Alþingi samþykkti um síðustu helgi stjórnarfrumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, um breytingu á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga.
Ein meginbreytingin felur í sér að stefnt skuli að því að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga verði ekki undir 1.000 manns.
Lagabreytingarnar í samræmi við markmið í stefnu í málefnum sveitarfélaga fyrir tímabilið 2019 til 2033 sem Alþingi hefur samþykkt. Markmiðið er að styrkja umgjörð og grundvöll sveitarstjórnarstigsins og tryggja að sveitarfélög geti sinnt lögbundinni skyldu sinni.
Markmiðið er að auka sjálfstjórn og sjálfbærni sveitarfélaga og efla sveitarstjórnarstigið í heild þannig að sveitarfélögin séu betur í stakk búin til að mæta margvíslegum áskorunum sem þau og samfélagið allt stendur frammi fyrir á hverjum tíma, sem og að sinna brýnum hagsmunamálum íbúanna.
Lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga
Í því skyni að auka sjálfbærni sveitarfélaga og tryggja getu þeirra til að annast lögbundin verkefni skal nú stefna að því að lágmarksíbúafjöldi sé ekki undir 1.000. Ef íbúafjöldi er undir þeim mörkum við almennar sveitarstjórnarkosningar skal sveitarstjórn þess, innan árs frá þeim kosningum, leitast við að markmiðinu með því að:
- hefja formlegar sameiningarviðræður við annað eða önnur sveitarfélög eða
- vinna álit um stöðu sveitarfélagsins, getu þess til að sinna lögbundnum verkefnum og um þau tækifæri sem felast í mögulegum kostum sameiningar sveitarfélagsins við annað eða önnur sveitarfélög.
Eftir þinglega meðferð var horfið frá því að ráðherra geti haft frumkvæði að sameiningu sveitarfélaga hafi sveitarfélögum ekki tekist að ná lágmarksíbúafjölda fyrir árið 2026.
Mikilvæg hagræn áhrif
Í greinargerð með frumvarpinu var fjallað um greiningu á hagrænum áhrifum þess að fækka sveitarfélögum með því að hafa viðmið um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga. Samkvæmt greiningunni er áætlað að hagræn áhrif kunni að verða 3,6–5 milljarðar kr. vegna breyttra áherslna við rekstur sveitarfélaga. Þannig kann mögulegur sparnaður sem verður í rekstri stjórnsýslu sveitarfélaga að verða nýttur til að auka þjónustustig við íbúa sveitarfélaga. Einhver kostnaður mun koma til vegna undirbúnings sameininga en gert er ráð fyrir að sveitarfélög geti sótt um styrki fyrir slíku til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
Ýmsar aðrar breytingar
Önnur ákvæði frumvarpsins snúa að sameiningu sveitarfélaga, s.s. ákvæði sem skýrir og bætir heimildir sveitarfélaga til að nýta fjarfundabúnað á fundum sínum. Einnig er lagt til að sveitarfélög þurfi að mó
ta stefnu um þjónustustig byggða sem eru fjarri stærri byggðakjörnum. Að auki eru lagðar til ýmsar aðrar breytingar sem miða að því að draga úr lagahindrunum við sameiningu sveitarfélaga.
- Lög um breytingu á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga (lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags) - þingskjal er í undirbúningi en hlekkurinn vísar á þingmálið á vef Alþingis