Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins

Sveitarstjórnarþingið, „Congress of Local and Regional Authorities“, er ein af stofnunum Evrópuráðsins. Hlutverk þingsins er að styrkja staðbundið lýðræði í aðildaríkjum Evrópuráðsins sem eru 47. Þingið er ráðgefandi gagnvart ráðherranefnd Evrópuráðsins.

Fyrsta þingið í tvö ár sem fer fram í Strassbourg

Þetta var fyrsta þingið í tvö ár sem fer fram í Strassbourg. Var almenn ánægja með að geta aftur hist í Evrópuráðshöllinni og góð mæting. Þing voru haldin á netinu í millitíðinni en það form reyndist þungt í vöfum fyrir þingið. Nú var boðið upp á rafræna þátttöku fyrir þá sem ekki áttu heimangengt vegna Covidástands og atkvæðagreiðslur bæði þeirra sem tóku þátt í salnum og í gegnum netið fóru fram í gegnum sama rafræna kosningakerfi. Stjórnarmennirnir Guðmundur Ari Sigursjónsson og Bjarni Jónsson tóku þátt í þinginu, auk þeirra sem þetta skrifar sem er ritari íslensku sendinefndarinnar á þinginu. Hér að neðan er yfirlit yfir helstu þingmál og neðst í skjalinu er kynning á undirbúningi fyrir formennsku Íslands í Evrópuráðinu.

Aftur fastanefnd fyrir Ísland í Strassbourg.

Ragnhildur Arnljótsdóttir fyrrverandi ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu hefur nýlega tekið við sem fastafulltrúi Íslands við Evrópuráðið með aðsetur í Strassbourg. Er það mjög jákvæð breyting fyrir íslensku sendinefndina á Sveitarstjórnarþinginu að geta notið stuðnings hennar í tengslum við þátttöku í störfum þingsins.

Skýrslur um stöðu sveitarstjórnarstigsins í aðildarlöndum gagnvart Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga

Eitt mikilvægasta hlutverk þingsins er að hafa eftirlit með framkvæmd Evrópusáttmála um sjálfstjórn sveitarfélag. Fimm slíkar eftirlitsskýrslur voru afgreiddar á þinginu um sveitarstjórnarstigið á Spáni, Hollandi, N-Makedóníu, Kýpur og Albaníu.

Hlutverk sveitarfélaga og svæða gagnvart flóttamönnum og innflytjendum

Sendifulltrúi framkvæmdastjóra Evrópuráðsins í málefnum flóttamanna og innflytjenda kynnti aðgerðir Evrópuráðsins og þ. á m. aðgerðaráætlun til að vernda viðkvæma hópa eins og konur og börn, sem kveður á um hlutverk sveitarfélaga. Eftir kynninguna lýstu nokkrir þingfulltrúar eigin áskorunum. Tyrkneskur bæjarstjóri lýsti flóttamannavandanum sem stærstu áskoruninni sem hann hefur staðið frammi fyrir á 30 ára bæjarstjóraferli sínum. 6 milljónir af 26 milljónum flóttamanna í heiminum eru í Tyrklandi og búist er við 3 milljónum afganskra flóttamanna á næstunni. Rússneskur þingfulltrúi lýsti hins vegar vinnuinnflytjendum sem auðlind og sagði frá aðlögun þeirra sem hann taldi ganga mjög vel. Armenskur þingfulltrúi sagði frá miklum áskorunum vegna móttöku fjölmargra flóttamanna af armenskum uppruna vegna deilna Armeníu og Azerbadjan. Önnur ríki berjast við áskoranir vegna þess þau eru að missa fjölda íbúa sem leita gæfunnar í öðrum löndum. Þetta kom fram í máli þingfulltrúa frá Moldovíu sem sagði eina af þremur milljónum íbúa landsins hafa flutt úr landi undanfarin ár sem hefði haft í för með sér mikla tekjuskerðingu fyrir sveitarfélög og takmarkað getu þeirra til sinna verkefnum sínum.

Kynning á verkefnum æskulýðsfulltrúa þingsins.

