Yfirlýsing vegna kröfu FG um greiðslur vegna COVID-19

Kjaraviði Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur borist fyrirspurnir frá sveitarfélögum og skólastjórnendum í kjölfar þess að Félag grunnskólakennara hefur sent félagsmönnum upplýsingar um að þeir eigi rétt á greiðslum vegna COVID-19.

Vísað er til þess af hálfu FG að samkvæmt ákvæðum kjarasamnings eigi kennari, sem fær upphringingu frá skólastjóra um kvöld eða helgi þar sem óskað er eftir aðstoð við smitrakningu, rétt á greiðslum samkvæmt kjarasamningsgrein 2.3.3 um útköll. Þá er jafnframt gerð krafa um að þegar kennarar fara í hraðpróf að beiðni skólastjóra eigi þeir rétt á greiðslum samkvæmt sömu grein um útkall.

Framangreint ákvæði um útköll er skýrt enda felist í útkalli að starfsmaður sé kallaður til vinnu þegar föstum vinnutíma er lokið. Með vísan til félagsdóms í máli nr. F-6/2003 eru takmörk á því hvað telst útkall í skilningi kjarasamnings. Það er því rangt sem FG heldur fram að greiða eigi í öllum tilvikum útkall þegar haft er samband við starfsmann.

Í yfirlýsingu kjarasviðs sambandsins kemur fram það álit að óháð því hvort um er að ræða neyðarstig almannavarnarlaga eða ekki þurfi vinnuveitandi ekki að greiða kennurum útkall vegna símtala sem honum berast s.s. vegna aðstoðar við smitrakningu, upplýsingaöflunar eða tilkynningar í tengslum við starf hans.