Yfirlit um afgreiðslu þingmála á vorþingi 2021

Lögfræði- og velferðarsvið sambandsins hefur lagt fram yfirlit um afgreiðslur þingmála á vorþingi 2021.

Það löggjafarþing sem nú er að ljúka hefur líkt og síðasta þing einkennst nokkuð af Covid-19 heimsfaraldrinum. Þar sem um er að ræða síðasta löggjafarþing fyrir Alþingiskosningar var lagður fram mikill fjöldi frumvarpa og þingsályktunartillagna frá ráðherrum og er umtalsverður hluti þeirra mála fremur seint fram kominn. Mörg mál hlutu þau örlög að þurfa að bíða næsta þings.

Umfangsmestu mál sem snúa að sveitarfélögum

Í þessu yfirliti er rakin staða helstu mála á vorþingi sem tengjast sveitarstjórnarstiginu. Framundan er innleiðing umfangsmikilla lagabreytinga, einkum á velferðarsviði varðandi barnavernd og samþættingu farsældarþjónustu í þágu barna. Um er að ræða nokkur frumvörp sem annars vegar snúa að samþættingu þjónustu og hins vegar að hlutverki stofnana sem koma að málefnum barna og eftirliti með þjónustu sveitarfélaga. Mikilvægt er að innleiðing þessara breytinga verði markviss og mun sambandið leggja mikla áherslu á að ná góðu samstarfi við hlutaðeigandi ráðuneyti og stofnanir um þá vinnu.

Breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs og tengdum lögum, ásamt útgáfu á stefnu ráðherra um meðhöndlun úrgangs, munu einnig hafa í för með sér miklar breytingar og mun sambandið leggja áherslu á gott samstarf við umhverfis- og auðlindaráðuneyti og Umhverfisstofnun um fræðslu og leiðbeiningar til sveitarfélaga.

Einnig er stórum áfanga náð með setningu nýrra heildarlaga um kosningar, þar sem sameinuð eru í einn lagabálk nánast öll lagaákvæði um opinberar kosningar. Lögin taka gildi 1. janúar 2022 og verður í fyrsta sinn kosið á grundvelli þeirra í sveitarstjórnarkosningum árið 2022. Vert er að vekja sérstaka athygli sveitarstjórna á því að ákvæði um kjördag í almennum sveitarstjórnarkosningum hefur verið breytt og munu þær framvegis fara fram annan laugardag maímánaðar. Beri sveitarstjórnarkosningar upp á laugardag fyrir hvítasunnu skal kjördegi þó flýtt um eina viku.

Afgreidd lagafrumvörp

Þingsályktanir

Mál sem ekki hlutu afgreiðslu

Viðauki – tölfræðiupplýsingar um umsagnir

Lögfræði- og velferðarsvið hefur tekið saman tölfræði um umsagnir sviðsins á þessum þingvetri (1. september 2020 til 10. júní 2021). Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd veitti sviðið, f.h. sambandsins, 53 umsagnir til Alþingis, 57 umsagnir voru sendar í samráðsgátt og 10 umsagnir voru sendar beint til ráðuneyta eða stofnana. Í heild veitti sviðið því 120 umsagnir á umræddu tímabili. Rétt er að taka fram að í allmörgum tilfellum er um sömu mál að ræða þ.e. að sambandið veiti umsagnir um sama mál fyrst til ráðuneytis, svo í samráðsgátt og að lokum til Alþingis.

Mynd 1: Skipting umsagna eftir viðtakendum

Hvað varðar skiptingu eftir málaflokkum má sjá á meðfylgjandi mynd að flest mál sem sviðið veitti umsagnir um eru á sviði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

Mynd 2: Skipting umsagna eftir ráðuneytum