Sambandið er formlegur málsvari allra sveitarfélaga gagnvart ríkisvaldinu og byggja samskipti þessara aðila á sveitarstjórnarlögum og samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga.
Í XIII. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er fjallað um formlegt samráð og samstarf ríkis og sveitarfélaga í 128. gr. þar sem kveðið er á um samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga og hins vegar í 101. gr. þar sem kveðið er á um samráð vegna breytingar á verkaskiptingu eða fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga:
128. gr. Formlegt samráð og samstarf ríkis og sveitarfélaga.
Ríkisstjórnin skal tryggja formlegt og reglubundið samstarf við sveitarfélögin um mikilvæg stjórnarmálefni sem tengjast stöðu og verkefnum sveitarfélaga. Formlegt samstarf skal m.a. fara fram um framlagningu lagafrumvarpa sem varða sveitarfélögin og um stjórn fjármála hins opinbera, verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og önnur mikilvæg mál sem varða hagsmuni sveitarfélaganna eða fjármál.
Samstarfsráð ríkis og sveitarfélaga skal funda að lágmarki einu sinni á ári. Fast sæti á fundum samstarfsráðsins eiga ráðherra sveitarstjórnarmála og sá ráðherra er fer með fjárreiður ríkisins og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Aðrir ráðherrar sitja fundi samstarfsráðsins eftir því sem tilefni er til hverju sinni. Um skipan samstarfsráðsins fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum samstarfssáttmála, sbr. 4. mgr.
Yfirumsjón með samstarfi samkvæmt þessari grein hefur samstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga. Í henni eiga sæti ráðuneytisstjórar ráðuneytis sveitarstjórnarmála og [þess ráðuneytis er fer með fjárreiður ríkisins]1) og þrír fulltrúar tilnefndir af stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ef þörf er á getur samstarfsnefndin ákveðið að kalla til fulltrúa fleiri ráðuneyta. Samstarfsnefndin starfar í umboði samstarfsráðsins og er vettvangur fyrir reglulega umfjöllun um samskiptamál ríkis og sveitarfélaga.
Samstarf samkvæmt þessari grein skal nánar útfært í samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga sem unninn skal af samstarfsnefnd eða í sérlögum eftir því sem við á. Þar skal einnig fjallað um gerð árlegrar þjóðhags- og landshlutaspár sem leggja ber til grundvallar í samstarfi samkvæmt þessari grein og sveitarfélögum er skylt, eftir því sem við á, að byggja á við gerð fjárhagsáætlana.
Fyrsti samstarfssamningur ríkis og sveitarfélaga var gerður árið 1984 og var við gerð hans höfð hliðsjón af sams konar samningi sem gilti í Finnlandi. Síðan voru gerðir nýir samningar að jafnaði til tveggja ára í senn.
Núgildandi samstarfssáttmáli er frá 2. apríl 2008 og er hann ótímabundinn en með ákvæði um endurskoðun ef annar hvor aðili telur ástæðu til.
Markmiðið með samstarfssáttmálanum er að efla formlegt samstarf ríkis og sveitarfélaga. Með gerð samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga er stefnt að því að:
- efla gagnkvæman skilning á viðfangsefnum og þörfum hvors aðila fyrir sig í samfélagslegu og efnahagslegu tilliti,
- koma á reglubundnum samskiptum aðilanna,
- stuðla að sameiginlegri sýn á þróun, stöðu og framtíð sveitarstjórnarstigsins,
- samræma, eftir því sem kostur er, stefnu ríkis og sveitarfélaga í opinberum fjármálum og rekstri, með það fyrir augum að unnt verði að ná þeim efnahagsmarkmiðum sem ríkisstjórnin og Alþingi ákvarða á hverjum tíma,
- stuðla að aðhaldi og ábyrgð í opinberum rekstri,
- stuðla að upplýstri umræðu um sveitarstjórnarmál.
Starfandi er samstarfsnefnd um samskipti ríkis og sveitarfélaga á grunni samstarfssáttmála þessara aðila, svokölluð Jónsmessunefnd.
Nefndina skipa:
- Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis
- Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu
- Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga
- Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs.
Tilgangur nefndarinnar er að auka traust og formfestu í samskiptum ríkis og sveitarfélaga, bæta stjórnsýslu hins opinbera og efla gagnkvæman skilning á viðfangsefnum og þörfum hvors aðila fyrir sig. Nefndin skal fara yfir einstök mál sem vísað er til hennar og jafnframt skal nefndin taka sérstaklega upp á fundum sínum umræðu um með hvaða hætt er unnt að bæta verkferla og samskipti þessara stjórnsýslustiga.
Að hálfu sambandsins starfar Arnar Þór Sævarsson framkvæmdastjóri með nefndinni.