Undanfarin ár hafa æskulýðsfulltrúar frá flestum aðildarlöndum tekið virkan þátt í Sveitarstjórnarþingum. Svo var einnig nú og undir sérstökum dagskrárlið kynntu þau verkefni sem þau hafa unnið að 2020-2021 þrátt fyrir faraldurinn. Nánari upplýsingar hér https://www.coe.int/en/web/congress/41st-session-youth-delegates. Guðmundur Ari tók þátt í umræðum undir þessum dagskrárlið um mikilvægi þess að þátttaka ungs fólks sé skipulögð þannig að þau hafi raunveruleg áhrif.

Áhrif hatursumræðu og falsfrétta á störf kjörinna fulltrúa á sveitarstjórnarstigi.

Starfsaðstæður sveitarstjórnarfólks er sérstakt áherslumál þingsins  þessi misserin og umræða um ofangreint var þáttur í því. Prófessor við Háskólann í Ludwigsburg í Þýskalandi kynnti stöðu rannsóknaverkefnis háskóla í fimm Evrópuríkjum um falsfréttir og hatursumræðu. Skýrsla með niðurstöðum verður kynnt á vorþingi og er ætlunin að vinna handbók og ályktun á grundvelli niðurstaðna. Mismunandi tegundir af hatursorðræðu og falsfréttum verða greindar og áhrif þeirra. Sérstök áhersla verður á að greina uppruna slíkrar orðræðu. Fram kom hjá prófessornum að vísindin séu ekki ennþá skýr gagnvart þessu fyrirbæri og tæknilega sé mjög erfitt að ráða við falsfréttir og hatursumræðu á netinu og rekja hver hafi komið slíkri orðræðu af stað. Þannig sé næstum ómögulegt að loka á vefsíður. Hann sagði að gervigreind sé mjög oft nýtt til að koma falsfréttum á framfæri. Það sé pólitísk spurning hvort það eigi að setja strangari internetreglur sem tengist flóknu samspili við reglur um tjáningarfrelsi. Könnun verður sendur út til aðildarríkja. Miklar umræður voru eftir kynninguna sem sýnir að þetta brennur á kjörnum fulltrúum í flestum aðildarríkjum. Nánari upplýsingar hér https://www.coe.int/en/web/congress/-/how-to-preserve-local-democracy-in-the-face-of-fakes-news-and-hate-speech-.

Svæðisbundnar aðgerðir lykillinn að endurreisn eftir Cóvíd.

Aðstoðarframkvæmdastjóri OECD sagði efnahaginn á réttri leið og á betri leið en á horfðist í upphafi árs. Fyrirsjáanlegur sé mesti hagvöxtur á heimsvísu síðan á sjöunda áratuginum 4,7% en staðan sé mjög mismunandi eftir svæðum. Bólusetningarhlutfall er líka mjög mismunandi eftir svæðum. Á afskekktum stöðum þar sem er slæmt aðgengi að bólusetningum sé hlutfallið mun lægra sem og á svæðum þar sem almenningur ber lítið traust til yfirvalda. Það sé lykilatriði að hækka hlutfall bólusettra á heimsvísu til að ná tökum á faraldrinum. Ríkisstjórnir þurfa að beita aðgerðum sem taka mið af stöðu einstakra svæða og leitast við að  draga úr ójafnvægi sem hefur aukist mjög mikið á milli svæða. Leggja þurfi áherslu á framsýnar aðgerðir, loftslagsaðgerðir og stafræna umbreytingu. Sveitar- og svæðisstjórnir séu lykilaðilar í enduruppbyggingu og þau eigi að líta á stöðuna sem tækifæri fyrir þau að endurskilgreina sig og verkefni sín. Nánari upplýsingar hér https://www.coe.int/en/web/congress/-/post-covid-recovery-strategies-must-be-adapted-to-the-reality-of-cities-and-regions.

Deiliheimili-í gegnum rafræna miðla – áskorun og tækifæri fyrir sveitarfélög.

