Umsögn sambandsins um vindorkuskýrslu

Líkt og kunnugt er hefur starfshópur skilað ráðherra skýrslu sinni, um valkosti og greiningu á vindorku, ásamt því að hafa kynnt efni hennar á opnum fundum. Í skýrslunni eru dregin saman ýmis álitaefni og settir fram valkostir um hvaða leiðir séu færar.

Mynd: Arteum.ro á Unsplash

Málefnin sem fjallað er um eru m.a. heildarstefnumörkun stjórnvalda um virkjun vindorku, afstaða til þess hvort vindorka heyri áfram undir lög um rammaáætlun og hvernig gjaldtöku af vindorkuverum verði háttað.

Sambandið skilaði umsögn sinni í Samráðsgátt stjórnvalda. Helstu sjónarmið sambandsins voru þau að við vinnu þá sem framundan er við mögulegar lagabreytingar væri nauðsynlegt að leggja meiri áherslu á aðkomu sveitarfélaga að ákvörðunum um virkjanaframkvæmdir, jafnvel þannig að sveitarélög hafi neitunarvald. Einnig var farið yfir sjónarmið er snúa að skattlagningu orkumannvirkja. Ennfremur var í umsögn bent á að skoða þyrfti betur fyrirliggjandi álitamál tengd jöfnunarorku.

Einnig má nefna að stjórn Samtaka orkusveitarfélaga hefur einnig skilað umsögn sinni í samráðsgáttina, sbr. sjá einnig frétt á heimasíðu samtakanna.