla – áskorun og tækifæri fyrir sveitarfélög.

Samþykkt var ályktun til sveitarfélaga og samtaka þeirra um að móta langtímasýn til að takast á við áhrif þessa anga deilihagkerfisins á hagsmuni íbúa og miðbæjarlíf og að setja eða endurskoða reglur um skammtímaleigu út frá slíkri sýn. Jafnframt var samþykkt að beina því til stjórnvalda á landsvísu að þau veiti sveitar- og svæðisstjórnum auknar heimildir til að framfylgja slíkum reglum og stuðning til ná upplýsingum frá rafrænum deilimiðlurum. Þau þurfi einnig að vinna með sveitar- og svæðisstjórnum að sjálfbærum ferðamannastefnum. Ályktunin byggist á skýrslu sem gefur góða yfirsýn yfir áskoranir og tækifæri, hvernig borgir hafa brugðist við með setningu reglna og vandamál við að framfylgja þeim. Í lokakafla skýrslunnar eru settar fram fjölmargar ráðleggingar til sveitarfélaga um möguleg viðbrögð. Í skýrslunni eru líka gefin dæmi um möguleika borga til að spyrna við að deiliheimili verði of ríkjandi á ákveðnum stöðum, sérstaklega í miðbæjarkjörnum, á kostnað íbúa með fasta búsetu. Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um málið og skýrsluna sjálf hér https://www.coe.int/en/web/congress/-/collaborative-accommodation-economy-the-congress-calls-to-give-more-power-to-local-and-regional-authorities.

Nokkrar áhugaverðar reynslusögur borga úr skýrslu um deiliheimili.

Porto í Portúgal

Borgin leggur áherslu á fjölbreyta starfsemi í borginni þannig að einn rekstur sé ekki meira ríkjandi en annar. Borgaryfirvöld reka fjárfestingarverkefnið „Invest Porto“ til að berjast gegn því að túrismi verði of ríkjandi í borginni og notuðu tekjur af ferðamannaskatti til að stofna sjóð til að styðja við hefðbundna verslun í borginni. Þannig var hægt að koma í veg fyrir að búðir með langa sögu í miðbænum myndu loka.

Amsterdam

Sú staða var kominn upp í Amsterdam að gífurlegur fjöldi ferðamanna var búinn að raska jafnvæginu í borginni þannig að íbúum fannst þeir settir til hliðar. Borgin kom á fót verkefni „Borg í jafnvægi“ með því leiðarljósi að gestir séu velkomnir en íbúar hafi forgang. Borgin setti takmarkanir á því hversu margir leiðsögumenn mættu vera að störfum í miðbænum og öðrum vinsælum ferðamannastöðum og hefur lagt áherslu á að ferðamenn, sérstaklega þeir sem eru í vinnuferðum, dreifist á fleiri staði. Þáttur í því er að borgin hefur fengið önnur sveitarfélög í lið með sér til að vekja athygli á fleiri stöðum sem eru áhugaverðir fyrir ferðamenn.

Berlín

Berlín hefur gripið til ráðstafana til að bregðast við áhrifum skammtímaleiga á húsnæðismarkaðinn í borginni. Borgin hefur innleitt áætlun um sjálfbæra ferðamennsku í sátt við borgina[1] til að draga úr neikvæðum áhrifum skammtímaleigu á íbúa og fyrirtæki. Umsóknum um  leyfi til skammtímaleigurekstrar hefur í sumum tilvikum verið hafnað og settar hafa verið strangari reglur, sem fela í sér hærri sektir, skráningarskyldu og 90 daga leiguhámark.

Nokkrir áhugaverðir punktar úr skýrslunni og yfirlit yfir regluverk.

 • Flestar borgir gera ekki veður út af því að einstaklingar leigi út íbúðir sínar í nokkrar vikur á ári meðan þeir eru í fríi heldur grípa til aðgerða við þegar heilu íbúabyggingarnar eru teknar af leigumarkaði í þeim eina tilgangi að leigja þær í skammtímaleigu.
 • Það er álit flestra að skammtímaleiga sé ekki ástæða þess ójafnvægis sem hefur skapast á á milli framboðs og eftirspurnar á húsnæðismarkaði í flestum evrópskum borgum en hún hafi aukið vandann.
 • Það er hægt að þéna mun betur á skammtímaleigu en langtímaleigu, allt að þrisvar sinnum meira samkvæmt áliti húsnæðissérfræðings í Berlín. Þessi hagnaðarávinningur hefur leitt til þess að skammtímaleiga hefur þanist út í borgum og er ástæðan fyrir því að skammtímaleiga er sérstaklega algeng á vinsælum ferðamannastöðum.
 • Í Evrópu hefur það einnig færst í vöxt að fólki kaupi íbúðir til að fjárfesta og/eða til að nota sem annað heimili.
 • Samkvæmt skýrsluhöfundum telja yfirvöld á sveitarstjórnarstigi að beita eigi skattlagningu til að jafna aðstöðumun á milli skammtímaleigusala og hefðbundinna leigusala.
 • Ekki allar borgir njóta góðs af ferðamannasköttum vegna þess að ríkisvaldið innheimtir slíka skatta, t.d. í Tirana í Albaníu. Porto í Portugal hefur þó tekist að fá ferðamannaskatta til sín til að koma á móts við kostnað borgarinnar vegna ferðamanna. Borgin hefur nýtt þessar skatttekjur til að setja á laggirnar sjóð sem styður við fjárfestingar í hefðbundnum atvinnurekstri í miðbænum.
 • Margar borgir hafa farið út að semja við deilimiðlanir. Þessir samningar eru af ýmsu tagi. Sumar borgir hafa kallað eftir að ESB setji reglur til hemja deilimiðlanir. Borgirnar hafa einnig leitast við að setja sjálfar reglur en margar kvarta yfir úrræðum til að framfylgja þeim þar sem lagaumhverfið er ófullkomið. Borgir sem búa við versta ástandið hafa lent í að þurfa að kljást við deilirisa eins og Airbnb sem starfa samkvæmt evrópskum reglum. Framkvæmdastjórn ESB lagði fram tillögu að nýrri löggjöf um rafræna þjónustu til að styrkja heildstæðan evrópskan markað fyrir slíka þjónustu og stuðla að lagaumhverfið sem styðji við minni fyrirtæki.
 • Svæðisnefnd ESB, sem er skipuð kjörnum fulltrúum á sveitarstjórnarstigi frá aðildarlöndum ESB, hefur hvatt ESB til að setja skýrari reglur um deilimiðlara og gera þeim skylt að veita stjórnvöldum upplýsingar til að borgir geti framfylgt reglum sínum um skammtímaleigu og innheimt opinber gjöld. Nauðsynlegt sé að samræma reglur á milli aðildarríkja til að tryggja að hin sameiginlegi evrópski markaður virki sem einn heild á þessu sviði. Umhverfið þessara viðskipta sé sérstaklega flókið og því þurfi borgir að vera framsýnar og hafa þá fyrirhyggju að setja reglur áður en álitamálin koma upp. Það er miklu auðveldara að takmarka skammtímaleigu í borgum fyrirfram heldur en að fjarlægja hana þegar hún er búin að koma sér fyrir. Setning reglna verður alltaf erfiðari og umdeildari eftir því sem fleiri hagsmunaaðilar hafa náð að myndast.

 

Yfirlit yfir regluverk í sex evrópskum borgum

Formennska Íslands í Evrópuráðinu 2022-2023 og fundur með framkvæmdastjóra Sveitarstjórnarþingsins og Ragnhildi Arnljótsdóttur fastafulltrúa.

