Vel heppnaður fundur um stafræna þróun sveitarfélaga

Í morgun stóð Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir fundi í gegnum fjarfundabúnaðinn Zoom undir heitinu „Stafræn þróun sveitarfélaga – hvaða árangri viljum við ná?“ Fundurinn var ákaflega vel sóttur en ríflega 200 manns litu við á fundinn en lengst af voru um 190 manns á fundinum samtímis.

Í morgun stóð Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir fundi í gegnum fjarfundabúnaðinn Zoom undir heitinu „Stafræn þróun sveitarfélaga - hvaða árangri viljum við ná?“ Fundurinn var ákaflega vel sóttur en ríflega 200 manns litu við á fundinn en lengst af voru um 190 manns á fundinum samtímis.

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður sambandsins, setti fundinn og lagði í erindi sínu áherslu á mikilvægi þess að sveitarfélögin nýttu þá reynslu sem skapast hefur í kjölfar COVID-19 til þess að vinna áfram að stafrænum lausnum í þjónustu sinni.

Fjóla María Ágústsdóttir, breytingastjóri stafrænnar þjónustu hjá sambandinu, ræddi því næst um samstarf og tækifæri sveitarfélaga í stafrænni framþróun. Hún lagði áherslu á að hugafærið væri stærsta tækifærið og framfarahugsun. Einnig tók hún fram hversu mikilvægt það er að sveitarfélög vinni saman á þessari vegferð og ræddi þau atriði sem skipta máli í því ljósi.

Andri Heiðar Kristinsson, stafrænn leiðtogi hjá Stafrænu Íslandi, sagði frá stafrænni vegferð hins opinbera. Hann sagði frá sýn ríkisins á stafrænar lausnir og aukinni áherslu ríkisins á þær samhliða því markmiði að bæta og fjölga þeim sem nýta sér lausnir sem island.is býður uppá.

Aðalfyrirlesari morgunsins var Sören Frederik Begenov-Bayer. Erindi hans nefndist The Danish Case- Digital transformation in the public sector in Denmark. Í erindi sínu ræddi hann um reynslu Dana sl. ár af stafrænum lausnum og lagði áherslu á að samvinna sveitarfélaga væri lykill að góðum árangri. Stafrænar lausnir geta verið kostnaðarsamar og þá getur verið gott að deila kostnaðinum á milli sveitarfélaga sem koma til með að nota þær.

Fjárhagsaðstoðarlausn Reykjavíkurborgar var heiti erindis Eddu Jónsdóttur, teymisstjóra hjá Stafrænni Reykjavík. Fór hún í grófum dráttum yfir aðferðafræðina sem beitt var við hönnun stafrænnar fjárhagsaðstoðarlausnar Reykjavíkurborgar. Aðferðarfræðin byggðist á að hlutsta á þarfir notenda, virkrar þátttöku velferðarsviðs og þvegfaglegrar þátttöku annarra sviða og deilda.

Að lokum rammaði Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrarbæjar, inn umræðurnar í erindi sem hún nefndi Nýir starfshættir, ný framtíð. Í því lokaði hún hringnum með því að ítreka samvinnu milli sveitarfélaga þegar kemur að framþróun stafrænna lausna. Hún sagði að nú væri framtíðin komin því nánast yfir nótt hafi sveitarfélög og fyrirtæki landsins tekið upp stafrænar lausnir í ýmsum málum.

Að erindum loknum tók Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, sem var fundarstjóri við nokkrum fyrirspurnum frá þátttakendum og bar undir fyrirlesarana.

Fundurinn var tekinn upp og verður hægt að nálgast erindin með því að smella á tenglana í fréttinni hér að ofan.