Samþykktir

Samþykktir Sambands íslenskra sveitarfélaga

1. gr.

Heiti og heimili.

Sambandið heitir Samband íslenskra sveitarfélaga og er heimili, varnarþing og skrifstofa þess í Reykjavík.

2. gr.

Hlutverk.

Hlutverk sambandsins er:

 • Að vera sameiginlegur málsvari sveitarfélaga og vinna að sameiginlegum hagsmunamálum þeirra og samstarfi.
 • Að vera fulltrúi sveitarfélaga gagnvart ríkisvaldinu og öðrum innlendum aðilum, eftir því sem við á.
 • Að þjóna sveitarfélögum á sviði vinnumarkaðsmála, annast kjarasamningsgerð og hafa fyrirsvar í kjaramálum fyrir þau sveitarfélög sem veita umboð sitt til þess, hafa frumkvæði að rannsóknum og sinna upplýsingagjöf til sveitarfélaga um kjaramál.
 • Að þjóna sveitarfélögum og samtökum þeirra á sviði lögbundinna verkefna og öðrum þeim sviðum sem sveitarfélög og samtök þeirra kalla eftir í takt við þróun og breytingar  á sveitarstjórnarstiginu.
 • Að vera fulltrúi sveitarfélaga gagnvart erlendum samtökum um sveitarstjórnarmál, alþjóðastofnunum og öðrum þeim aðilum erlendis, er láta sig sveitarstjórnarmálefni skipta.
 • Að vinna að almennri fræðslu um sveitarstjórnarmál með ráðstefnu-, námskeiða- og fundahaldi og miðla þekkingu og upplýsingum til sveitarstjórnarmanna og starfsmanna sveitarfélaga með fjölbreyttum hætti.

3. gr.

Aðild.

Hvert íslenskt sveitarfélag getur gerst aðili að sambandinu.

Nú samþykkir sveitarstjórn að óska þess að sveitarfélagið verði tekið í sambandið og skal hún þá senda stjórn sambandsins skriflega umsókn um það. Stjórn sambandsins veitir sveitarfélaginu inngöngu til bráðabirgða, en leggja skal slíkar umsóknir fyrir landsþing til fullnaðarstaðfestingar.

Ef sveitarfélag óskar að segja sig úr sambandinu skal tilkynna það skriflega og miðast úrsögnin við næsta landsþing eftir að tilkynning um úrsögn berst.

4. gr.

Landsþing.

Landsþing hefur æðsta vald í málefnum sambandsins. Það kemur saman árlega, að jafnaði í mars eða apríl. Á því ári sem almennar sveitarstjórnarkosningar eru haldnar skal landsþing þó haldið eigi síðar en í lok september. Stjórn sambandsins boðar til landsþings og ákveður þingstað og tímasetningu.

5. gr.

Kosning landsþingsfulltrúa.

Að afloknum almennum sveitarstjórnarkosningum kjósa hlutaðeigandi sveitarstjórnir fulltrúa á landsþing og gildir sú kosning fyrir kjörtímabil sveitarstjórnar. Um fjölda aðalfulltrúa á landsþingi gildir eftirfarandi:

 1. Sveitarfélag með allt að 1.000 íbúa kýs 1 fulltrúa.
 2. Sveitarfélag með 1.001 til 3.000 íbúa kýs 2 fulltrúa.
 3. Sveitarfélag með 3.001 til 5.000 íbúa kýs 3 fulltrúa.
 4. Sveitarfélag með 5.001 til 10.000 íbúa kýs 4 fulltrúa
 5. Sveitarfélag með fleiri en 10.000 íbúa kýs einn fulltrúa fyrir hvert byrjað tugþúsund íbúa umfram 10.000 til viðbótar hinum fjórum.

Íbúafjöldi samkvæmt þessari grein skal miðaður við 1. janúar á því ári sem almennar sveitarstjórnarkosningar fara fram. Notaðar skulu mannfjöldatölur skv. skráningu Hagstofu Íslands. Verði breyting á sveitarfélagaskipan frá 1. janúar fram til sveitarstjórnarkosninga, skal laga íbúafjöldann að þeirri breytingu.

Varafulltrúar á landsþingi skulu kosnir jafnmargir og aðalfulltrúar. Kosning fulltrúa fer eftir sömu reglum og gilda um kosningu nefnda skv. ákvæðum sveitarstjórnarlaga, annarra en byggðarráðs.

Kjörgengir sem fulltrúar á landsþingi eru nýkjörnir aðalmenn í sveitarstjórnum og varamenn þeirra jafnmargir að tölu, hvort sem varamaður í sveitarstjórn hefur verið kjörinn sérstaklega við óbundnar kosningar eða hann fær kjörbréf vegna setu á framboðslista við bundnar hlutfallskosningar.