Samþykkt var ályktun til sveitarfélaga og samtaka þeirra um að móta langtímasýn til að takast á við áhrif þessa anga deilihagkerfisins á hagsmuni íbúa og miðbæjarlíf og að setja eða endurskoða reglur um skammtímaleigu út frá slíkri sýn. Jafnframt var samþykkt að beina því til stjórnvalda á landsvísu að þau veiti sveitar- og svæðisstjórnum auknar heimildir til að framfylgja slíkum reglum og stuðning til ná upplýsingum frá rafrænum deilimiðlurum. Þau þurfi einnig að vinna með sveitar- og svæðisstjórnum að sjálfbærum ferðamannastefnum. Ályktunin byggist á skýrslu sem gefur góða yfirsýn yfir áskoranir og tækifæri, hvernig borgir hafa brugðist við með setningu reglna og vandamál við að framfylgja þeim. Í lokakafla skýrslunnar eru settar fram fjölmargar ráðleggingar til sveitarfélaga um möguleg viðbrögð. Í skýrslunni eru líka gefin dæmi um möguleika borga til að spyrna við að deiliheimili verði of ríkjandi á ákveðnum stöðum, sérstaklega í miðbæjarkjörnum, á kostnað íbúa með fasta búsetu. Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um málið og skýrsluna sjálf hér https://www.coe.int/en/web/congress/-/collaborative-accommodation-economy-the-congress-calls-to-give-more-power-to-local-and-regional-authorities.

Nokkrar áhugaverðar reynslusögur borga úr skýrslu um deiliheimili.

Porto í Portúgal

Borgin leggur áherslu á fjölbreyta starfsemi í borginni þannig að einn rekstur sé ekki meira ríkjandi en annar. Borgaryfirvöld reka fjárfestingarverkefnið „Invest Porto“ til að berjast gegn því að túrismi verði of ríkjandi í borginni og notuðu tekjur af ferðamannaskatti til að stofna sjóð til að styðja við hefðbundna verslun í borginni. Þannig var hægt að koma í veg fyrir að búðir með langa sögu í miðbænum myndu loka.

Amsterdam

Sú staða var kominn upp í Amsterdam að gífurlegur fjöldi ferðamanna var búinn að raska jafnvæginu í borginni þannig að íbúum fannst þeir settir til hliðar. Borgin kom á fót verkefni „Borg í jafnvægi“ með því leiðarljósi að gestir séu velkomnir en íbúar hafi forgang. Borgin setti takmarkanir á því hversu margir leiðsögumenn mættu vera að störfum í miðbænum og öðrum vinsælum ferðamannastöðum og hefur lagt áherslu á að ferðamenn, sérstaklega þeir sem eru í vinnuferðum, dreifist á fleiri staði. Þáttur í því er að borgin hefur fengið önnur sveitarfélög í lið með sér til að vekja athygli á fleiri stöðum sem eru áhugaverðir fyrir ferðamenn.

Berlín

Berlín hefur gripið til ráðstafana til að bregðast við áhrifum skammtímaleiga á húsnæðismarkaðinn í borginni. Borgin hefur innleitt áætlun um sjálfbæra ferðamennsku í sátt við borgina[1] til að draga úr neikvæðum áhrifum skammtímaleigu á íbúa og fyrirtæki. Umsóknum um  leyfi til skammtímaleigurekstrar hefur í sumum tilvikum verið hafnað og settar hafa verið strangari reglur, sem fela í sér hærri sektir, skráningarskyldu og 90 daga leiguhámark.

Nokkrir áhugaverðir punktar úr skýrslunni og yfirlit yfir regluverk.

