Ungt fólk á vinnumarkaði og öryggismál

Vinnueftirlitið hefur sent frá sér leiðbeiningar þar sem bent er á ýmis öryggismál er varða sumarvinnu ungs fólks. Sveitarfélög starfrækja vinnuskóla og hafa mörg ungmenni á launaskrá yfir sumartímann. Mikilvægt er að þau fái jákvæða upplifun af því að stíga sín fyrstu skref út á vinnumarkaðinn.

Ungmenni í Vinnuskóla Hafnarfjarðar.

Eitt af meginmarkmiðum Vinnueftirlitsins er að tryggja að allir komi heilir heim úr vinnu. Í því samhengi hafa atvinnurekendur mikilvægu hlutverki að gegna. Á það ekki hvað síst við þegar kemur að ungmennum.

Ungmennum hættara við slysum

Íslensk ungmenni hafa í gegnum tíðina byrjað snemma að vinna og taka að sér ýmis konar störf. Má þar nefna í matvöruverslunum, á veitingastöðum og við garðyrkju. Rannsóknir sýna að ungu fólki er hættara en eldra við að lenda í vinnuslysum og óhöppum en það má meðal annars rekja til skorts á þjálfun og starfsreynslu auk þess sem börn og ungmenni skortir oft þekkingu á þáttum er varða öryggi og heilbrigði við vinnu. Sú skylda hvílir á atvinnurekendum að tryggja þeim örugg vinnuskilyrði, viðeigandi persónuhlífar, fræðslu og þjálfun til að sporna gegn slysum.

Atvinnurekendur þurfa að tryggja öryggi

Í þessum efnum þarf að gera betur en frá árinu 2015 hafa samtals 373 vinnuslys verið tilkynnt til Vinnueftirlitsins í aldurshópnum 18 ára og yngri. Því skiptir máli að atvinnurekendur og þeir sem reyndari eru á vinnustaðnum gæti ávallt að öryggi og góðum aðbúnaði og temji sér að vera góðar fyrirmyndir.

Vinnueftirlitið vill jafnframt hvetja atvinnurekendur til að kynna sér vel efni reglugerðar nr. 426/1999, um vinnu barna og unglinga sem gildir um vinnu einstaklinga undir 18 ára aldri.

Hvers konar störf og vinnutímar henta hvaða aldurshópi?

Í reglugerðinni er fjallað ítarlega um hvaða störf mismunandi hópar mega og mega ekki vinna, þó sú upptalning sé ekki tæmandi. Vakin er athygli á að ungmenni undir 18 ára aldri mega ekki vinna með hættuleg tæki eða að hættulegum verkefnum. Í reglugerðinni er einnig fjallað um áhættumat, leiðbeiningar og kennslu, vinnutíma, kvöld- og næturvinnu sem og hvíldartíma.

Þá er sérstök athygli vakin á því að aðeins er heimilt að ráða börn undir 13 ára aldri til þátttöku í menningar- eða listviðburðum og íþrótta- eða auglýsingastarfsemi. Afla skal leyfis Vinnueftirlitsins áður en til ráðningar kemur vegna vinnu barna yngri en 13 ára.

Gerð áhættumats

Samkvæmt fyrrnefndri reglugerð er atvinnurekanda skylt að gera áhættumat og viðeigandi ráðstafanir byggðar á niðurstöðum matsins til að tryggja öryggi og heilsu ungmenna. Þetta skal gert áður en þau hefja störf og í hvert sinn sem verulegar breytingar eru gerðar á starfsskilyrðum eða verkefnum þeirra. Vinnueftirlitið beinir því til atvinnurekenda að slíkt áhættumat verði gert áður en störf hefjast í sumar, liggi það ekki fyrir nú þegar. Við gerð áhættumatsins skal taka sérstakt tillit til aldurs og þroska ungmennanna, en leiðbeiningar um áhættumat er að finna á heimasíðu stofnunarinnar.

Eftirfarandi staðreyndablöð frá Evrópsku vinnuverndarstofnuninni gætu líka reynst hjálpleg: