Við verðum að vinna að því að sveitarfélög verði án aðgreiningar

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður sambandsins, ávarpaði samráðsþing í Hörpu í gær um landsáætlun um innleiðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Sambandið stóð að þinginu ásamt félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, forsætisráðuneytinu, ÖBÍ réttindasamtökum Landssamtökunum Þroskahjálp og Geðhjálp.

Landsáætlunin er liður í innleiðingu og lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Landsáætlunin markar tímamót, enda fer nú í fyrsta sinn fram heildstæð stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks á Íslandi. Markmiðið er að fatlað fólk geti notið mannréttinda og mannfrelsis til fulls og til jafns við annað fólk.

Samráðsþingið var liður í gerð landsáætlunarinnar. Áætlunin mun ná til allra þeirra málefnasviða sem falla undir samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Henni fylgja skýrt skilgreind markmið og aðgerðir til að ná markmiðunum. Við setningu markmiðanna verða settir fram mælikvarðar og framvindan verður síðan metin á árlegu samráðsþingi.

Heiða Björg lagði sérstaka áherslu á að unnin verði heildarstefna í málefnum fatlaðs fólks. Tók hún fram að mikilvægt væri að hafa “… skýra framtíðarsýn í málaflokknum og að henni fylgi aðgerðaráætlun þar sem aðgerðum er forgangsraðað og að fullu fjármagnaðar.Í þeirri vinnu þarf að vera sérstök áhersla á að stytta biðlista eftir búsetuúrræðum og tryggja samfellu í þjónustu þegar fatlaður einstaklingur nær fullorðinsaldri.”

meðan ekki er komin niðurstaða í fjármögnun á þeim hallarekstri í málaflokknum sem sveitarfélögin eru að glíma við, og sem fer alltof ört vaxandi, er mjög erfitt fyrir mig, sem formann Sambands íslenskra sveitarfélaga að lýsa stuðningi við að auknar skyldur verði lagðar á sveitarfélögin. En ég bind að sjálfsögðu vonir við að niðurstaða í viðræðum um lausn á þessum vanda muni skila okkur nær ásættanlegri niðurstöðu og að í þeirri vinnu verði sérstaklega horft til framtíðaráskorana í málaflokknum.”

Heiða Björg tók samt sem áður skýrt fram að “… við tökum af heilum hug þátt í gerð landsáætlunar um innleiðingu sáttmálans. En við munum leggja þunga áherslu á að aðgerðir og lagabreytingar sem kunna að leiða af innleiðingu sáttmálans hljóti vandað kostnaðarmat og að jafnframt verði tryggð fjármögnun þar sem horft verði til framtíðaráskorana í málaflokknum.” 

Í lok þingsins undirritaði Heiða ásamt öðrum gestum samstarfsyfirlýsingu um verklag við gerð landsáætlunar – og þurfti fjögurra metra langan borða fyrir undirritunina.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Guðmundur Ingi Kristinsson, formaður þingflokks Flokks fólksins, og Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður stjornar Sambands íslenskra sveitarfélaga undirrita samstarfsyfirlýsinguna.