Umsögn um lagafrumvarp og stefnu um vindorku

Sambandið hefur veitt umsögn í samráðsgátt um drög að breytingum á lögum nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun ásamt skilabréfi starfshóps þriggja ráðuneyta sem vann að tillögum um meðferð vindorku innan verndar- og orkunýtingaráætlunar, og drögum að þingsályktun um meginreglur og viðmið við mat á vindorkukostum.

Í umsögn sambandsins kemur fram sú almenna afstaða að til lagasetningar um vindorkunýtingu að ákvarðanir um staðsetningu vindorkuvera þurfi að byggja á hlutlægri aðferðafræði þar sem lögð er áhersla á að vindorkuver falli vel inn í landslag og manngert umhverfi. Einnig hefur sambandið talið mikilvægt að umfjöllun um málefnið miðist við að ákvarðanataka um hvort vindorkuver fái að rísa er skipulagsleg og að til framtíðar litið þurfi slíkar ákvarðanir að rúmast innan þess regluverks sem almennt gildir um skipulagsmál og mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Af þeirri ástæðu lítur sambandið svo á að tillögur starfshópsins þurfi ekki að fela í sér framtíðarfyrirkomulag þótt í þeim kunni að felast möguleg málamiðlun sem sátt kunni að takast um á meðan verið er að afla reynslu af vindorkunýtingu og móta um hana heildstæðan ramma. Fyrirliggjandi tillögur þurfa samt sem áður að fá vandaða rýni.

Gangi tillögur um lagabreytingar og samþykkt stefnumörkunar eftir getur það leitt til umtalsverðrar einföldunar á samþykktarferli vindorkukosta sem eru umfram 10 MW að stærð. Í dag þurfa slíkar tillögur að fara í gegnum allt ferli rammaáætlunar, sem ekki tekur gildi fyrr en við samþykkt þingsályktunar á Alþingi. Þetta er ferli sem getur tekið mörg ár. Þess í stað myndi ferlið taka nokkra mánuði, að því gefnu að þeir tímafrestir sem lagðir eru til í frumvarpinu gangi eftir. Til að tryggja að áform um aukinn málshraða gangi eftir telur sambandið eðlilegt að kveðið verði á um hámarksfrest ráðherra í c-lið 4. gr. frv., líkt og gert er í b-lið sömu greinar um málsmeðferð verkefnisstjórnar rammaáætlunar.

Ábendingar við lagafrumvarpið

Að áliti sambandsins er það verulegur ókostur að þær tillögur sem hér eru til umsagnar afmarkast við gildissvið laga um rammaáætlun. Þær mæta því ekki nema að hluta ákalli sveitarfélaga um heildstæðan lagaramma og stefnu um nýtingu vindorku. Sambandið leggur áherslu á að áður en frumvarpið getur orðið að lögum þurfi að skýra betur tengsl þess fyrirkomulags sem þar er lagt til við fyrirhugaðan kafla um vindorkunýtingu í landsskipulagsstefnu.

Þar sem afar lítið samráð var haft um efni frumvarpsins áður en það var birt í samráðsgátt er tilefni til að hafa á þessu stigi fyrirvara um hvort sú málsmeðferð sem lögð er til í frumvarpinu leiði til bestu mögulegu niðurstöðu. Þótt hér kunni að vera um ákveðna málamiðlun að ræða væri að áliti sambandsins tilefni til að ræða aðra valkosti. Einkum  telur sambandið mögulegt að fela sveitarfélögum meiri ábyrgð við mat á vindorkukostum en lagt er til í frumvarpinu. Forsenda þess er að sett verði skýr stefna og gefnar út leiðbeiningar til sveitarfélaga um framfylgd hennar.

Flokkun svæða

Á þessu stigi gerir sambandið einkum fyrirvara við drög að þingsályktunartillögu varðandi eftirfarandi atriði:

  • Þótt að einhverju leyti sé horft til sömu aðferðar og í Skotlandi um skiptingu lands eftir verndargildi er ljóst að í tillögunni er flokkur 1 (svæði þar sem vindorkunýting er ekki leyfð) mun viðameiri en í Skotlandi, sem leiðir til þess að ýmis svæði sem kunna að teljast álitleg út frá vindafari verði sjálfkrafa útilokuð. Jafnframt er afar smár hluti lands sem fellur í flokk 3 (svæði sem henta vel til vindorkunýtingar).
  • Sambandið áskilur sér rétt til nánari ábendinga um viðmið um flokkun svæða við frekara samráð um málið en ljóst er að Alþingi mun þurfa að rýna vel hvort sú flokkun sem hér er lögð til grundvallar standi í vegi fyrir eðlilegri framþróun vindorkunýtingar. Við frekari umræðu um málið telur sambandið nauðsynlegt að horfa til þess að viðmið um vindorkunýtingu á óbyggðum svæðum verði ekki svo ströng að þau leiði til þess að eingöngu komi til álita að heimila vindorkukosti á láglendi. Sú takmarkaða reynsla sem komin er á vindorkunýtingu hér á landi bendir alls ekki til þess að slík nálgun sé líkleg til að skapa sátt meðal almennings.