Vörðum leiðina saman

Samráð innviðaráðuneytisins með íbúum um stefnumótun í samgöngum, sveitarstjórnarmálum og húsnæðis- og skipulagsmálum.

Innviðaráðuneytið býður, í samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga, íbúum í öllum landshlutum til opins samráðs á fjarfundum í október undir yfirskriftinni Vörðum leiðina saman.

Á fjarfundunum verður kastljósinu beint að framtíðaráskorunum í málaflokkum ráðuneytisins. Meginviðfangsefni þeirra verða umræður og stefnumótun í samgöngum, sveitarstjórnarmálum og húsnæðis- og skipulagsmálum. Einnig verður fjallað um nýsamþykkta byggðaáætlun.

Öllum er velkomið að taka þátt í fjarfundunum, sem flestir eru haldnir milli kl. 15:00-17:00 á auglýstum fundardögum. Fundirnir verða haldnir í gegnum fjarfundarbúnaðinn Teams. Hægt er að skrá sig á vef Stjórnarráðsins. Skráningu lýkur daginn fyrir hvern fund. Þátttakendur fá boð í tölvupósti til að tengja sig á fundina.

Fundardagar:

  • 10. október - Höfuðborgarsvæðið
  • 11. október - Suðurland
  • 18. október - Austurland
  • 19. október - Norðurland eystra
  • 20. október - Norðurland vestra
  • 24. október - Vestfirðir
  • 26. október - Vesturland
  • 27. október - Suðurnes