 • Flestar borgir gera ekki veður út af því að einstaklingar leigi út íbúðir sínar í nokkrar vikur á ári meðan þeir eru í fríi heldur grípa til aðgerða við þegar heilu íbúabyggingarnar eru teknar af leigumarkaði í þeim eina tilgangi að leigja þær í skammtímaleigu.
 • Það er álit flestra að skammtímaleiga sé ekki ástæða þess ójafnvægis sem hefur skapast á á milli framboðs og eftirspurnar á húsnæðismarkaði í flestum evrópskum borgum en hún hafi aukið vandann.
 • Það er hægt að þéna mun betur á skammtímaleigu en langtímaleigu, allt að þrisvar sinnum meira samkvæmt áliti húsnæðissérfræðings í Berlín. Þessi hagnaðarávinningur hefur leitt til þess að skammtímaleiga hefur þanist út í borgum og er ástæðan fyrir því að skammtímaleiga er sérstaklega algeng á vinsælum ferðamannastöðum.
 • Í Evrópu hefur það einnig færst í vöxt að fólki kaupi íbúðir til að fjárfesta og/eða til að nota sem annað heimili.
 • Samkvæmt skýrsluhöfundum telja yfirvöld á sveitarstjórnarstigi að beita eigi skattlagningu til að jafna aðstöðumun á milli skammtímaleigusala og hefðbundinna leigusala.
 • Ekki allar borgir njóta góðs af ferðamannasköttum vegna þess að ríkisvaldið innheimtir slíka skatta, t.d. í Tirana í Albaníu. Porto í Portugal hefur þó tekist að fá ferðamannaskatta til sín til að koma á móts við kostnað borgarinnar vegna ferðamanna. Borgin hefur nýtt þessar skatttekjur til að setja á laggirnar sjóð sem styður við fjárfestingar í hefðbundnum atvinnurekstri í miðbænum.
 • Margar borgir hafa farið út að semja við deilimiðlanir. Þessir samningar eru af ýmsu tagi. Sumar borgir hafa kallað eftir að ESB setji reglur til hemja deilimiðlanir. Borgirnar hafa einnig leitast við að setja sjálfar reglur en margar kvarta yfir úrræðum til að framfylgja þeim þar sem lagaumhverfið er ófullkomið. Borgir sem búa við versta ástandið hafa lent í að þurfa að kljást við deilirisa eins og Airbnb sem starfa samkvæmt evrópskum reglum. Framkvæmdastjórn ESB lagði fram tillögu að nýrri löggjöf um rafræna þjónustu til að styrkja heildstæðan evrópskan markað fyrir slíka þjónustu og stuðla að lagaumhverfið sem styðji við minni fyrirtæki.
 • Svæðisnefnd ESB, sem er skipuð kjörnum fulltrúum á sveitarstjórnarstigi frá aðildarlöndum ESB, hefur hvatt ESB til að setja skýrari reglur um deilimiðlara og gera þeim skylt að veita stjórnvöldum upplýsingar til að borgir geti framfylgt reglum sínum um skammtímaleigu og innheimt opinber gjöld. Nauðsynlegt sé að samræma reglur á milli aðildarríkja til að tryggja að hin sameiginlegi evrópski markaður virki sem einn heild á þessu sviði. Umhverfið þessara viðskipta sé sérstaklega flókið og því þurfi borgir að vera framsýnar og hafa þá fyrirhyggju að setja reglur áður en álitamálin koma upp. Það er miklu auðveldara að takmarka skammtímaleigu í borgum fyrirfram heldur en að fjarlægja hana þegar hún er búin að koma sér fyrir. Setning reglna verður alltaf erfiðari og umdeildari eftir því sem fleiri hagsmunaaðilar hafa náð að myndast.

 

Yfirlit yfir regluverk í sex evrópskum borgum

Formennska Íslands í Evrópuráðinu 2022-2023 og fundur með framkvæmdastjóra Sveitarstjórnarþingsins og Ragnhildi Arnljótsdóttur fastafulltrúa.

