Umsögn um aðgerðaáætlun fyrir bráðaþjónustu og sjúkraflutninga

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur veitt umsögn í samráðsgátt um aðgerðaáætlun fyrir bráðaþjónustu og sjúkraflutninga til ársins 2025. Í umsögninni er gerð athugasemd við að enginn fulltrúi sveitarfélaga eða slökkviliða var í starfshópi um mótun tillagna um þetta mikilvæga málefni.

Ekki hefur heldur farið fram kynning á tillögum starfshópsins fyrir rekstraraðilum slökkviliða. Raunar er hvergi minnst á aðkomu slökkviliða að sjúkraflutningum í tillögu að aðgerðaáætlun sem sætir nokkurri furðu.

Rétt er að árétta að frá upphafi skipulagðra sjúkraflutninga á Íslandi hefur rekstur þeirra að langmestu leyti verið í höndum sveitarfélaganna, samhliða rekstri slökkviliða.  Í dag eru átta slökkvilið í landinu sem sinna sjúkraflutningum á einhvern máta og hafa gert til fjölda ára.  Fjögur þeirra eru með sólarhringsvaktir, hin með starfsmenn í dagvinnu og bakvaktir utan þess.  Íbúafjöldi á þjónustusvæðum þessara slökkviliða er um 300.000 eða um 83% landsmanna. Árið 2020 sinntu þessi átta slökkvilið um 82% allra sjúkraflutninga á landinu.

Í stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga er lögð áhersla á að efla starfsemi slökkviliða. Þar er jafnframt kveðið á um að sambandið aðstoði sveitarfélög sem vilja taka upp viðræður við ríkið um yfirtöku sjúkraflutninga. Lögð er áhersla á að skilgreina þjónustustig og tryggja fjármagn í samræmi við það. Í samskiptum við ríkið á undanförnum árum hefur sambandið margoft bent á að það venti skýrari stefnu af hálfu ríkisins um fyrirkomulag sjúkraflutninga. Fyrir skattgreiðendur felst mikið og augljóst hagræði í því að þessi þjónusta sé samþætt.

Augljóst er að það stuðlar að auknu öryggi almennings ef hægt er að stuðla að öflugu viðbragði, auknum sveigjanleika í mannafla og bættum möguleikum til menntunar og þjálfunar sem endurspeglast almennt í hærra menntunarstigi á þeim stöðum þar sem samrekstur er til staðar. Dæmin hafa margsannað ágæti þessa fyrirkomulags í okkar fámenna landi og það nærtækasta er COVID-19 sem gerði það mögulegt að takast á við aukna og flókna sjúkraflutninga með sóttvörnum á öruggan máta, með nægjum mannskap. 

Að áliti sambandsins er það með öllu óásættanlegt að í fyrirhugaðri aðgerðaáætlun skuli hvergi vera vikið einu orði að þessum mikilvægu þáttum. Frekar virðist hægt að lesa út úr skjalinu, einkum kafla um skilvirk þjónustukaup, að stefnt sé allt aðra átt, þ.e.a.s. að sjúkraflutningar verði boðnir út á almennum markaði. Samband íslenskra sveitarfélaga leggur þunga áherslu á að áður en slík áhersla um einkavæðingu opinberrar þjónustu verði hluti af opinberri stefnu stjórnvalda fari fram vandað og hlutlaust mat á því hvaða áhrif slík stefna geti haft á almannaöryggi.

Hryggjarstykkið í aðgerðaáætluninni er að komið verði á fót miðstöð um bráðaþjónustu og sjúkraflutninga (MBS). Í fyrirliggjandi skýrslum kemur fram að árlegur rekstrarkostnaður slíkrar stofnunar geti orðið um 500 m.kr. á ári. Þar við bætist stofn       kostnaður.

Þar sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur ekki fengið kynningu á þessum áformum er ýmsum spurningum ósvarað um hvort þessum fjármunum er skynsamlega varið, ekki síst á tímum þar sem augljóst er að skera þarf niður útgjöld hins opinbera til að ná markmiðum um jafnvægi í rekstri árið 2025. Í fyrirliggjandi gögnum liggur ekki fyrir hve miklar greiningar hafi farið fram á öðrum valkostum en þeim að setja á fót tiltölulega litla og óhagkvæma ríkisstofnun með 15-20 stöðugildi. Vert er að fram fari umræða um hvort hægt væri að ná helstu markmiðum aðgerðaáætlunarinnar um bætt öryggi með öðrum og hagkvæmari leiðum, svo sem að fela þeim stofnunum sem þegar eiga aðkomu að bráðaþjónustu, sjúkraflutningum, og eftirliti með gæðum, aukið hlutverk ásamt því að auka samvinnu slíkra aðila.

Þrátt fyrir framangreindan fyrirvara um rekstrarfyrirkomulag tekur sambandið undir meginþorra þeirra tillagna um aðgerðir sem fram koma í skjalinu. Mikilvægt er m.a. að leggja aukna áherslu á fjartækni, markvissari menntun og þjálfun starfsfólks við sjúkraflutninga, bætta upplýsingagjöf til almennings og markvissa endurnýjun búnaðar, byggt á þarfagreiningu.

Sambandið ítrekar að lokum vilja sinn til að taka upp viðræður við ríkið um eflingu sjúkraflutninga og slökkviliða í auknu samstarfi enda hafa kröfur aukist á bætta þjónustu og spennandi áskoranir handan við hornið. Í viðræðum við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem nýlega tók við stjórnsýslu brunavarna, hefur verið lagt til að gefin verði út grænbók um framtíðarsýn og áherslur í málaflokknum. Mikilvægt er að heilbrigðisráðuneytið eigi aðkomu að þeirri vinnu. Við frekari vinnu við mótun aðgerðaáætlunar þeirrar sem nú er til umsagnar leggur sambandið áherslu á að horft verði sérstaklega til reynslu sveitarfélaga af rekstri sjúkraflutninga og samreksturs þeirra við slökkviliðin með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi eins og áður hefur komið fram.

Umsögn sambandsins 20. maí 2021