Upptaka frá fundi um Hvítbók um aðlögun að loftslagsbreytingum

Á streymisfundi sem haldinn var miðvikudaginn 23. júní var kastljósinu beint að Hvítbók um aðlögun að loftslagsbreytingum, en umsagnarfrestur í samráðsgátt stjórnvalda um hvítbókina er til 8. júlí n.k.

Framsögumenn á fundinum voru Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra, Halla Sigrún Sigurðardóttir, skrifstofustjóri loftslagsmála í ráðuneytinu og Eygerður Margrétardóttir, sem var fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga í verkefnisstjórn um gerð hvítbókarinnar.

Upptaka frá fundinum.

Framsögumenn gerðu grein fyrir megináherslum hvítbókarinnar í sínum erindum ásamt því að kynnt var hlutverk nýstofnaðrar skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands, sem mun styðja við aðgerðir stjórnvalda og ekki síst efla vísindalega nálgun á viðfangsefnið. Fram kom mikill samhljómur hjá fundarmönnum um mikilvægi þess samhæfa aðgerðir og tryggja í þeim tilgangi gott upplýsingaflæði og samvinnu milli ríkis og sveitarfélaga. Einnig var rætt um mikilvægi þess að fræða sveitarstjórnir og almenning, ekki síst um hvað það geti kostað samfélagið ef ekki er brugðist við loftslagsbreytingum.

Af einstökum aðgerðum sem ræddar voru má m.a. nefna umræðu um viðbúnað gegn gróðureldum. Upplýsti ráðherra um að ríkisstjórnin hafi nýlega fjallað um tillögur um kaup á búnaði fyrir þyrlur Landhelgisgæslunnar til að styðja við slökkvistarf.

Sambandið stefnir á að veita umsögn um hvítbókina áður en umsagnarfrestur rennur út. Loftslagsmál munu jafnframt áfram verða ofarlega á dagskrá Sambands íslenskra sveitarfélaga. Vinna við gerð Verkfærakistu sveitarfélaga er langt komin og munu fulltrúar sveitarfélaga á næstunni eiga kost á að taka þátt í rýni á upplýsingasíðu fyrir sveitarfélög áður en síðan verður formlega opnuð í september.