Fastanefnd Íslands í Strassborg undirbýr nú formennsku Íslands í Evrópuráðinu sem verður á tímabilinu frá nóvember 2022 til maí 2023 og endar með stærsta ráðherrafundi sem haldinn hefur verið á Íslandi. Ráðherrum, frá aðildarríkjunum sem eru alls 47, er boðið til fundarins sem utanríkisráðherra Íslands mun bjóða til og stýra. Er þetta í annað sinn sem Ísland gegnir formennsku í Evrópuráðinu en rúm 70 ár eru frá því að Ísland varð aðili að Evrópuráðinu, fyrri formennskan var árið 1999 undir forystu Halldór Ásgrímssonar, þáv. utanríkisráðherra. Drög að formennskuáherslum og formennskudagskrá Íslands liggja þegar fyrir og verða kynnt í ríkisstjórn þegar ný ríkisstjórn hefur verið mynduð. Gert er ráð fyrir því að áherslurnar verði í samræmi við áherslur í nýjum stjórnarsáttmála og utanríkisstefnu Íslands. Er á því byggt að megináherslur verði jafnréttismál, kynrænt sjálfræði, málefni barna og ungmenna og lýðræði og réttarríkið auk þess sem málefni tengd gervigreind og mannréttindum og brotum á netinu (netglæpum) og umhverfismál verði til umfjöllunar á formennskutímanum. Í fyrirliggjandi drögum að formennskudagskrá er m.a. gert ráð fyrir að ráðherra sveitarstjórnarmála heimsæki Strassborg og ávarpi sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins í lok mars 2023. Endanlegt umfjöllunarefni á fundinum og í ávarpi ráðherra og umræðum liggur ekki fyrir og verður það valið í samráði við ráðherra og fleiri aðila. Hugsanlega verður þar m.a. fjallað um umhverfismál. Þá hefur verið rætt um að fulltrúar sveitarstjórnarþingsins Evrópuráðsins og sveitarfélaga á Íslandi taki þátt í viðburðum á formennskutímabilinu eftir því sem tilefni er til. Átti íslenska sendinefndin á þinginu og fastafulltrúi Íslands fund með framkvæmdastjóra þingsins Andreas Kiefer að hans frumkvæði til að ræða fyrstu hugmyndir þar að lútandi.

AGB

[1] Sustainable and City-Compatible Berlin Tourism Plan 2018+

Á þinginu eiga sæti kjörnir fulltrúar frá sveitarfélögum og svæðum í Evrópu. Þingfulltrúar eru 324 og þeir eru fulltrúar yfir 150.000 sveitarfélaga og svæða í Evrópu. Þingið starfar í tveimur deildum, sveitarfélaga- og svæðadeild og líka í einni sameiginlegri deild. Þing eru haldin tvisvar á ári að vori og hausti í höfuðstöðvum Evrópuráðsins í Strasbourg, Frakklandi. Þingfulltrúar skiptast í landsdeildir og fjórar pólitískar fylkingar. Þrjár nefndir starfa á milli þinga til undirbúa mál sem fjallað er um á þingunum. Þær eru:

 • Eftirlitsnefnd (Monitoring Committee)
 • Stjórnunarnefnd (Governance Committee)
 • Nefnd um um mál sem efst eru á baugi hverju sinni (Current Affair Committee)

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga tilnefnir þrjá kjörna fulltrúa til setu á þinginu og þrjá varamenn. Sviðsstjóri þróunar- og alþjóðasviðs er ritari íslensku sendinefndarinnar á þinginu.

Þingið hefur ályktað um fjölmörg mál og það hefur unnið að ýmsum Evrópusamningum um málefni sveitarstjórnarstigsins. Þar ber hæst Evrópusáttmálann um sjálfsstjórn sveitarfélaga, sem Ísland hefur fullgilt. Fullgilding felur í sér að aðildarríki skuldbinda sig til að virða sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga í innlendri lagasetningu. Þingið gerir reglulega úttektir á stöðu staðbundins lýðræðis í aðildarríkjum sínum gagnvart Evrópusáttmálanum sem lagðar eru fyrir þingið. Þingið gerði síðast úttekt á íslenska sveitarstjórnarstiginu 2017 og samþykkti ályktun á grundvelli hennar sem send var ráðherranefnd Evrópuráðsins. Úttektin var í meginatriðum jákvæð en mælt var með því að Evrópusáttmálinn verði innleiddur með beinum hætti í íslensk lög og að skýra betur verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga. Enn fremur var því beint til ríkisvaldsins að veita Reykjavíkurborg sérstaka stöðu sem höfuðborg.

Tengill á úttektina frá 2017.

Þingið fylgist með framkvæmd sveitarstjórnarkosninga í aðildarríkjunum og setur evrópska staðla um þau mál. Það lætur sig líka varða íbúaþátttöku, málefni flóttamanna og innflytjenda, svo og siðamál og aðgerðir til að berjast gegn spillingu. Það hefur samþykkt hegðunarreglur fyrir alla sem koma að stjórnun sveitarfélaga og svæða. Það hefur einnig gefið út mannréttindahandbók fyrir sveitarfélög.

Nánari upplýsingar á vefsíðu Evrópuráðsins, https://www.coe.int/en/web/congress/home