Umsókn skilað í LIFE vegna innleiðingar vatnaáætlunar Íslands 

Umsókn um styrk vegna verkefnisins ICEWATER hefur nú verið skilað. Sótt var um í LIFE áætlunina en hún styður við verkefni á sviði umhverfis- og loftslagsmála.

Verkefnið heitir fullu nafni ICEWATER, For the future of water - Implementation of the River Basin Management Plan in Iceland og snýst um innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi. Verkefnið veitir tækifæri til nýsköpunar í stjórnsýslunni með þverfaglegu samstarfi hinna ýmsu aðila með það fyrir augum að bæta vatnsgæði, en virkja um leið möguleika til að hámarka ábata samfélagsins af slíkum aðgerðum. Markmið umsóknarinnar er að innleiða núverandi vatnaáætlun (2022-2027) ásamt því að flýta fyrir innleiðingarverkefnum næstu vatnaáætlunar (2028-2033) með styrk frá Evrópusambandinu.  

Áætlað er að verkefnið standi í 6 ár og snúast verkþættir þess um fræðslu og þekkingaröflun, að auka þekkingu og getu samstarfsaðila og hagaðila við innleiðingu á vatnaáætlun, vöktun, söfnun gagna og þróun á flokkunarkerfum fyrir vatnshlot, úrbótum í fráveitukerfum, rannsóknum, námskeiðum í sýnatökum og greiningum, álagsgreiningu, undirbúningi fyrir gerð næstu vatnaáætlunar, fræðslu til almennings o.fl.  

Það er von allra sem að verkefninu standa að það skili sér í auknum gæðum vatns til sem flestra á Íslandi, og ekki síst til sveitarfélaga um allt land. Umhverfisstofnun hefur leitt þessa vinnu af mikilli fagmennsku og elju en 26 aðilar koma að verkefninu með einum eða öðrum hætti. Umsóknarskrifin hafa krafist mikils samstarfs og tekið lagan tíma en vinnan hefur þó skilað sér í einstaklega glæsilegri umsókn sem við væntum mikils af. Sambandið er stolt af því að hafa tekið þátt í þessari vinnu og um leið og við þökkum samstarfið, óskum við öllum sem tóku þátt innilega til hamingju með árangurinn og hlökkum til frekara samstarfs um þetta mikilvæga verkefni.   

Samstarfsaðilar í verkefninu: Umhverfisstofnun, Veðurstofa Íslands, Hafrannsóknastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Þingvallaþjóðgarður, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, MAST, Orkustofnun, Isavia, Orkuveita Reykjavíkur, Veitur, Orka náttúrunnar, Samband íslenskra sveitarfélaga, Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hveragerðisbær, Reykjavíkurborg, Grundarfjarðarbær, Ísafjarðarbær, Kópavogsbær, RÚV, Náttúruminjasafn Íslands, Eimur, Orkuveita Húsavíkur, Gefn.