Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins

Sveitarstjórnarþingið, „Congress of Local and Regional Authorities“, er ein af stofnunum Evrópuráðsins. Hlutverk þingsins er að styrkja staðbundið lýðræði í aðildaríkjum Evrópuráðsins sem eru 47. Þingið er ráðgefandi gagnvart ráðherranefnd Evrópuráðsins.

Á þinginu eiga sæti kjörnir fulltrúar frá sveitarfélögum og svæðum í Evrópu. Þingfulltrúar eru 324 og þeir eru fulltrúar yfir 150.000 sveitarfélaga og svæða í Evrópu. Þingið starfar í tveimur deildum, sveitarfélaga- og svæðadeild og líka í einni sameiginlegri deild. Þing eru haldin tvisvar á ári að vori og hausti í höfuðstöðvum Evrópuráðsins í Strasbourg, Frakklandi. Þingfulltrúar skiptast í landsdeildir og fjórar pólitískar fylkingar. Þrjár nefndir starfa á milli þinga til undirbúa mál sem fjallað er um á þingunum. Þær eru:

  • Eftirlitsnefnd (Monitoring Committee)
  • Stjórnunarnefnd (Governance Committee)
  • Nefnd um um mál sem efst eru á baugi hverju sinni (Current Affair Committee)

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga tilnefnir þrjá kjörna fulltrúa til setu á þinginu og þrjá varamenn. Sviðsstjóri þróunar- og alþjóðasviðs er ritari íslensku sendinefndarinnar á þinginu.

Þingið hefur ályktað um fjölmörg mál og það hefur unnið að ýmsum Evrópusamningum um málefni sveitarstjórnarstigsins. Þar ber hæst Evrópusáttmálann um sjálfsstjórn sveitarfélaga, sem Ísland hefur fullgilt. Fullgilding felur í sér að aðildarríki skuldbinda sig til að virða sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga í innlendri lagasetningu. Þingið gerir reglulega úttektir á stöðu staðbundins lýðræðis í aðildarríkjum sínum gagnvart Evrópusáttmálanum sem lagðar eru fyrir þingið. Þingið gerði síðast úttekt á íslenska sveitarstjórnarstiginu 2017 og samþykkti ályktun á grundvelli hennar sem send var ráðherranefnd Evrópuráðsins. Úttektin var í meginatriðum jákvæð en mælt var með því að Evrópusáttmálinn verði innleiddur með beinum hætti í íslensk lög og að skýra betur verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga. Enn fremur var því beint til ríkisvaldsins að veita Reykjavíkurborg sérstaka stöðu sem höfuðborg.

Tengill á úttektina frá 2017.

Þingið fylgist með framkvæmd sveitarstjórnarkosninga í aðildarríkjunum og setur evrópska staðla um þau mál. Það lætur sig líka varða íbúaþátttöku, málefni flóttamanna og innflytjenda, svo og siðamál og aðgerðir til að berjast gegn spillingu. Það hefur samþykkt hegðunarreglur fyrir alla sem koma að stjórnun sveitarfélaga og svæða. Það hefur einnig gefið út mannréttindahandbók fyrir sveitarfélög.

Nánari upplýsingar á vefsíðu Evrópuráðsins, https://www.coe.int/en/web/congress/home