Að kosningu lokinni, í síðasta lagi 15. júlí, sendir sveitarfélagið skrifstofu sambandsins kjörbréf með nöfnum þeirra sem hafa verið kjörnir fulltrúar og varafulltrúar.

6. gr.

Dagskrá landsþings.

Á landsþingi skulu eftirfarandi mál tekin fyrir eða lögð fram:

 1. Þingsetning og ræða formanns.
 2. Kosning tveggja þingforseta.
 3. Kosning tveggja ritara.
 4. Kosning þriggja manna kjörbréfanefndar.
 5. Endurskoðaður ársreikningur lagður fram til kynningar, ásamt fjárhagsáætlun yfirstandandi árs.
 6. Álit kjörbréfanefndar.
 7. Skýrsla um starfsemi sambandsins fyrir næstliðið ár og starfsáætlun sambandsins fyrir yfirstandandi ár.
 8. Mál sem sveitarstjórn, samtök sveitarfélaga eða þingfulltrúi óskar eftir að leggja fram.
 9. Breytingar á samþykktum.

Á fyrsta landsþingi eftir almennar sveitarstjórnarkosningar fer fram kosning stjórnar, sbr. 11. gr. og kjörnefndar skv. 9. gr., ásamt því að kynnt er niðurstaða úr kosningum um embætti formanns sambandsins. Á sama þingi skal unnið að úrfærslu á stefnumörkun sambandsins til næstu fjögurra ára en stjórn sambandsins annast frekari úrvinnslu stefnumörkunar að loknu landsþingi. Á öðrum landsþingum fer fram kosning aðal- og varamanna í stjórn og kjörnefnd ef tilefni er til.

Tillögur um mál samkvæmt j-lið 1. mgr. þessarar greinar skal senda stjórn sambandsins eigi síðar en tveimur vikum fyrir landsþing. Heimilt er þó að leggja mál fyrir landsþing með skemmri fyrirvara, ef 2/3 hlutar viðstaddra þingfulltrúa samþykkja.

Landsþingið getur kosið nefndir eða vinnuhópa til þess að fjalla um einstök mál sem til meðferðar eru á þinginu.

Heimilt er stjórn sambandsins að boða til aukalandsþings með tveggja vikna fyrirvara og skulu þá þau mál tekin fyrir sem stjórnin ákveður.

7. gr.

Boðun til landsþings.

Til landsþings skal boðað með bréfi til sveitarstjórna með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara. Auk þess skulu þingfulltrúar, sbr. 5. gr., og áheyrnarfulltrúar, sbr. 8. gr., boðaðir bréflega til þingsins með að lágmarki eins mánaðar fyrirvara, ásamt dagskrá.

8. gr.

Áheyrnarfulltrúar á landsþingi.

Stjórnarmenn sem eigi eru kjörnir fulltrúar eiga rétt til setu á landsþingi með málfrelsi og tillögurétti.

Ennfremur eiga framkvæmdastjórar sveitarfélaga, þ.e. bæjar- og sveitarstjórar, auk formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtaka sveitarfélaga rétt til setu á landsþingi með málfrelsi og tillögurétti.

9. gr.

Kjörnefnd.

Kjörnefnd sem kosin er á landsþingi, sbr. 2. mgr. 6. gr., skal koma saman að loknum sveitarstjórnarkosningum til að gera tillögur til landsþings um kjör stjórnar sambandsins, sbr. 11. gr. Kjörnefnd skal einnig kölluð saman milli landsþinga ef aðal- eða varamaður lætur af stjórnarsetu eða missir kjörgengi.

Í kjörnefndinni skulu sitja fulltrúar fyrir fimm kjörsvæði, sem eru:

 1. Reykjavík tveir fulltrúar.
 2. Suðvesturkjördæmi einn fulltrúi.
 3. Norðvesturkjördæmi einn fulltrúi.
 4. Norðausturkjördæmi einn fulltrúi.
 5. Suðurkjördæmi einn fulltrúi.

Kjörgengir í kjörnefnd eru aðal- og varamenn í sveitarstjórn svo og framkvæmdastjórar sveitarfélaga, enda hafi þeir það starf að aðalstarfi. Þeir sem taka sæti í kjörnefnd eru ekki kjörgengir til að vera aðal- eða varamenn í stjórn sambandsins. Ef kjörnefndarmaður hyggst sækjast eftir sæti í stjórn verður hann að segja sig úr kjörnefnd áður en nefndin kemur saman til fyrsta fundar til að undirbúa stjórnarkjör á landsþingi.