Fastanefnd Íslands í Strassborg undirbýr nú formennsku Íslands í Evrópuráðinu sem verður á tímabilinu frá nóvember 2022 til maí 2023 og endar með stærsta ráðherrafundi sem haldinn hefur verið á Íslandi. Ráðherrum, frá aðildarríkjunum sem eru alls 47, er boðið til fundarins sem utanríkisráðherra Íslands mun bjóða til og stýra. Er þetta í annað sinn sem Ísland gegnir formennsku í Evrópuráðinu en rúm 70 ár eru frá því að Ísland varð aðili að Evrópuráðinu, fyrri formennskan var árið 1999 undir forystu Halldór Ásgrímssonar, þáv. utanríkisráðherra. Drög að formennskuáherslum og formennskudagskrá Íslands liggja þegar fyrir og verða kynnt í ríkisstjórn þegar ný ríkisstjórn hefur verið mynduð. Gert er ráð fyrir því að áherslurnar verði í samræmi við áherslur í nýjum stjórnarsáttmála og utanríkisstefnu Íslands. Er á því byggt að megináherslur verði jafnréttismál, kynrænt sjálfræði, málefni barna og ungmenna og lýðræði og réttarríkið auk þess sem málefni tengd gervigreind og mannréttindum og brotum á netinu (netglæpum) og umhverfismál verði til umfjöllunar á formennskutímanum. Í fyrirliggjandi drögum að formennskudagskrá er m.a. gert ráð fyrir að ráðherra sveitarstjórnarmála heimsæki Strassborg og ávarpi sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins í lok mars 2023. Endanlegt umfjöllunarefni á fundinum og í ávarpi ráðherra og umræðum liggur ekki fyrir og verður það valið í samráði við ráðherra og fleiri aðila. Hugsanlega verður þar m.a. fjallað um umhverfismál. Þá hefur verið rætt um að fulltrúar sveitarstjórnarþingsins Evrópuráðsins og sveitarfélaga á Íslandi taki þátt í viðburðum á formennskutímabilinu eftir því sem tilefni er til. Átti íslenska sendinefndin á þinginu og fastafulltrúi Íslands fund með framkvæmdastjóra þingsins Andreas Kiefer að hans frumkvæði til að ræða fyrstu hugmyndir þar að lútandi.

AGB

[1] Sustainable and City-Compatible Berlin Tourism Plan 2018+

Á þinginu eiga sæti kjörnir fulltrúar frá sveitarfélögum og svæðum í Evrópu. Þingfulltrúar eru 324 og þeir eru fulltrúar yfir 150.000 sveitarfélaga og svæða í Evrópu. Þingið starfar í tveimur deildum, sveitarfélaga- og svæðadeild og líka í einni sameiginlegri deild. Þing eru haldin tvisvar á ári að vori og hausti í höfuðstöðvum Evrópuráðsins í Strasbourg, Frakklandi. Þingfulltrúar skiptast í landsdeildir og fjórar pólitískar fylkingar. Þrjár nefndir starfa á milli þinga til undirbúa mál sem fjallað er um á þingunum. Þær eru:

 • Eftirlitsnefnd (Monitoring Committee)
 • Stjórnunarnefnd (Governance Committee)
 • Nefnd um um mál sem efst eru á baugi hverju sinni (Current Affair Committee)

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga tilnefnir þrjá kjörna fulltrúa til setu á þinginu og þrjá varamenn. Sviðsstjóri þróunar- og alþjóðasviðs er ritari íslensku sendinefndarinnar á þinginu.

Þingið hefur ályktað um fjölmörg mál og það hefur unnið að ýmsum Evrópusamningum um málefni sveitarstjórnarstigsins. Þar ber hæst Evrópusáttmálann um sjálfsstjórn sveitarfélaga, sem Ísland hefur fullgilt. Fullgilding felur í sér að aðildarríki skuldbinda sig til að virða sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga í innlendri lagasetningu. Þingið gerir reglulega úttektir á stöðu staðbundins lýðræðis í aðildarríkjum sínum gagnvart Evrópusáttmálanum sem lagðar eru fyrir þingið. Þingið gerði síðast úttekt á íslenska sveitarstjórnarstiginu 2017 og samþykkti ályktun á grundvelli hennar sem send var ráðherranefnd Evrópuráðsins. Úttektin var í meginatriðum jákvæð en mælt var með því að Evrópusáttmálinn verði innleiddur með beinum hætti í íslensk lög og að skýra betur verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga. Enn fremur var því beint til ríkisvaldsins að veita Reykjavíkurborg sérstaka stöðu sem höfuðborg.

Tengill á úttektina frá 2017.

Þingið fylgist með framkvæmd sveitarstjórnarkosninga í aðildarríkjunum og setur evrópska staðla um þau mál. Það lætur sig líka varða íbúaþátttöku, málefni flóttamanna og innflytjenda, svo og siðamál og aðgerðir til að berjast gegn spillingu. Það hefur samþykkt hegðunarreglur fyrir alla sem koma að stjórnun sveitarfélaga og svæða. Það hefur einnig gefið út mannréttindahandbók fyrir sveitarfélög.

Nánari upplýsingar á vefsíðu Evrópuráðsins, https://www.coe.int/en/web/congress/home