Evrópsk samstarfsverkefni

Á vegum Evrópusambandsins eru reknar viðamiklar samstarfsáætlanir sem miða að því að auka félagslegan og efnahagslegan jöfnuð innan aðildarlandanna og styðja við framþróun og hagvöxt. Samstarfsáætlanirnar styrkja opinbera aðila, sveitarfélög, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga.

Um þessar mundir er unnið að fyrirkomulagi samstarfsáætlana ESB á næsta styrkjatímabili, 2021–2027. Á tímabilinu mun verða lögð aukin áhersla á verkefni sem tengjast loftslagsáætlun ESB. Stefnt er að sem mestri samþættingu samtarfsáætlananna við loftslagsmarkmið ESB og a.m.k. 25% fjármagnsins verður eyrnamerkt verkefnum á sviði loftslagsmála. Ákvörðun um hvaða samstarfsáætlanir Ísland kemur til með að eiga aðgang að er óvíst eins og er, en meðal þeirra áætlana sem lagt er til að Ísland taki þátt í og eru áhugaverðar fyrir íslensk sveitarfélög má nefna:

 • Horizon Europe: Áætlunin er framhald af Horizon 2020 og henni er ætlað að styðja við rannsóknir og nýsköpun á öllum sviðum vísinda og fræða með það að markmiði að auka samkeppnishæfni Evrópu, skapa störf og stuðla að því að góðar hugmyndir komist á markað. Horizon Europe mun einnig veita fjármagni til nýsköpunar í rekstri og þjónustu opinberra aðila, þ.m.t. sveitarfélaga.
 • Erasmus+: Mennta-, æskulýðs-, og alþjóðaáætlanir ESB voru á síðasta tímabili sameinaðar í þessa eina áætlun. Reikna má með að leik- og grunnskólar geti t.d. áfram sótt um styrki til náms starfsmanna og starfsþjálfunar og til samstarfsverkefna með öðrum skólum á EES-svæðinu. Áhersla hefur verið lögð á að fjárfesta í fólki til ávinnings bæði fyrir einstaklinga og samfélagið í heild. Markmiðið er m.a. að auka færni og ráðningarhæfi fólks sem og virkja einstaklinga til þátttöku í samfélaginu, nútímavæða menntakerfi með aukinni áherslu á starfsmenntun, háskólamenntun og hreyfanleika nemanda og kennara.
 • Digital Europe: Áætluninni er ætlað að bregðast við áskorunum og tækifærum í tengslum við hraðar tækniframfarir og auka færni borgara til þess að nýta nýja tækni sér og samfélaginu til hagsbóta.
 • LIFE Programme for Environment and Climate Action: LIFE, styrkjaáætlun ESB fyrir umhverfis- og loftslagsmál.
 • Creative Europe: Felur m.a. í sér samstarf menningarstofnana. Reikna má með að áfram verði í boði styrkir til að skipuleggja millilandaheimsóknir fyrir evrópska listamenn, til þjálfunar og styrkingar tengslaneta fyrir fagfólk og til að koma listamönnum og verkum þeirra á framfæri á nýjum mörkuðum.
 • Connecting Europe Facility: Áætlun sem ætlað er að auka hagvöxt, atvinnu og samkeppnishæfni með markvissum fjárfestingum í innviðum. Á síðasta tímabili tók Ísland þátt í verkefni á sviði upplýsinga og samskiptatækni (ICT) innan Connecting Europe Facility áætluninni.

 

Fjölmörg tækifæri fyrir íslensk sveitarfélög innan samstarfsáætlana Evrópusambandsins.

EES-samningurinn veitir Íslandi, Liechtenstein og Noregi aðgang að áætlunum ESB og hafa íslensk sveitarfélög tekið þátt í fjölda samstarfsverkefna. Má þar nefna rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB (Horizon 2020), styrkjaáætlun ESB fyrir mennta-, æskulýðs- og íþróttamál (Erasmus+) og Norðurslóðaáætlunina.

Áframhaldandi þátttaka Íslands, Liechtenstein og Noregs er nú til athugunar en búast má við aukinni þátttöku ríkjanna, einkum í samstarfsáætlunum sem snúa að loftslagsmálum, borgararaþátttöku og vinabæjasamstarfi. Sveitarstjórnarvettvangur EFTA ályktaði um málið í desember 2018, þar sem mikilvægi áframhaldandi þátttöku Íslands, Liechtenstein og Noregs í áætlununum var áréttað. Auk þess var lögð áhersla á samráð við sveitarstjórnarstigið þegar teknar eru ákvarðanir um þátttöku í samstarfsáætlunum. Þá voru stjórnvöld hvött til þess að skoða ávinnings þess að EES EFTA ríkin taki þátt í samstarfsáætlununum LIFE og Rights & Values. Í þeim felast hugsanlega áhugaverð tækifæri fyrir sveitarfélög. LIFE er styrkjaáætlun ESB fyrir umhverfis- og loftslagsmál og með Rights & Values áætluninni er reynt að straumlínulaga fjármögnun sem snýr að réttindum borgara ESB, aðkomu almennings í lýðræðislegu starfi og aðgerðum til að sporna við ofbeldi og mismunun.

Reynsla sveitarfélaga af samstarfsverkefnum sem fjármögnuð eru af ESB er almennt mjög góð og frekari þátttaka í samstarfsáætlunum ESB myndi skapa fjölmörg tækifæri fyrir sveitarfélög á Íslandi, Liechtenstein og Noregi. Þar um ræðir hvort tveggja: aukinn aðgang að fjármagni og ríkara samstarf við sveitarfélög á EES svæðinu.

Markmið Uppbyggingarsjóðs EES er að draga úr félags- og efnahagslegu misræmi innan evrópska efnahagssvæðisins og efla tvíhliða samstarf milli EES-EFTA ríkjanna og viðtökuríkjanna fimmtán:

BúlgaríaEistlandGrikklandKróatíaKýpurLettlandLitháenMaltaPortúgalPóllandRúmeníaSlóvakíaSlóveníaTékkland og Ungverjaland.

Með þátttöku Íslands í Uppbyggingarsjóðnum er lögð áhersla á að skapa tækifæri fyrir íslenskar stofnanir, sveitarfélög, fyrirtæki og frjáls félagasamtök til samstarfs við aðila í viðtökuríkjunum.

Áherslusvið Uppbyggingarsjóðs EES

Samningur um nýtt starfstímabil Uppbyggingarsjóðs EES 2014-2021, með framkvæmdatíma til 2024, var undirritaður 3. maí 2016. Samningurinn kveður á um að heildarframlag EES-EFTA ríkjanna fyrir tímabilið skuli nema 1.6 milljörðum evra.

Viðtökuríkin gera sjálf tillögur um hvaða málaflokkum þau vilja starfa að í samstarfi við EES-EFTA-ríkin, en áherslusvið sjóðsins eru eftirfarandi:

 1. Nýsköpun, rannsóknir, menntun og samkeppnishæfni
 2. Félagsleg samheldni, vinnumál ungs fólks og minnkun fátæktar
 3. Umhverfi, orka og loftslagsmál
 4. Menning, borgaralegt samfélag, góðir stjórnarhættir, grunnréttindi og frelsi
 5. Réttlæti og innanríkismál

Vefsíða: http://www.eeagrants.org/