Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent frá umsögn um frumvarp sem heimilar lögheimilisskráningu barna hjá báðum foreldrum. Er í umsögninni áréttuð sú afstaða að sambandið hefur í sambærilegum málum lagst gegn slíkum skráningum og fremur talað fyrir skiptri búsetu barna til að jafna stöðu foreldra.
Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent frá umsögn um frumvarp sem heimilar lögheimilisskráningu barna hjá báðum foreldrum. Er í umsögninni áréttuð sú afstaða að sambandið hefur í sambærilegum málum lagst gegn slíkum skráningum og fremur talað fyrir skiptri búsetu barna til að jafna stöðu foreldra.
Einnig er bent á greinargerð í frumvarpi sem varð að lögum nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur, þar sem tvöfalt lögheimili var m.a. til sérstakrar skoðunar, að erfitt gæti orðið fyrir sveitarfélög að uppfylla skyldur sínar yrði slík skráning heimiluð.
Ástæðan er m.a. sú, að réttaráhrif í íslenskri löggjöf taka mið af þeirri meginreglu að enginn geti átt fleiri en eitt lögheimili hér á landi. Réttindi íbúa og skyldur sveitarfélaga eru þannig bundnar við lögheimili, s.s. í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, leikskóla og grunnskóla svo að dæmi séu tekin. Tvöföld lögheimilisskráning hefur með þessu móti umtalsverð áhrif á starfsemi og rekstur sveitarfélaga, ekki síst í skólamálum sem telja að jafnaði um helming allra útgjalda hjá sveitarfélögum.
Þá er það mat sambandsins að tillögur að svo breyttu lagaumhverfi hljóti að kalla á einhvers konar athugun á því í hverju aðstöðumunur foreldra almennt felist sem fara með sameiginlega forsjá og með hvaða móti megi sem best jafna þann mun út frá þörfum barnsins. Ekki verði sú meginregla heldur sniðgengin að kostnaðargreina umfangsmiklar breytingar á opinberri þjónustu áður en í þær er ráðist.