Velferðarvaktin stendur fyrir opnu málþingi um stöðu tekjuminni hópa á húsnæðismarkaði og fer það fram í næstu viku, fimmtudaginn 9. nóvember, á Hótel Reykjavík Natura kl. 13.00-16.00.
Margir tekjuminni hópar standa frammi fyrir miklum erfiðleikum á húsnæðismarkaði, þar með talið leigjendur, fatlað fólk, námsmenn, ungt fólk, fyrstu kaupendur, öryrkjar og eldra fólk. Markmiðið með málþinginu er að fá fram raunsæja mynd af stöðunni og hvernig bregðast eigi við þeim vanda sem blasir einkum við framangreindum hópum.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, og Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, munu upplýsa um stöðu og eftirfylgni rammasamnings um húsnæðisuppbyggingu sem undirritaður var í júlí 2022. Fulltrúar hagsmunaaðila munu greina frá því hvernig staðan blasir við þeirra hópi. Þá mun fulltrúi ÖBÍ réttindasamtaka kynna nýja skýrslu um húsnæðismál fatlaðs fólks.
Að loknum erindum fara fram umræður á borðum þar sem markmiðið er að fá fram tillögur um aðgerðir sem miða að því að bregðast við stöðunni á húsnæðismarkaði hér og nú og til framtíðar litið.
Málþingið er sem fyrr segir opið öllum. Málþingsstjóri er Lára Ómarsdóttir, fjölmiðlakona.
Dagskrá málþingsins og nánari upplýsingar má finna á vef stjórnarráðsins.