Íslenskum sveitarfélögum stendur nú til boða að sækja um styrk í svokallað European City Facility verkefni sem fjármagnað er af LIFE áætlun ESB. Styrkirnir eru veittir til verkefna sem miða að því að þróa fjárfestingaáætlanir í þágu orkuskipta og aukinnar orkunýtingar. Upphæð styrkja er u.þ.b. 9 milljónir króna (60.000 Evra), auk þess sem styrkþegar fá sérhæfðan stuðning sérfræðinga við verkefnið. Opnað verður fyrir umsóknir 15. október og skilafrestur umsókna er 18. desember 2024. Er þetta í síðasta skiptið sem auglýst verður eftir umsóknum um þessa styrki.
Styrknum er ætlað styðja við gerð fjárfestingaáætlunar á sviði orkuskipta, orkunýtni og loftslagsmála sem er sérsniðin eftir hverjum umsækjenda. Fyrri styrkþegar hafa nýtt fjármagnið til fjölbreyttra aðgerða, meðal annars við gerð hagkvæmniathugana, markaðsrannsókna, hagaðilagreiningar og mótun aðgerða til að auka samstarf við hagaðila, greiningar á lagaumhverfi, efnahagslegu umhverfi og fjármálum. Styrkþegar geta ráðist í ýmsar aðgerðir en skilyrði er að þær þjóni því að miða að þróun fjárfestingaáætlunar á sviði orkuskipta og -nýtni.
Umsóknarferlið er einfalt og fá skilyrði sem umsækjendur þurfa að uppfylla. Farið er fram á að til staðar sé pólitískur stuðningur við verkefnið, að gerð sé grein fyrir áætluðu umfangi fjárfestinganna, áætluð áhrif á orkunýtni og áætlun um stjórnskipulag verkefnis og hvernig verði hvatt til þátttöku hagaðila.
Styrkþegum stendur einnig til boða þjálfun, tækifæri til tengslamyndunar og aðgangur að ýmsum verkfærum sem er sérstaklega ætlað að auðvelda fjármögnun verkefnis, hvort sem er frá opinberum aðilum eða einkageiranum.
Sveitarfélög eru lykilaðilar þegar kemur að orkuskiptum í Evrópu. Þar eru gríðarleg tækifæri til að koma á sjálfbærum fjárfestingaáætlunum og þau leika auk þess lykilhlutverk í að safna smærri verkefnum saman í stærri fjárfestingarsöfn og hafa þannig tækifæri til að virkja hið umtalsverða fjármagn sem þurfa þarf til að orkuskiptin geti átt sér stað.
Verkefnið var upprunalega rekið undir rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB Horizon 2020 en er nú fjármagnað af LIFE áætluninni, sem er umhverfis- og loftslagsáætlun ESB. EUCF leysir þessi tækifæri sveitarfélaga úr læðingi með sérsniðinni, fljótvirkri og einfaldri fjármálaaðstoð (tvær eingreiðslur að upphæð 60.000€ samtals) og sérfræðiþjónustu til að gera þeim kleift að þróa fjárfestingarhugmyndir sem snúast um að tryggja innleiðingu þeirra aðgerða sem áætlað er að ráðast í á svæðinu (sbr. samþykktar orkuskipta- og loftslagsaðgerðir). Sveitarfélög geta sótt um hvort sem er stök, saman í hóp eða undir merkjum opinberra aðila sem gegna samhæfingarhlutverki fyrir sveitarfélög.
Fyrri styrkþegar EUCF hafa nýtt eingreiðslustyrkinn til að þróa fjárfestingaráætlanir sínar, sem eru fyrsta skrefið í átt að fullskapaðri viðskipta- og fjármálaáætlun. Meginmarkmiðið er að skapa umtalsvert samsafn fjárfestingaverkefna í kringum orkuskiptin í Evrópu og hvetja önnur sveitarfélög og opinbera aðila til dáða til að móta eigin fjárfestingaráætlanir sem standast skoðun og samkeppni.
Landstengiliður á Íslandi: Gyða Einarsdóttir, sérfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga
Netfang: ce.iceland@eucityfacility.eu