Umsagnir sambandsins um Þjóðgarðastofnun og um Hálendisþjóðgarð

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sett inn á samráðsgátt umsagnir um frumvörp til laga um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða og um Hálendisþjóðgarð. Í umsögnunum eru settar fram ítarlegar ábendingar við bæði frumvörpin.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sett inn á samráðsgátt umsagnir um frumvörp til laga um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða og um Hálendisþjóðgarð. Í umsögnunum eru settar fram ítarlegar ábendingar við bæði frumvörpin.

Sambandið telur rétt að halda til haga þeim almenna fyrirvara að í samráðsferli komu fram mjög ólíkar skoðanir um frumvarpið af hálfu sveitarfélaga. Þannig er ljóst að einhverjum sveitarstjórnum hugnast illa að setja á stofn sérstaka Þjóðgarðastofnun. Einnig er ljóst að sveitarstjórnir sjá ekki endilega fyrir sér að umdæmaráð muni reynast heppilegri leið til samráðs um málefni friðlýstra svæða heldur en beint samráð við einstakar sveitarstjórnir.

Áréttað er að ekki er einhugur á sveitarstjórnarstigi um að stofnaður verði Hálendisþjóðgarður.

Við umfjöllun um frumvarp um Hálendisþjóðgarð hefur kristallast að ekki hefur náðst niðurstaða um heimildir til orkunýtingar innan þess svæðis sem félli undir fyrirhugaðan þjóðgarð. Inn í umræðu um málið blandast því að Alþingi hefur ekki lokið umfjöllun um þriðja áfanga áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða (rammaáætlun), en lokaskýrsla verkefnisstjórnar var lögð fram í ágúst 2016.

Sambandið hvetur til þess að reynt verði að ná betri sátt um málið og telur að umræða um það þurfi að þroskast betur, áður en lagafrumvarp verður lagt fram á Alþingi um um stofnun Hálendisþjóðgarðs. Þar sem ákvæði um þjóðgarðinn er víða að finna í frumvarpi til laga um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða telur sambandið sömu sjónarmið eiga við um það frumvarp.

Einnig er vert að setja þann almenna fyrirvara að forsenda árangurs, bæði hvað varðar sameiningu stofnana og stofnun nýs þjóðgarðs á Hálendi Íslands, er að nægilegu fjármagni sé veitt til starfseminnar.