10. gr.

Kosning formanns.

Formaður stjórnar sambandsins skal kosinn sérstaklega með beinni, rafrænni kosningu. Um kjörgengi til embættis formanns fer skv. 7. mgr. 11. gr.

Framboðsfrestur til formannskjörs rennur út 15. júlí. Kjörnefnd, sbr. 9. gr., hefur eftirlit með framkvæmd atkvæðagreiðslu og gerð kjörskrár, og sker úr um kjörgengi frambjóðenda.

Frambjóðendur eiga rétt á að tilnefna umboðsmann til að fylgjast með undirbúningi og framkvæmd kosningar.

Rétt til þátttöku í formannskosningu eiga landsþingsfulltrúar og skal rafræn kjörskrá liggja fyrir 20. júlí og vera byggð á kjörbréfum sem hafa borist frá sveitarfélögum fyrir 15. júlí, sbr. 5. gr. Einungis er heimilt að gera leiðréttingar á kjörskrá ef sýnt er fram á að tilkynning hafi verið send eigi síðar en 15. júlí.

Kosningin skal hefjast 15. ágúst og standa í tvær vikur. Úrslit skulu kynnt þegar þau liggja fyrir.

Láti formaður af störfum kýs stjórn sambandsins nýjan formann úr sínum hópi, til loka kjörtímabils.

11. gr.

Kosning stjórnar.

Á næsta landsþingi að afloknum sveitarstjórnarkosningum skal kjósa 10 aðalmenn í stjórn sambandsins en formaður stjórnar er kosinn beinni kosningu skv. 10. gr. Einnig skulu kosnir ellefu varamenn. Tiltekinn varamaður skal kjörinn fyrir hvern aðalmann í stjórn og tekur hann sæti í stjórnini í tímabundnum forföllum aðalmanns.

Við stjórnarkjör skal þess sérstaklega gætt að fjöldi kvenna og karla í hópi aðalmanna og varamanna sé í samræmi við ákvæði laga um jafna stöðu kvenna og karla. Kjörnefnd skal jafnframt gæta þess í tillögum sínum að skipan stjórnar eftir fremsta megni endurspegli að sveitarfélögin eru ólík að stærð, gerð og staðsetningu.

Tillögur kjörnefndar, sbr. 9. gr., skulu kynntar landsþingsfulltrúum eigi síðar en viku fyrir setningu landsþings samkvæmt auglýstri dagskrá.

Heimilt er að leggja fram breytingartillögur við tillögur kjörnefndar og skulu þær berast þingforsetum í upphafi landsþings. Aðeins er tekið við breytingartillögum sem uppfylla ákvæði þessarar greinar um fjölda aðal- og varamanna, skiptingu þeirra eftir kjörsvæðum og hlutfall kvenna og karla.

Fjöldi stjórnarmanna skiptist þannig eftir kjörsvæðum:

 1. Þrír úr Reykjavík.
 2. Tveir úr suðvesturkjördæmi.
 3. Tveir úr norðvesturkjördæmi.
 4. Tveir úr norðausturkjördæmi.
 5. Tveir úr suðurkjördæmi.

Stjórnin skiptir með sér verkum, m.a. með kosningu varaformanns.

Kjörgengir eru aðal- og varamenn í sveitarstjórn.

Missi stjórnarmaður umboð sitt, sbr. 1. mgr. 13. gr., eða hann lætur af störfum af öðrum ástæðum, tekur varamaður sæti hans til næsta landsþings sem kýs nýjan aðalmann í hans stað. Missi varamaður í stjórn umboð sitt, sbr. 1. mgr. 13. gr., eða lætur af störfum af öðrum ástæðum, skal næsta landsþing kjósa varamann í hans stað.

Kjörnefnd skv. 9. gr. skal koma tímanlega saman fyrir landsþing þegar tilefni er til og gera tillögur um breytingar á stjórn sem kynntar eru eigi síðar en viku fyrir setningu landsþings. Um breytingartillögur við tillögur kjörnefndar fer skv. 3. mgr. þessarar greinar eftir því sem við á.

12. gr.

Kjörtímabil stjórnar, landsþingsfulltrúa.

Kjör til setu á landsþingi sambandsins og í stjórn og kjörnefnd gildir þar til landsþing er næst háð eftir almennar sveitarstjórnarkosningar. Fellur umboð fráfarandi stjórnar og kjörnefndar niður að aflokinni kosningu á landsþingi, sbr. 9. og 11. gr. Umboð til setu á landsþingi (sem aðal- eða varafulltrúi) eða í stjórn sambandsins fellur þó niður veiti sveitarstjórn hlutaðeigandi lausn frá störfum í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga.

