Vegna ályktana frá ársfundi Skólastjórafélags Íslands þann 13. október sl. og undirritaðar eru af Þorsteini Sæberg, formanni félagsins, vill Samninganefnd sveitarfélaga, SNS, að staðreyndum málsins verði haldið til haga.
Vegna ályktana frá ársfundi Skólastjórafélags Íslands þann 13. október sl. og undirritaðar eru af Þorsteini Sæberg, formanni félagsins, vill Samninganefnd sveitarfélaga (SNS) að eftirfarandi staðreyndum sé haldið til haga:
- Í gildi er kjarasamningur milli Skólastjórafélags Íslands (SÍ) og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem var niðurstaða kjaraviðræðna milli aðila og samþykktur var í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna SÍ.
- Kjarasamningur aðila gildir til 31. mars 2019 og fram til þess tíma ríkir friðarskylda milli aðila.
- Samningnefnd sveitarfélaga virðir gerða kjarasamninga þar með talin gildandi ákvæði um launasetningu og mat á menntun.
- Á gildistíma kjarasamnings aðila hafa hins vegar orðið breytingar á kjarasamningi við Félag grunnskólakennara sem valdið hafa misgengi á milli kjarasamninga grunnskólakennara og stjórnenda í grunnskólum.
- Til að bregðast við þeim aðstæðum voru gerðar breytingar á kjarasamningi aðila bæði 17. mars og 26. október árið 2017, þar sem laun skólastjóra, aðstoðarskólastjóra, deildarstjóra og starfsmanna skólaskrifstofa voru leiðrétt.
- Með sama hætti var félaginu boðin leiðrétting á launum félagsmanna í kjölfar nýs kjarasamnings við Félag grunnskólakennara sem undirritaður var þann 25. maí sl.
- Það tilboð var lagt fram á grundvelli samþykktar stjórnar sambandsins frá 26. júní sl. og fól í sér launaleiðréttingu er myndi tryggja að launabil milli kennara og stjórnenda haldist óbreytt út samningstímann.
- Einnig hefur SNS lýst áhuga á að ræða breytingar á menntunarkafla skólastjóra á samningstímanum þannig að sú breyting geti komið til framkvæmda með næsta kjarasamningi.
- Forysta SÍ hefur hafnað tilboði SNS, bæði um leiðréttingu launa skólastjórnenda og umræðu um breytingar á menntunarkafla kjarasamningsins.
Að þessu sögðu vísar Samninganefnd sveitarfélaga athugasemdum formanns stjórnar Skólastjórafélags Íslands um störf og viðhorf Samninganefndar sveitarfélaganna til föðurhúsanna og bendir á að samningsaðilar bera jafna ábyrgð á undirrituðum kjarasamningi.