Auk þess sem ráðist verður í heildarendurskoðun á barnaverndarlögum og skýrar formkröfur settar um samskiptahætti stjórnvalda í barnavernd, verður eftirlit með barnaverndarstarfi að hluta falið nýrri gæða- og eftirlitsstofnun. Velferðarráðuneytið boðar með þessum breytingum öflugra barnaverndarstarf á grunni sterkari stjórnsýslu. Ráðuneytið vonast einnig til að Barnaverndarstofa endurheimti samhliða fyrra traust.
Auk þess sem ráðist verður í heildarendurskoðun á barnaverndarlögum og skýrar formkröfur settar um samskiptahætti stjórnvalda í barnavernd, verður eftirlit með barnaverndarstarfi að hluta falið nýrri gæða- og eftirlitsstofnun. Velferðarráðuneytið boðar með þessum breytingum öflugra barnaverndarstarf á grunni sterkari stjórnsýslu. Ráðuneytið vonast einnig til að Barnaverndarstofa endurheimti samhliða fyrra traust.
Frumvarp til laga um eftirlit með barnavernd er þegar komið á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar, en hluti þeirra verkefna sem þar er tíundaður verður á höndum nýrrar gæða- og eftirlitsstofnunar sem tekur til starfa innan skamms hjá velferðarráðuneytinu.
Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, fundaði í lok síðustu viku með formönnum barnaverndarnefnda Reykjavíkur, Hafnarfjarðar og Kópavogs og kynnti þeim þessar áformuðu breytingar, en formenn nefndanna leituðu í vetur ásjár velferðarráðuneytisins vegna Barnaverndarstofu og samskipta við forstjóra hennar.
Ráðherra segir að fyrirhugaðar breytingar á sviði barnaverndar séu að hluta til liður í viðbrögðum ráðuneytisins til að endurheimta traust í kjölfar fyrrnefndra umkvartana, þó að þeim sé einnig ætlað að bæta stjórnsýslu málaflokksins og stuðla að þróun nýrra úrræða í barnavernd.
Þá hefur félagsmálaráðherra einnig ákveðið að ráðast í ítarlega skoðun á þjónustu við börn með það meginmarkmiði að tryggja skjóta íhlutun og stuðla að samfellu í þjónustunni þannig að hún mæti sem best þörfum barna og fjölskyldna. Þessi vinna mun skv. upplýsingum frá velferðarráðuneytinu nýtast við yfirstandandi endurskoðun á barnaverndarlögum og kveðið er á um í framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar nr. 15/146. Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, mun á næstunni vinna að verkefnum sem þessu tengjast á grundvelli samkomulags sem gert hefur verið á milli hans og velferðarráðuneytisins.