Með vísan til 5. gr. 2. mgr. laga nf. 162/2006 með síðari breytingum setti stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga viðmiðunarreglur um framlög til stjórnmálaflokka á fundi sínum þann 13. desember 2019.
Sveitarfélag skal veita stjórnmálasamtökum, sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn í sveitarstjórn eða hlotið hið minnsta 5% atkvæða í næstliðnum sveitarstjórnarkosningum, árleg fjárframlög til starfsemi sinnar. Gilda hér um ákvæði 2. mgr. 5.gr. laga nr. 162/2006. Skal framlögum úthlutað í hlutfalli við atkvæðamagn. Miða skal við að greiða 175 kr. á hvern íbúa sem lögheimili á í sveitarfélaginu 1. janúar á ári hverju. Þessi fjárhæð tekur breytingum árlega miðað við vísitölu neysluverðs í október ár hvert og er grunnvísitalan 472,2 stig, m.v. október 2019.
Skilyrði úthlutunar framlaga er að viðkomandi stjórnmálasamtök hafi áður uppfyllt upplýsingaskyldu sína við ríkisendurskoðanda, sbr. 8. og 9. gr. laga um laga um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra nr. 162/2006.
Á því ári sem sveitarstjórnarkosningar eru haldnar skal úthlutað helmingi árlegs framlags fyrir kosningar, en síðari helmingi að þeim loknum og þá í samræmi við kjörfylgi í nýafstöðnum kosningum.
Reglur þessar eiga eingöngu við um þau sveitarfélög þar sem bundnar hlutfallskosningar til sveitarstjórna eru viðhafðar.
Um er að ræða viðmiðunarreglur og er sveitarfélögum í sjálfsvald sett hvort þau nýti sér þær.