13. gr.

Missir kjörgengis og leyfi frá trúnaðarstörfum.

Umboð þeirra sem kjörnir hafa verið sem aðalmenn eða varamenn á landsþing fellur niður ef viðkomandi lætur af setu í sveitarstjórn.

Umboð aðal- og varamanna í stjórn sambandsins fellur niður ef þeir láta af starfi sem aðal- eða varamaður í sveitarstjórn.

Ákvæði 1. og 2. mgr. taka ekki til framangreindra aðila sem missa umboð sitt við almennar sveitarstjórnarkosningar. Umboð þeirra fellur niður er landsþing hefur kosið nýja stjórn.

Stjórnarmenn, nefndarmenn og landsþingsfulltrúar, sem eru í tímabundnu leyfi frá störfum í sveitarstjórn, svo sem vegna fæðingarorlofs, eru jafnframt í leyfi frá trúnaðarstörfum sem þeir hafa verið kjörnir til samkvæmt samþykktum þessum.

14. gr.

Verkefni stjórnar.

Stjórnin fer með yfirstjórn sambandsins milli landsþinga.

Stjórnin heldur fundi að jafnaði einu sinni í mánuði og skal til þeirra boðað bréflega með hæfilegum fyrirvara.

Stjórnin skal fyrir lok desember ár hvert samþykkja starfsáætlun og fjárhagsáætlun sambandsins fyrir næsta ár.

Stjórnin skal fyrir lok febrúarmánaðar hafa samþykkt reikninga sambandsins fyrir næstliðið ár.

Stjórnin getur skipað fastanefndir til að fjalla um einstök mál eða málaflokka, sem eru ráðgefandi fyrir stjórn og starfsfólk sambandsins. Einnig getur stjórnin skipað starfshópa til þess að fjalla um ákveðin málefni. Umboð slíkra nefnda fellur niður við stjórnarskipti, nema annað sé ákveðið í skipunarbréfi þeirra.

15. gr.

Verkefni formanns

Formaður stýrir fundum stjórnar sambandsins og ákveður dagskrá í samráði við framkvæmdastjóra. Hann ákveður, í samráði við framkvæmdastjóra, hvort tilefni er til að boða stjórn sambandsins til aukafunda.

Formaður á fast sæti í samstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga, sbr. 128. gr. sveitarstjórnarlaga. Hann kemur fram til að gæta hagsmuna sambandsins og sveitarstjórnarstigsins í heild jafnt innan lands sem utan og er talsmaður þess út á við ásamt framvkæmdastjóra.

Varaformaður sinnir skyldum formanns í forföllum hans.

16. gr.

Framkvæmdastjóri og starfslið.

Stjórnin ræður framkvæmdastjóra sambandsins og sviðsstjóra í samræmi við skipurit sambandsins á hverjum tíma. Annað starfslið ræður framkvæmdastjóri.

Framkvæmdastjóri stjórnar daglegum störfum á skrifstofu sambandsins, fjárreiðum og öðrum málefnum þess á grundvelli samþykkta og stefnumörkunar sambandsins. Hann skal sjá um að fundir stjórnar séu vel undirbúnir, m.a. í þeim tilgangi að mál sem þar eru afgreidd séu vel upplýst. Hann sér einnig um að ákvarðanir þær sem teknar eru af hálfu stjórnar komist til framkvæmda, hafi stjórnin ekki falið það öðrum.

Framkvæmdastjóri stýrir hagsmunagæslu sambandsins í umboði stjórnar, í samráði við formann stjórnar, og undirritar ásamt formanni fyrir hönd sambandsins samninga sem lúta að samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

17. gr.

Breytingar á samþykktum.

Breytingar á samþykktum sambandsins má gera á landsþingi. Tillögur um breytingar á samþykktunum skulu lagðar fyrir stjórn a.m.k. fjórum vikum fyrir landsþing sem sendir þær fulltrúum á landsþingi eigi síðar en tveimur vikum fyrir landsþing og skal þeirra getið í fundarboði. Til breytinga á samþykktunum þarf samþykki meirihluta allra atkvæðisbærra fulltrúa, sbr. 5. gr.

18. gr.

Gildistaka.

Samþykktir þessar öðlast gildi að loknu landsþingi sambandsins árið 2021. Jafnframt falla úr gildi samþykktir sambandsins frá árinu 2017.

Þannig samþykkt á XXXVI. landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga 21. maí 2021.