Umsögn um fráveitutilskipun kynnt fyrir ráðherra

Fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga kynntu fyrir ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála sameiginlega umsögn sambandsins og Samorku um tillögu Evrópusambandsins að endurskoðaðri tilskipun um fráveitur.

Kynningin fór fram á fundi ráðherra með fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var 27. mars sl.

Tillaga Evrópusambandsins að endurskoðaðri tilskipun um fráveitur.

Opnu umsagnarferli um málið lauk 14. mars sl. og bárust umsagnir víða að um málið. Af hálfu umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra kom fram skýr vilji til þess að eiga gott samstarf um hagsmunagæslu um þetta mikilvæga mál og voru fundarmenn sammála um að eiga gott samstarf um málið á næstu vikum og mánuðum.

Grunnurinn að umsögninni er byggður á ályktun frá Sveitarstjórnarvettvangi EFTA, sem samþykkt var í desember 2022.

Í umsögninni nú er þó farið nokkuð ítarlegar ofan í einstök atriði tillögunnar, ásamt því að horft hefur verið til ábendinga sem komið hafa fram í samskiptum við KS – samtök sveitarfélaga í Noregi, Norsk Vann og fleiri samstarfsaðila. Hefur komið fram mikill vilji af hálfu Norðmanna að eiga frekara samstarf við Samband íslenskra sveitarfélaga og Samorku um málið.

Helstu áherslur sem fram koma í umsögninni eru þessar:

  • Talin er þörf á að greina nánar kostnaðaráhrif tillögunnar og væntan umhverfislegan ávinning. Sambandið og Samorka telja að hætta sé á að kostnaður á dreifbýlum strandsvæðum verði mikill á sama tíma og umhverfislegur ávinningur geti reynst takmarkaður.
  • Gefa  þarf meiri gaum að því að landfræðilegar og veðurfarslegar aðstæður á norðlægum strandsvæðum eru verulega frábrugðnar aðstæðum sunnar í álfunni.
  • Sérstök áhersla er lögð á að í gildandi tilskipun sé gert ráð fyrir flokkun viðtaka fráveitu í viðkvæm svæði og síður viðkvæm svæði. Strandsvæðin hér við land falli öll í flokk síður viðkvæmra svæða. Þörf hefði verið á beinu samráði við stjórnvöld hér á landi áður en tekin var ákvörðun um að fella þessa skiptingu úr tilskipuninni.
  • Gefa þurfi aðildarríkjum svigrúm til að ákveða viðeigandi lausnir sem henta ólíkum aðstæðum og því sé hentugra að setja fram skýr markmið frekar en að fyrirskipa sömu lausnir við ólíkum áskorunum.
  • Gerður er fyrirvari við að þörf sé á að gildissvið tilskipunarinnar verði útvíkkað og að eðlilegra væri, út frá nálægðarreglu, að aðildarríki ákveði sjálf hvaða kröfur eru gerðar um hreinsun frárennslis á stöðum þar sem losun í fráveitu er minni en 2.000 persónueiningar (pe.).
  • Almennt telja sambandið og Samorka jákvætt að horft er til möguleika á að innleiða framleiðendaábyrgð sem mögulega leið til að draga úr mengun. Áherslu þurfi samt að leggja á að uppræta eða draga úr mengun við upptök, frekar en að leggja megináherslu á dýrar fjárfestingar í hreinsistöðvum fráveitna.
  • Tekið er undir sjónarmið fjölmargra umsagnaraðila um að þörf er á að endurskoða fresti til innleiðingar einstakra aðgerða.

Sambandið og Samorka munu fylgja umsögninni eftir með þátttöku í fundum bæði í Brussel og innanlands á næstu vikum og mánuðum og er markmiðið að leita leiða til að hafa áhrif á efni tilskiipunarinnar.