Landsþing

Landsþing hefur æðsta vald í málefnum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Landsþing kemur saman árlega, að jafnaði í mars eða apríl. Á því ári sem almennar sveitarstjórnarkosningar eru haldnar skal landsþing þó haldið í september eða október.

Í 4. gr. samþykkta sambandsins er kveðið um fjölda landsþingsfulltrúa og varamenn þeirra, um kjörgengi og tilkynningar um kjör:

 Að afloknum almennum sveitarstjórnarkosningum kjósa hlutaðeigandi sveitarstjórnir fulltrúa á landsþing og gildir sú kosning fyrir kjörtímabil sveitarstjórnar. Um fjölda aðalfulltrúa á landsþingi gildir eftirfarandi:

  1. Sveitarfélag með allt að 1.000 íbúa kýs 1 fulltrúa.
  2. Sveitarfélag með 1.001 til 3.000 íbúa kýs 2 fulltrúa.
  3. Sveitarfélag með 3.001 til 5.000 íbúa kýs 3 fulltrúa.
  4. Sveitarfélag með 5.001 til 10.000 íbúa kýs 4 fulltrúa
  5. Sveitarfélag með fleiri en 10.000 íbúa kýs einn fulltrúa fyrir hvert byrjað tugþúsund íbúa umfram 10.000 til viðbótar hinum fjórum.

Íbúafjöldi samkvæmt þessari grein skal miðaður við 1. janúar á því ári sem almennar sveitarstjórnarkosningar fara fram. Notaðar skulu mannfjöldatölur skv. skráningu Hagstofu Íslands. Verði breyting á sveitarfélagaskipan frá 1. janúar fram til sveitarstjórnarkosninga, skal laga íbúafjöldann að þeirri breytingu.

Varafulltrúar á landsþingi skulu kosnir jafnmargir og aðalfulltrúar. Kosning fulltrúa fer eftir sömu reglum og gilda um kosningu nefnda skv. ákvæðum sveitarstjórnarlaga, annarra en byggðarráðs.

Kjörgengir sem fulltrúar á landsþingi eru nýkjörnir aðalmenn í sveitarstjórnum og varamenn þeirra jafnmargir að tölu, hvort sem varamaður í sveitarstjórn hefur verið kjörinn sérstaklega við óbundnar kosningar eða hann fær kjörbréf vegna setu á framboðslista við bundnar hlutfallskosningar.

Að kosningu lokinni, í síðasta lagi 1. ágúst, sendir sveitarfélagið skrifstofu sambandsins kjörbréf með nöfnum þeirra sem hafa verið kjörnir fulltrúar og varafulltrúar.

Formaður stjórnar sambandsins skal kosinn sérstaklega með beinni, rafrænni kosningu. Um kjörgengi til embættis formanns fer skv. 7. mgr. 11. gr.

Framboðsfrestur til formannskjörs rennur út 15. júlí. Kjörnefnd, sbr. 9. gr., hefur eftirlit með framkvæmd atkvæðagreiðslu og gerð kjörskrár, og sker úr um kjörgengi frambjóðenda.

Frambjóðendur eiga rétt á að tilnefna umboðsmann til að fylgjast með undirbúningi og framkvæmd kosningar.

Rétt til þátttöku í formannskosningu eiga landsþingsfulltrúar og skal rafræn kjörskrá liggja fyrir 20. júlí og vera byggð á kjörbréfum sem hafa borist frá sveitarfélögum fyrir 15. júlí, sbr. 5. gr. Einungis er heimilt að gera leiðréttingar á kjörskrá ef sýnt er fram á að tilkynning hafi verið send eigi síðar en 15. júlí.

Kosningin skal hefjast 15. ágúst og standa í tvær vikur. Úrslit skulu kynnt þegar þau liggja fyrir.

Láti formaður af störfum kýs stjórn sambandsins nýjan formann úr sínum hópi, til loka kjörtímabils.

Myndin að ofan er frá setningu landsþings á Akureyri 2022..