Vegvísir ESB í tengslum við kórónafaraldurinn

Þessa dagana er mikil umræða um hvenær og með hvaða hætti verður hægt að aflétta þeim höftum sem gripið hefur verið til í tengslum við kórónafaraldurinn. Víða í Evrópu hefur verið gripið til strangra aðgerða til þess að hefta útbreiðslu kórónavírusins og vernda viðkvæma hópa í samfélaginu.

Þessa dagana er mikil umræða um hvenær og með hvaða hætti verður hægt að aflétta þeim höftum sem gripið hefur verið til í tengslum við kórónafaraldurinn. Víða í Evrópu hefur verið gripið til strangra aðgerða til þess að hefta útbreiðslu kórónavírusins og vernda viðkvæma hópa í samfélaginu. Á meðan að öllum er ljóst að þessar aðgerðir eru nauðsynlegar, þá er engin launung að áhrif þeirra á samfélag og efnahag Evrópu eru gríðarleg. Í þessu ljósi hefur framkvæmdastjórn ESB kynnt til sögunar vegvísi sem er ætlað að tryggja að aðildarríkjum ESB verði kleift að vinna sig út úr þessu ástandi, en án þess að veiran nái sér á strik aftur.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, kynnti í vikunni vegvísinn og lagði áherslu á að fyrst og fremst verði leitast við að tryggja heilsu og líf íbúa Evrópu, en á sama tíma verði að huga að afkomu fólks og með hvaða hætti verði unnt að koma hjólum atvinnulífsins í gang að nýju. Þá lagði hún áherslu á að þó svo að afleiðingar faraldursins hafi verið afar mismunandi innan aðildarríkja ESB þá sé um sam-evrópskan vanda að ræða og að nú reyni á samtakamátt ESB ríkjanna.

Með þetta að leiðarljósi leggur framkvæmdastjórn ESB til eftirfarandi vegvísi sem aðildarríkjum ESB er ætlað að hafa til hliðsjónar þegar höftum verður aflétt á næstu vikum og mánuðum.

Í fyrsta lagi er bent á mikilvægi þess að tímasetja vel hvenær slakað er á höftunum og að í því tilliti þurfi að taka mið af eftirfarandi:

  • Það þarf að vera ljóst að faraldurinn sé í rénum, að smitum fari fækkandi og að ákveðinn stöðugleiki hafi náðst hvað varðar smit í samfélaginu.
  • Það þarf að fara hægt í sakirnar til þess að tryggja að heilbrigðiskerfi landanna ráði við ástandið og að grunnþjónusta virki sem skildi. Þar er einkum átt við að gjörgæsludeildir séu í stakk búnar að taka við auknum fjölda sjúklinga verði bakslag í kjölfar þess að höftum er aflétt og að smitum og alvarlega veikum sjúklingum fjölgi á ný.
  • Það þarf að koma á viðamikilli skimun á dreifingu veirunnar og tryggja þarf að hægt sé að rekja smit innan samfélagsins og þannig einangra veiruna og hefta frekari útbreiðslu hennar.

Í öðru lagi er lögð áhersla á að þó svo að áhrif veirunnar innan aðildarríkja ESB sé mjög mismunandi, þá þurfi aðildarríkin að samræma aðgerðir. Þar má m.a. nefna að ríki tilkynni með góðum fyrirvara hvenær og hvaða höftum verði slakað á og að haft sé í huga hugsanlegar afleiðingar þess fyrir önnur aðildarríki. Þá er lagt til að aðgerðir aðildarríkjanna séu samræmdar til þess að tryggja að þær nái tilætluðum árangri.

Í þriðja lagi er lagt til að gripið sé til stuðningsaðgerða þannig að tryggja megi að ekki verði bakslag í baráttunni við kórónaveiruna þegar höftunum er aflétt. Meðal annars þarf að tryggja örugga öflun upplýsinga um smit og kerfi til þess að rekja smit í samfélaginu. Mælt er með því að nýta stafræna tækni í þessu tilliti, en að jafnframt sé gætt að persónuvernd. Þá þarf að auka verulega skimun á smitum innan aðildarríkja ESB og samræma þá aðferðafræði sem notuð er við mælingar. Þá er lögð áhersla á að aðildarríki ESB beiti sér í þróun meðferða og lyfja til þess að takast á við kórónavírusinn og að þróun á bóluefni sé hraðað eins og kostur sé.

Þessu samfara hefur Framkvæmdastjórn ESB kynnt aðgerðapakka sem ætlað er að aðstoða aðildarríki ESB við að komast í gegnum það ástand sem nú ríkir. Þar má nefna SURE sem er lánapakki upp á 100 milljarða evra og er ætlað að aðstoða þá sem hafa misst vinnuna vegna kórónaveirunnar og fyrirtæki sem standa höllum fæti vegna þeirra hafta sem gripið hefur verið til. Þá verður styrkjakerfi ESB aðlagað að núverandi ástandi þannig að hægt sé að nýta þá fjármuni til að styðja við endurreisn hagkerfa Evrópu.

Ljóst er að aðgerðir ESB hafa óbein áhrif á EFTA ríkin vegna náins samstarfs ESB og EFTA ríkjanna. Hvort aðgerðir ESB hafi bein áhrif á EFTA ríkin í gegnum EES samninginn á hins vegar eftir að koma í ljós. Það er þó ljóst að aðgerðapakkar eins og t.d. SURE ná ekki til EES samningsins. EFTA ríkin hafa hins vegar aðgang að hluta af styrkjakerfi ESB og því vert að skoða hvort og þá með hvaða hætti íslenskir aðilar geti nýtt sér ESB styrki til þess að takast á við afleiðingar kórónafaraldursins.