Þann 21. júní sl. undirrituðu félags- og vinnumarkaðsráðherra, heilbrigðisráðherra, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og formaður Landsambands eldri borgara, viljayfirlýsingu um heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk.
Með undirrituninni lýsa þessir aðilar yfir vilja til þess að auka samstarf og samvinnu varðandi málefni eldra fólks með það að markmiði að tryggja eldra fólki samhæfða þjónustu við hæfi, á réttu þjónustustigi og á réttum tíma hvort sem um er að ræða stuðningsþjónustu á vegum sveitarfélaga eða heilbrigðisþjónustu á vegum ríkisins.
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, fagnaði þessu skrefi sem vonandi mun leiða til enn betri þjónustu við elstu íbúa landsins.
Sveitarfélögin eru í dag að veita mikilvæga þjónustu á heimilum eldra fólks og því verður án vafa gríðarlegur akkur í aukinni samhæfingu þeirrar þjónustu sem ríkið veitir annars vegar og sveitarfélögin hins vegar. Það liggur fyrir að fjölga mun mjög í hópi elstu íbúa landsins og því mikilvægt að þegar í stað verið mörkuð stefna í þessum málaflokki enda viljum við öll búa vel að elstu íbúum þessa lands.
sagði Aldís Hafsteinsdóttir m.a. við undirritunina
Í máli sínu lagði Aldís einnig áherslu á forvarnir og heilsueflandi aðgerðir en sveitarfélög hafa mörg hver stigið stór skref hvað varðar heilsueflandi aðgerðir fyrir þennan hóp. Mikilvægt er þó að slíkar aðgerðir miði að öllum íbúum því öll eldumst við ef lífið leyfir og því þurfa allir að huga að heilsu sinni og sveitarfélögin að sama skapi að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að heilbrigðan lífsstíl einfaldari og eftirsóknarverðari.
Verkefnastjórn skipuð
Skipuð hefur verið verkefnastjórn sem hefur það hlutverk að leiða vinnu við heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk, að stuðla að samvinnu og samhæfingu á milli ráðuneyta, sveitarfélaga og annarra þjónustuaðila, forgangsraða og útfæra tímasett markmið í aðgerðaáætlun til fjögurra ára sem lögð verði fram á Alþingi vorið 2023. Í framhaldi af því skal verkefnastjórnin vinna skipulega að innleiðingu og framkvæmd fyrrgreindrar aðgerðaáætlunar meðal annars með tillögum um hvaða breytingar á lögum og reglugerðum þarf að ráðast í til að ná fram þeim markmiðum sem sett eru fram.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram það markmið að tryggja eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um er að ræða stuðningsþjónustu eða heilbrigðisþjónustu, á forsendum þess sjálfs, á réttu þjónustustigi og á viðunandi tíma. Þverfaglegt samstarf félags- og heilbrigðisþjónustu er grundvallaratriði til að ná fram samlegðaráhrifum fagþekkingar á hvoru sviði fyrir sig og tryggja þannig betri þjónustu við stækkandi þjóðfélagshóp meðal annars með samþættingu á þjónustu, forvörnum, heilsueflingu og aukinni virkni fólks.