Saga sambandsins

Frá stofnþingi sambandsins í Alþingishúsinu.

Samband íslenskra sveitarfélaga var stofnað árið 1945 og eru öll sveitarfélög landsins aðilar að því. Sambandið sinnir hagsmunagæslu fyrir sveitarfélögin.

Samband íslenskra sveitarfélaga var stofnað árið 1945. Frumkvöðullinn að stofnun sambandsins var Jónas Guðmundsson, eftirlitsmaður sveitarstjórnarmálefna. Hann hafði mikil kynni við sveitarstjórnarmenn um allt land og hafði fylgst með þróun sveitarstjórnarmála á Norðurlöndunum. Jónas var sannfærður um það að sveitarstjórnarmenn þyrftu að eignast vettvang, þar sem þeir gætu borið saman bækur sínar. Í árslok 1941 hóf hann útgáfu á tímariti fyrir eigin reikning og nefndi Sveitarstjórnarmál. Í ávarpsorðum fyrsta tölublaðs tímaritsins segir Jónas m.a.:

Ég hefi ráðizt í útgáfu þessa rits í því skyni, að það geti orðið fyrsti vísir að meira samstarfi milli þeirra manna, sem sveitarstjórnarmál láta sig nokkru skipta, og til þess að auka þekkingu þeirra í þessum efnum. Von mín er sú, að innan skamms megi takast að koma á fót félagi íslenzkra sveitarstjórnarmanna, sem þá að sjálfsögu tæki við útgáfu ritsins og setti því ritstjórn, en sú er venjan um svipuð rit annars staðar, þar sem ég hef haft spurnir af.

Á árinu 1943 starfaði nefnd þriggja sveitarstjórnarmanna til þess að kanna hvort skynsamlegt væri að stofna samband sveitarfélaga á Íslandi. Auk Jónasar Guðmundssonar áttu sæti í nefndinni Guðmundur Ásbjörnsson, forseti bæjarstjórnar Reykjavíkur og Björn Jóhannesson, forseti bæjastjórnar í Hafnarfirði. Nefndin sendi erindi til allra sveitarfélaga í landinu 218 að tölu til þess að kanna áhuga þeirra. Í fyrstu voru viðbrögð sveitarfélaganna frekar dauf, en þegar 53 þeirra höfðu boðað aðild sína að sambandinu boðaði undirbúningsnefndin til stofnfundar vorið 1945.

Stofnþingið var haldið í Reykjavík dagana 11.-13. júní 1945 og var stofnþingið sett í sal neðri deildar Alþingis í Alþingishúsinu við Austurvöll. Þingslit fóru síðan fram á Þingvöllum 13. júní eftir að Sambandi íslenskra sveitarfélaga hafði verið kjörin stjórn. Í henni sátu Jónas Guðmundsson, formaður, Klemenz Jónsson Bessastaðahreppi, Sigurjón Jónsson Seltjarnarnesi, Björn Jóhannesson Hafnarfirði og Helgi H. Eiríksson Reykjavík

Formenn sambandsins:

  • Jónas Guðmundsson 1945-1967
  • Páll Líndal 1967-1978
  • Jón G. Tómasson 1978-1982
  • Björn Friðfinnsson 1982-1987
  • Sigurgeir Sigurðsson 1987-1990
  • Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson 1990-2006
  • Halldór Halldórsson 2006-2018
  • Aldís Hafsteinsdóttir 2018-2022
  • Heiða Björg Hilmisdóttir 2022-

Fyrstu árin hafði Samband íslenskra sveitarfélaga engum föstum starfsmanni á að skipa. Jónas Guðmundsson, formaður sambandsins, var auðvitað allt í öllu og sumir sögðu að hann væri sambandið. Hann sinnti öllum þeim störfum í þágu sambandsins til hliðar við starf sitt sem skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu.

Eiríkur Pálsson, fyrrv. bæjarstjóri í Hafnarfirði, var fyrsti launaði starfsmaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Var eitt af meginverkefnum hans sem skrifstofustjóra að annast útgáfu Sveitarstjórnarmála og vera ritstjóri þeirra.

Jónas formaður stjórnaði daglegri starfsemi sambandsins sem framkvæmdastjóri Bjargráðasjóðs til 1. febrúar 1967 og hafði þá verið í þrjá áratugi einn helsti leiðtogi sveitarstjórnarmanna og frumkvöðull í málefnum sveitarfélaganna. Þegar Jónas lét af störfum var Lánasjóður sveitarfélaga stofnaður og starfsemi Lánasjóðsins, Bjargráðasjóðs og sambandsins sameinuð undir einum hatti.

Magnús E. Guðjónsson, fyrrv. bæjarstjóri á Akureyri, var þá ráðinn framkvæmdastjóri Lánasjóðsins og jafnframt Bjargráðasjóðs og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Magnús var framkvæmdastjóri sambandsins í tæpan aldarfjórðung eða til dánardægurs 17. maí 1990.

Þórður Skúlason, fyrrv. sveitarstjóri á Hvammstanga, var ráðinn framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga 1. nóvember 1990 og gengdi því starfi til 1. september 2008.

Karl Björnsson, fyrrverandi bæjarstjóri í Selfossbæ og Sveitarfélaginu Árborg og síðar sviðsstjóri kjarasviðs sambandsins, gengdi starfi framkvæmdastjóra sambandsins frá 1. september 2008 og gengdi því starfi til 31. mars 2023.

Arnar Þór Sævarsson, fyrrverandi bæjarstjóri Blönduósbæjar og aðstoðarmaður félagsmálaráðherra. Arnar tók við starfi framkvæmdastjóra 1. apríl 2023.

Heimildir: Samband íslenskra sveitarfélaga. Afmælisrit 1945-1995. Sveitarstjórnarmál - sérútgáfa, Rvík. 1995.